28.3.2023

Ferð utanríkismálanefndar til Washington og New York

Utanríkismálanefnd heimsækir Bandaríkin dagana 27.–31. mars þar sem nefndin mun m.a. fjalla um tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna, öryggis- og varnarmál, málefni Úkraínu, norðurslóðamál, þróunarsamvinnu og loftslagsmál.

Í Washington fundar nefndin m.a. með formanni utanríkismálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, formanni hermálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og fjölda bandarískra þingmanna. Nefndin verður jafnframt viðstödd stofnfund vinahóps Íslands í fulltrúadeild Bandaríkjaþings (Iceland Caucus). Þá á nefndin fundi með fulltrúum utanríkisráðuneytis, varnarmálaráðuneytis (Pentagon), Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins auk þess að kynna sér starfsemi sendiráðs Íslands í Washington.

Í New York sækir nefndin fjölda funda í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna þar sem rædd verða málefni á borð við stríðið í Úkraínu, aðgerðir SÞ í mannúðarmálum, starfsemi Öryggisráðs SÞ, þróunarsamvinnumál, loftslagsmál og heimsmarkmið SÞ. Þá mun nefndin kynna sér starfsemi fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og aðalræðisskrifstofu Íslands í New York.

Fyrir hönd utanríkismálanefndar taka þátt í ferðinni Bjarni Jónsson formaður, Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Friðrik Friðriksson, Logi Einarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.