6.5.2022

Ávarp forseta Úkraínu á íslensku

Komið þið sæl. Þetta er Vólódímír Zelenskí í Kænugarði. Ég er þakklátur fyrir að fá að ávarpa ykkur hér í dag á þennan hátt. Það er mér mikill heiður að ávarpa Alþingi, elstu löggjafarsamkundu í heimi, og hvað er annað hægt að tala um nema frelsið, það sem verðmætast hefur verið frá fornu fari og sem þjóðir hafa barist fyrir og berjast enn fyrir á okkar dögum, og þau verðmæti sem við berjumst nú fyrir í Úkraínu.

Ágætu áheyrendur. Úkraína og Ísland tengjast sterkum böndum, við höfum þekkst vel í meira en þúsund ár. Forfeður okkar áttu auðvelt með öll sín skipti og þess sér stað í okkar tungu og í ykkar tungu. Við búum við endimörk Evrópu og við ólík skilyrði, hvort sem ræðir um náttúru, efnahag eða þjóðaröryggi, en hjörtum okkar svipar saman, bæði í Kænugarði og í Reykjavík.

Baráttan nú snýst um frelsið, þetta land sem við eigum með réttu, og um menningu okkar, en hún birtir þjóðareðli okkar og greinir okkur frá nágrönnum okkar, og hún varðveitir þráðinn sem liggur milli okkar, barnanna okkar og þeirra kynslóða sem á undan komu. Allt sem ég hef nú talið í Úkraínu sætir nú árás Rússa. Hvað verður eftir af Úkraínu ef Rússar fagna sigri í stríðinu gegn landi okkar? Rússar hafa hernumið land okkar og vilja koma á einræði þar sem enginn vottur frelsis þrífst. Þeir vilja sölsa undir sig land okkar. Þeir hafa lengi haldið því fram að Úkraína eigi sér engan tilverurétt. Þeir vilja afmá menningu okkar, og það þótt menning okkar sé meira en tíu alda gömul.

Ég veit hvernig lífi þið lifið í landi ykkar. Það sem hrífur mig mest er að ykkur skuli takast að búa ykkur farsælt þjóðlíf þrátt fyrir válynd veður og hrjúfa náttúru, og að þjóð ykkar njóti öryggis og búi við lýðræði. Þegar þið virðið fyrir ykkur bæi ykkar og byggðir, þegar þið virðið fyrir ykkur fólkið ykkar, þá sjáið þið að þar fer raunverulegt frelsi, þar fer raunveruleg menning, og þið sjáið hinn góða ávöxt sem sérhver dagur færir ykkur í skaut. Þar sem við búum í Evrópu eru landkostir líklega eitthvað vænlegri, sólin skín lengur og bjartar, jarðvegurinn er frjósamari, landbúnaður er allur auðveldari og fólkið á hægara um vik að hittast og mætast. Hér ógnar okkur ekki úfinn sjór og eldur úr iðrum jarðar. Það virðist eins og sjálf náttúran vilji hlúa að okkur og grönnum okkar.

En lítið þá á þetta stríð sem nú geisar í landi okkar. Lítið á það sem rússneski herinn hefur framið. Jafnvel í þessum unaðsreit hefur þeim einhvern veginn tekist að særa fram helvíti á jörð, og til hvers? Ég ætla ekki að draga af mér í þessu: Þeir vilja svipta okkur lýðræðinu, þeir vilja svipta okkur sjálfstæðinu, þeir vilja að land okkar og kostir þess séu nýttir gegn okkur, að gögn þess og gæði þjóni annarrar þjóðar mönnum, og að landsmenn okkar verði þeim ekkert nema hlýðið og auðsveipt vinnuafl. Ég bið ykkur um að gefa einni staðreynd gaum: Fleiri en 500.000 af landsmönnum okkar hafa verið fluttir á brott til Rússlands. Þau hafa verið flutt á brott með valdi. Skilríki þeirra hafa verið tekin af þeim og farsímarnir sömuleiðis. Þau hafa verið send á útnára í Rússlandi og þar á að gera úr þeim Rússa með valdi, 500.000 manns fluttir á brott með valdi. Það er mikill fjöldi, og eins og þið vitið eru það fleiri en allir þeir sem búa í ykkar dásamlega landi. Ógnin er yfirþyrmandi. Ég er viss um að þið hafið heyrt um dráp rússnesks innrásarliðs á tugþúsundum borgara í Maríúpol. Ég er viss um að þið hafið heyrt um þá stríðsglæpi sem rússneski herinn hefur framið gegn úkraínskum borgurum, sérstaklega í borginni Bútsja. Hvert sem innrásarliðið fer í Úkraínu leita þeir uppi alla sem hafa unnið fyrir land okkar, þá sem hafa þjónað í hernum, þeir leita að blaðamönnum og aðgerðasinnum, þeir handsama sveitarstjórnarmenn, alla þá sem geta barist fyrir frelsinu í landi okkar. Og aðeins vegna þess að þetta fólk vill búa við frelsi eins og allir aðrir, eins og þjóð okkar vill, eins og allar þjóðir vilja.

Ágætu áheyrendur. Augljóst er að stríð Rússa gegn Úkraínu er ekki aðeins tilraun til að sölsa undir sig landið og að slökkva líf, það er árás á frelsið sjálft. Þess vegna er mikilvægt fyrir frjálsar þjóðir heims að Úkraína verði ekki skilin eftir á berangri og berjist þar ein og afskipt við Rússland. Það er mikilvægt að allar þjóðir leggi hönd á plóg. Ég er þakklátur fyrir þau skref sem þjóð ykkar hefur nú þegar stigið, sérstaklega með því að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Ég þakka einnig fyrir margvíslegan stuðning sem þið hafið sýnt okkur og heiti á ykkur að láta ekki þar við sitja. Ég hvet ríkisstjórn ykkar, sendifulltrúa og þjóðina alla til að tala fyrir því að beita Rússa enn meiri þrýstingi, að vera málsvarar frelsis alltaf og alls staðar. Engin viðskipti við einræðisríkið! Mikilvægast af öllu er að hætta að nota olíu frá Rússlandi, hvort sem er til íblöndunar eða aðrar vörur. Kastið ekki peningum í hít einræðisríkisins, veitið því engan opinberan stuðning! Engu skiptir hvort um ræðir lítil ríki eða stór, þegar við berjumst fyrir frelsinu skiptir framlag allra máli. Við í Úkraínu erum sigurviss og gerum nú allt sem við getum til að brjóta innrásarliðið á bak aftur og frelsa land okkar og þjóð. Ég get ekki sagt ykkur hvenær það heppnast en við erum þegar farin að búa okkur undir að endurreisa land okkar og tryggja raunverulega frjálst líf og gott, að tryggja farsæld okkar.

Við bjóðum vinum okkar, og öllum öðrum, að hjálpa okkur við að reisa Úkraínu úr rústum. Ég býð landi ykkar og fyrirtækjum þar að taka þátt í því að endurreisa Úkraínu, ekki síst í því að nútímavæða orkumál í landi okkar, til að tryggja að reynsla ykkar í orkunýtingu komi þjóð okkar til hjálpar.

Ég er þess fullviss að fljótlega getum við ráðist í þetta, en fyrst þurfum við að verja frelsi okkar, frelsið sem við eigum sameiginlegt. Og það tekst okkur. Takk, Ísland.

Lengi lifi Úkraína!