20.9.2023

Forseti Möltuþings heimsækir Ísland

Dr. Angelo Farrugia, forseti þjóðþings Möltu, er í opinberri heimsókn á Íslandi í boði Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis, dagana 19.–20. september. Með þingforsetanum í för eru Alison Zerafa Civelli, þingmaður Verkamannaflokks Möltu, og Darren Carabott, þingmaður Þjóðernisflokks Möltu, ásamt sviðsstjóra alþjóðamála á Möltuþingi, Eleanor Scerri.

Í morgun heimsótti sendinefndin frá Möltu Alþingi þar sem Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, tók á móti þeim til fundar. Í framhaldi áttu gestir fund með utanríkismálanefnd Alþingis. Síðar í dag mun forseti Möltuþings og sendinefnd eiga fund með Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, og sækja forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannesson, heim á Bessastaði. Forseti Möltuþings verður við upphaf þingfundar á Alþingi kl. 15 og heldur í framhaldi til Þingvalla. IMG_0051