27.2.2018

1. áfangi upplýsingasíðu um laun þingmanna og kostnaðargreiðslur

Í dag var opnaður 1. áfangi nýrrar upplýsingasíðu á vef Alþingis. Í þessum 1. áfanga eru birtar fastar launagreiðslur til þingmanna og fastar kostnaðargreiðslur. Á síðunni er hægt að nálgast upplýsingar um alla þingmenn á einum stað. Eins og þar má sjá eru fastar greiðslur til þingmanna mismunandi eftir trúnaðarstörfum og búsetu.

Þá er gert ráð fyrir að í næstu viku, á bilinu 7. til 10. mars, verði hægt að opna á 2. áfanga vefsíðunnar en þá verða birtar upplýsingar um greiðslur sem eru breytilegar, þ.m.t. endurgreiðslur fyrir útlagðan ferðakostnað.

Bæði 1. og 2. áfangi vefsíðunnar miðast við birtingu upplýsinga frá 1. janúar 2018. Jafnframt er að hefjast undirbúningur að því að birta gögn frá liðnum tíma og miðast sá undirbúningur við að farið verði um áratug aftur í tímann.