29.6.2021

Forseti Alþingis fundar með forseta Dúmunnar

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og sendinefnd Alþingis átti í dag fund með Vyacheslav Volodin, forseta Ríkisdúmunnar, og rússneskum þingmönnum. Á fundinum bar umræður um málefni norðurslóða hátt, en Rússland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu af Íslandi á ráðherrafundinum í Reykjavík í síðasta mánuði. Voru forsetarnir sammála um mikilvægi sameiginlegra hagsmuna á norðurslóðum og að þróa beri svæðið með virðingu fyrir umhverfi og íbúum.

Þá ræddu þingforsetarnir tvíhliða samstarf og starf á vettvangi alþjóðlegra þingmannasamtaka. Kom forseti Dúmunnar á framfæri athugasemdum við nýsamþykkta skýrslu og yfirlýsingu um stöðu Krímtatara sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var höfundur að á Evrópuráðsþinginu. Kom fram í svari Steingríms að rétt væri að beina athugasemdum að Evrópuráðsþinginu sjálfu en ekki skýrsluhöfundi, enda hefði skýrslan verið rædd þar og samþykkt með afgerandi meiri hluta viðstaddra þingmanna. Þá væri mikilvægt að geta átt samtal, jafnt um það sem sameinar en ekki síður um ágreiningsmál. Einnig gerði forseti Alþingis að umræðuefni mikilvægi mannréttinda, mannréttindasamninga og mannréttindadómstóls Evrópu, að virða bæri réttindi fólks án tillits til uppruna og tryggja stöðu minnihlutahópa.

A44I9729

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Vyacheslav Volodin, forseta Ríkisdúmunnar, takast í hendur. 
Ljósmynd © Ríkisdúman

Að loknum fundi í Dúmunni átti forseti Alþingis og þingmannasendinefndin fund með varaforseta Sambandsþingsins, Konstantin Kosachov. Á fundinum voru umræður um málefni heimskautasvæðisins einnig ofarlega á dagskrá og mikilvægi þingmannasamstarfs. Þá fundaði sendinefndin með Leonid E. Slutsky, formanni utanríkismálanefndar og fulltrúum þingflokka í Dúmunni. Að því loknu lá leiðin í Moskvuháskóla þar sem forseti átti fund með Viktor Sadovnichyi rektor og ræddu þeir samstarfssamning milli Moskvuháskóla og Háskóla Íslands en gildandi samningur rennur út í sumar. Vinna er í gangi við endurnýjun samstarfsins og lagði forseti áherslu á mikilvægi samskipta ungs fólks og að efla tækifæri íslenskra og rússneskra háskólanema til að kynnast samfélögum hverra annarra.

Í gær átti forseti Alþingis og sendinefnd meðal annars fundi með Vladimir Titov, 1. varautanríkisráðherra Rússlands, og Anatolíj Bobrakov, vararáðherra norðurslóða og þróunar austursvæða. Á fundunum var m.a. rætt um stöðu og horfur í þróun samskipta Rússlands og Íslands, samvinnu um málefni norðurslóða með hliðsjón af formennsku Rússlands í Norðurskautsráðinu, auk stöðunnar í alþjóðamálum. Á fundunum kom fram vilji til að efla enn gagnkvæm samskipti.

Á morgun, að lokinni opinberri dagskrá í Moskvu, heldur Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og þingmannasendiefndin til Sankti Pétursborgar. Þar munu þau eiga fund með Alexandr Beglov héraðsstjóra og Vyacheslav Makarov, forseta héraðsþings Pétursborgar, auk þess að kynna sér starfsemi íslenskra fyrirtækja í borginni.

Sambandsrad

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Konstantin Kosachov,
varaforseti Sambandsþingsins.