138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja ræðu mína á að hrósa rannsóknarnefnd þingsins fyrir afar vandaða og greinargóða skýrslu. Þó að það liggi í hlutarins eðli að nú á fimmtudegi erum við ekki búin að lesa þessar 2.300 síður, eða allt að 3.000, spjaldanna á milli getur maður þó sagt að það sem maður hefur lesið er bæði læsilegt og greinargott. Ég hvet alla landsmenn til þess að kynna sér skýrsluna og jafnvel lesa hana frá A til Ö ef menn hafa tíma til en það mun taka tíma.

Skýrslan setur upp á greinargóðan hátt atburðarásina sem spannar nokkur ár og er sem slík afar gagnlegt rit. Þá afhjúpar hún tvennt, annars vegar getuleysi og máttleysi stjórnsýslunnar og hins vegar vægast sagt glæfralega hegðun bankanna og fjármálalífsins. Almennt má segja að það sem á stundum hefur verið talað um sem einn helsta styrkleika samfélags okkar hafi orðið helsti veikleiki samfélagsgerðarinnar. Stuttar boðleiðir og formleysi hins stéttlausa samfélags reyndist vera hinn prýðilegasti leikvöllur fyrir þá sem fóru með fjármálakerfið eins og þeir væru að spila matador eina kvöldstund og á morgun mætti byrja að spila upp á nýtt án þess að hafa valdið nokkrum manni tjóni. Því miður héldu þessir aðilar sig ekki við slíka spilamennsku.

Þó að ekki sé rétt eða sanngjarnt að meta karakter heilla þjóða höfum við á stundum státað af því að á Íslandi sé allt leyft sem ekki er bannað en frændur okkar á Norðurlöndunum burðist með þá áþján að allt sé bannað sem ekki er leyft. Því miður virðist þetta frelsi og formfestuleysi samfélags okkar hafa verið helsti ljóður á þeim aðilum sem stýrðu og voru stærstu eigendur bankanna, jafnvel ástæða þess hversu langt þeir komust. Auðvitað spilaði eftirlitsleysi og stjórnsýsluleysi stofnana, ríkisvalds, Alþingis og framkvæmdarvalds inn í að þeir komust eins langt og raun bar vitni. Þar sem ég sit í þingmannanefndinni sem fjalla á um skýrsluna ætla ég að geyma til síðari tíma að fara dýpra í þá þætti.

Ekki er nokkrum vafa undirorpið í mínum huga hverjir bera höfuðsök á því að bankarnir hrundu, það eru eigendur og stjórnendur bankanna sjálfra. Þeir hefðu hins vegar ekki átt að komast svo langt ef stjórnsýslan hefði staðið fast í lappirnar. Framkvæmdarvaldið og eftirlitsstofnanirnar bera þar mikla sök, eins og fram kemur í skýrslunni, en ekki síður löggjafarvaldið. Við hér á Alþingi verðum að horfast í augu við að hafa brugðist, bæði með skorti á lagasetningu og eins eftirlitsleysinu.

Varðandi nauðsyn þess að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis og fagmennsku verður það hlutverk okkar í þingmannanefndinni undir forustu hv. þm. Atla Gíslasonar að fjalla nánar um það. Ég vil nota tækifærið og taka undir það sem fram kom í ræðu formannsins, Atla Gíslasonar, í lýsingu á starfi nefndarinnar og verkefnum fyrr í umræðunni. Ég vil þó nefna einstök atriði. Við framsóknarmenn höfum lagt fram frumvarp um lagaskrifstofu sem mundi skoða hvort frumvörp og hugmyndir manna sem hér koma upp standist stjórnarskrá. Einnig má velta fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt að allur sá fjöldi mála sem kemur inn á þing á hverju þingi fari í gegnum þingið. Lagaskrifstofa væri kannski ágæt sía fyrir það. Þá vil ég nefna efnahagsskrifstofu eða hugsanlega endurreisn Þjóðhagsstofnunar sem gæti hjálpað þinginu að taka mál til sín með faglegum hætti og vinna beint að löggjafarmálum en vera ekki eingöngu stimpilstofnun framkvæmdarvaldsins.

Frú forseti. Skýrslan bendir á nokkra þætti sem m.a. Framsóknarflokkurinn sem slíkur ber ábyrgð á sem annar stjórnarflokkanna á sínum tíma. Sérstaklega er vikið að einkavæðingu bankanna, þ.e. Landsbanka og Búnaðarbanka. Rétt er að skjóta því hér inn að Íslandsbanki eða Glitnir var einkabanki fyrir, það er rétt að minnast á það þar sem framferði hans, eigenda hans og stjórnenda, var engu skárra en hinna einkavæddu banka. Þannig er varasamt að kenna einkavæðingunni sem slíkri um afdrifin. Hins vegar hefur það verið skoðun mín frá upphafi, þegar ég fylgdist með eins og hver annar borgari þessa lands á sínum tíma, að ekki hafi verið staðið rétt að einkavæðingunni. Það voru mistök að standa að henni með þeim hætti sem fram kemur í skýrslunni. Dreifð eignaraðild og þátttaka raunverulegra erlendra banka eða bankamanna hefði verið enn betra og réttara. Það var skoðun mín þá og er enn. Enn alvarlegra tel ég þó að á sama tíma létu stjórnvöld nægja að taka upp EES-tilskipanir um fjármálakerfið, tilskipanir um lágmarkslöggjöf í stað þess að móta pólitíska framtíðarsýn um fjármálakerfið. Hvernig kerfi viljum við? Þessi spurning er enn gild og hefur kannski aldrei verið mikilvægari.

Í Evrópu viðgengst, og EES-tilskipanirnar gengu út á það, að þar er blandað kerfi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Það kerfi virðumst við hafa tekið upp með þessari Evróputilskipun. Í Bandaríkjunum gegnir hins vegar öðru máli. Þar er bannað að reka saman viðskiptabanka og fjárfestingarbanka og þeir eru reknir hvor í sínu lagi. Hv. þm. Ögmundur Jónasson, heyrði ég í morgunsárið á einhverri útvarpsrásinni, hefur lagt fram frumvarp þess efnis í fjölmörg ár, síðast held ég 2007 eða 2008. Ég hef ekki séð slíkt frumvarp koma fram nú. Á sama hátt má spyrja: Af hverju er ekki komið fram frumvarp er takmarkar eignarhald hinna endureinkavæddu banka, eins og við vorum að ræða áðan? Við þingmenn allra flokka verðum að líta í eigin barm og spyrja: Af hverju höfum við ekki lagt neitt slíkt fram, af hverju erum við að bíða eftir framkvæmdarvaldinu? Önnur spurning væri kannski: Hve lengi eigum við að bíða eftir slíku frumvarpi frá framkvæmdarvaldinu þar sem menn takmarka eignarhaldið með þeim hætti sem við teljum best og eðlilegast í hinni pólitísku mótun í staðinn fyrir að vera í þeirri blindni sem við erum núna? Þar komum við að einu mikilvægasta og nauðsynlegasta verkefninu en það er að styrkja löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Hluti af rannsóknarskýrslunni er siðferðisskýrsla og ég ætla að nota tækifærið og hrósa þeirri skýrslu líka. Það er mjög áhugavert að lesa hana og ég held að sú sýn sem maður fær á það samfélag sem maður lifði í verði svolítið skýrari á eftir. Ég verð þó að segja, þar sem ég starfaði áður á sviði sveitarfélaganna, að ég barðist sem oddviti í forsvari fyrir mitt sveitarfélag, Hrunamannahrepp, fyrir því að ráðast gegn þeirri græðgisvæðingu að land væri braskvara sem mætti selja hæsta verði á hverjum tíma, án tillits til þess til hvers það væri nýtt. Við settum sem sagt upp landnýtingarstefnu á árunum 2004, 2005 og 2006 og ég þekki því mjög vel hvað það er að rísa gegn ríkjandi viðhorfum, rísa gegn græðginni. Það er ekki létt verk og margir lentu í erfiðleikum á þeim tíma. Mig langar að nefna tvær stuttar sögur.

Eldri kona við hringveginn á leiðinni vestur, ekkja á snyrtilegu býli, sat orðið uppi með það að vera með kökukefli á bak við hurð til að berja frá sér þá sem vildu kaupa af henni jörðina. Jörðin var ekki til sölu en græðgin var sú að menn vildu kaupa það sem þeir sáu. Annar bóndi í Ölfusi þurfti að standa í því að taka á móti fólki, tveimur, þremur, fjórum á hverjum degi allar helgar, sem var að bjóða í jörðina hans. Hann vildi bara halda áfram að búa í friði. Græðgisvæðingin gerði það að verkum að búið var að setja verðmiða á alla hluti. Fólkið vildi bara fá að búa í friði. Ég held að við hljótum að spyrja okkur hvort við höfum ekki verið búin að ganga allt of langt. Mörgum slíkum sögum og tilfellum má greina frá þar sem í raun og veru var búið að ræna fólkið frelsinu til að fá að lifa í friði því að allt átti að kosta peninga.

Á þessum tíu mínútum, frú forseti, hefur maður ekki tíma til þess að fara mjög djúpt í einstaka þætti. Ég vil þó nefna að við verðum að taka skýrsluna og nýta hana sem grundvallarplagg við að endurreisa bæði siðvæðinguna og samfélagsgerðina. Ég ætla að enda mín orð á því að við munum eiga gott samstarf hérna á þinginu og ég er sannfærður um að við í þingmannanefndinni munum njóta bæði trausts og fá tíma til þess. Það verkefni verður ekki auðvelt og mun taka langan tíma. Við höfum samkvæmt lögum tíma til septemberloka til að ljúka þessu verki, að fara yfir skýrsluna. Það munum við að sjálfsögðu reyna að standa við. Hins vegar verður það mun meira verk og tekur lengri tíma að smíða regluverk sem gerir það að verkum að við reynum að tryggja eins og við best getum að slíkir atburðir hendi ekki aftur sem við horfumst í augu við nú.