21.9.2023

Fundur nefndar Evrópuráðsþingsins um fólksflutninga og málefni flóttafólks í Reykjavík 21.–22. september

Nefnd Evrópuráðsþingsins um fólksflutninga og málefni flóttafólks fundar á Grand hóteli í Reykjavík fimmtudaginn 21. og föstudaginn 22. september. Nefndina skipar 81 þingmaður frá ríkjunum 46 sem eiga aðild að Evrópuráðsþinginu og á Birgir Þórarinsson sæti í nefndinni fyrir Íslands hönd. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins skipa Bjarni Jónsson formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir varaformaður og Birgir Þórarinsson.

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra flytja opnunarávarp. Meðal þess sem verður á dagská nefndarinnar er skýrsla Birgis Þórarinssonar um yfirvofandi mannúðarkrísu í Afganistan og meðal afgansks flóttafólks en auk hennar verður til umfjöllunar skýrsla þar sem rýnt er í það hvort umræða um málefni innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðdraganda kosninga hafi möguleg áhrif á móttöku þeirra og réttindi. Sjónum verður einnig beint að því hvernig tryggja megi að umsækjendur um alþjóðlega vernd njóti réttinda sinna í umsóknarferlinu en í þeirri umræðu munu Claudia Ashanie Wilson lögmaður og Catherine Woollard, framkvæmdastjóri European Council on Refugees and Exiles (ECRE) í Belgíu, deila sérfræðiþekkingu sinni og reynslu með nefndarmönnum. Þá verður einnig á dagskrá umfjöllun um notkun sprengja sem megin drifkraft fyrir réttlætanlegan brottflutning en í þeirri umræðu verður leitað sérfræðiálits Rachel Bolton-King, dósents við Nottingham Trent háskóla og Christian De Cock, gestafræðimanns við Free háskólann í Brussel og háskólann í Ghent.

Á föstudeginum fara fram hringborðsumræður í Háteig á Grand hóteli þar sem áhersla verður lögð á eftirfylgni leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík sl. vor og sjónum beint að þeim þáttum Reykjavíkuryfirlýsingarinnar sem snúa að inngildingu flóttafólks og innflytjenda. Þátttakendur í pallborði eru Birgir Þórarinsson alþingismaður, Joanna Marcinkowska, verkefnastjóri fjölmenningar og inngildingar á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Nína Helgadóttir, teymisstjóri í málefnum flóttafólks hjá Rauða krossi Íslands, Hussain Merzaye, flóttamaður frá Afganistan á Íslandi, og Mina Sharifi, flóttakona frá Afganistan sem búsett er á Ítalíu. Fundarstjóri er Louise Barton, framkvæmdastjóri nefnda hjá Evrópuráðsþinginu.