19.8.2020

Heimsráðstefna þingforseta í fjarfundi

Heimsráðstefna forseta þjóðþinga, sem fyrirhugað var að halda í Vínarborg á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins, er haldin í fjarfundaformi að þessu sinni vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Alþjóðaþingmannasambandið, Inter-Parliamentary Union, hefur skipulagt heimsráðstefnur þingforseta á 5 ára fresti frá árinu 2000.

Við þessar óvenjulegu kringumstæðum koma forsetar þjóðþinga heims saman til að ræða margþættar áskoranir sem þjóðir og þing standa frammi fyrir á þessum óvissutímum. Setningarávörp fluttu Gabriela Cuevas Barron, forseti Alþjóðaþingmannasambandsins, Wolfgang Sobotka, forseti þjóðþings Austurríkis, og António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Í skilaboðum sínum til fundarins lagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, áherslu á mikilvægi löggjafans á þessum viðsjárverðu tímum. Varaði hann eindregið við því að þjóðþingin væru gerð óvirk undir formerkjum neyðarástands, eins og dæmi eru um.

Hægt er að fylgjast með ráðstefnunni og nálgast frekari upplýsingar um dagskrá og önnur gögn á vef Alþjóðaþingmannasambandsins. 

Steingrimur-J-avarp-still