26.11.2020

Þingforsetar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hittast á fjarfundi

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hitti þingforseta norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkja á fjarfundi í dag að frumkvæði forseta finnska þingsins, fr. Anu Vehviläinen. Ræddu þingforsetarnir stöðu kórónuveirufaraldursins og viðbrögð þjóðþinganna í löndunum átta en viðsjár eru víða í fjölgun smita.

Þá gerðu forsetarnir grein fyrir þeim málum sem efst eru á baugi í þingunum og þjóðmálaumræðu. Einnig ræddu þátttakendur öryggisógnir, svo sem upplýsingaöryggi, uppgang öfgahyggju og aðrar ógnir. Ennfremur var á dagskrá staða mála á nærsvæðum ríkjanna átta og fluttu tveir finnskir sérfræðingar erindi um stöðu og þróun mála í Hvíta-Rússlandi. Að lokum ræddu þingforsetarnir um sameiginleg verkefni til eflingar lýðræðis og styrkingar þingræðis í Evrópu.