30.10.2023

Norðurlandaráðsþing í Ósló 30. október – 2. nóvember

Þing Norðurlandaráðs hefst í dag í Ósló og stendur til fimmtudags. Frá Íslandi taka þátt alþingismennirnir Bryndís Haraldsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir, Orri Páll Jóhannsson og Teitur Björn Einarsson. Jafnframt  tekur Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, þátt en norrænir þingforsetar halda jafnan sinn árlega fund í tengslum við Norðurlandaráðsþing.

Á þriðjudag koma forsætisráðherrar Norðurlanda og stjórnarleiðtogar Færeyja, Grænlands og Álandseyja á þingið og ræða við þingmenn Norðurlandaráðs um hvernig gera eigi framtíðarsýn norræns samstarfs til ársins 2030 að veruleika. Samkvæmt henni eiga Norðurlönd að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.

Auk hinna 87 fulltrúa sem sitja í Norðurlandaráði taka fjölmargir norrænir ráðherrar þátt í þinginu. Frá Íslandi koma Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, verður gestaræðumaður á þinginu.

Norðmenn fara með formennsku í Norðurlandaráði á þessu ári en í lok þings verður kjörinn nýr forseti og varaforseti fyrir formennskuár Íslands 2024. Íslandsdeild Norðurlandaráðs hefur tilnefnt Bryndísi Haraldsdóttur í embætti forseta og Oddnýju G. Harðardóttur sem varaforseta. Á þinginu verður jafnframt kynnt formennskuáætlun Íslands fyrir árið 2024.