20.11.2019

Vel heppnuðu heimsþingi kvenleiðtoga lokið

Vel heppnuðu heimsþingi kvenleiðtoga var slitið í Hörpu síðdegis í dag eftir tveggja daga fundahöld og fjölda hliðarviðburða. Sérstök verðlaun hlutu að þessu sinni grasrótarsamtök sem helgað hafa sig því mikilvæga baráttumáli að afmá skömm og bannhelgi sem hvílir á tíðablæðingum víða um heim. Enn fremur hlutu verðlaun samtökin Nobel Women´s Initiative sem virkja reynslu og þekkingu kvenna í stjórnunarstöðum í þágu breytinga í átt til jafnréttis, friðar og öryggis.

Lilja Rafney Magnúsdóttir flytur ræðu á heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu 19. nóvember.

Lilja Rafney Magnúsdóttir flytur ræðu sína á heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu.

Yfir 30 fulltrúar þjóðþinga fluttu yfirlýsingar í gær þar sem lýst var stuðningi við ákall samtakanna UN Women til þjóðþinga heims um að þau beiti sér fyrir jafnrétti. Lilja Rafney Magnúsdóttir var talsmaður Alþingis og lagði hún áherslu á mikilvægi samstöðu kvenna og hlutverk þeirra í áskorunum samtímans, svo sem baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Thingforsetar-af-heimsthingi-kvenleidtoga

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, ásamt þingforsetum og varaforsetum erlendra þjóðþinga, þingmönnum Alþingis, skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis.

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, átti sérstakan fund með Anitu Bhatia, aðstoðarframkvæmdastýru UN Women, þar sem rædd voru jafnréttismál og mikilvægi þátttöku kvenna á öllum sviðum þjóðlífsins, jafnt í stjórnmálum sem atvinnulífi, menntun og menningu. Einnig heimsótti hópur erlendra forseta og varaforseta þjóðþinga Alþingi og átti fund með forseta Alþingis, þingmönnum og stjórnendum á skrifstofu Alþingis.

Steingrimur-og-Anita-Bhatia-UN-WomenForseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, og Anita Bhatia, aðstoðarframkvæmdarstýra UN Women.