11.10.2023

Svetlana Tíkhanovskaja hlýtur viðurkenningu NATO-þingsins að frumkvæði Íslandsdeildar

Svetlana Tíkhanovskaja, leiðtogi lýðræðisafla í Belarús, hlaut viðurkenningu NATO-þingsins á ársfundi þingsins, sem fór fram í Kaupmannahöfn dagana 6.–9. október. Yfirskrift viðurkenningarinnar er „Konur í þágu friðar og öryggis“ og er hún veitt árlega einstaklingi sem hefur unnið framúrskarandi starf í þágu kvenna, friðar og öryggis.

Íslandsdeild NATO-þingsins tilnefndi Tíkhanovskaju til viðurkenningarinnar og hitti hana á fundi eftir afhendinguna, þar sem hún þakkaði stuðninginn og ræddi ástandið í Belarús við þingmennina.

Arsfundur-NATO-thingsins-2023-10-09Ljósmynd / NATO-þingið

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður í Íslandsdeild NATO-þingsins, Njáll Trausti Friðbertsson, formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, Svetlana Tíkhanovskaja, leiðtogi lýðræðisafla í Belarús, Michal Szczerba, forseti NATO-þingsins, Andrés Ingi Jónsson, varaformaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, og Arna Gerður Bang, alþjóðaritari á skrifstofu Alþingis.