8.6.2023

Ísland fær friðarverðlaun Samtaka kvenleiðtoga

Ísland hlaut friðarverðlaun Samtaka kvenleiðtoga (WPL) á ársfundi samtakanna, sem nú stendur yfir í Brussel. Íslenska sendinefndin á fundinum tók á móti verðlaununum fyrir Íslands hönd.

Verðlaunin eru veitt fyrir árangur Íslands í að stuðla að friði í heiminum. Verðlaunin eru byggð á gögnum frá Global Peace Index (GPI) frá árinu 2022. Í rökstuðningi segir að Ísland hafi verið sterkur aðili í því að koma á stöðugleika í heimsfriði, verið fyrirmynd í því að koma í veg fyrir átök og stuðla að stöðugleika.

WPL-Peace-Award-2023-Iceland-2-003-_edited
Alþingiskonurnar Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir tóku við friðarverðlaununum, sem þær Obiageli Ezekwesili, formaður stjórnar Samtaka kvenleiðtoga, og Silvana Koch-Mehrin, forseti Samtaka kvenleiðtoga, afhentu.

Ljósmynd / WPL