27.3.2019

Álit ráðgefandi siðanefndar um gildissvið siðareglna fyrir alþingismenn

Forsætisnefnd, skipuð 7. og 8. varaforseta, hefur til meðferðar erindi átta þingmanna, dags. 3. desember 2018, sem lýtur að ummælum sex þingmanna á veitingastofunni Klaustur bar 20. nóvember 2018 og mögulegu broti þeirra á siðareglum fyrir alþingismenn. Í samræmi við siðareglur fyrir alþingismenn leitaði nefndin ráðgefandi álits siðanefndar á gildissviði siðareglnanna, eins og því er lýst í 2. gr. þeirra. Forsætisnefnd hefur nú borist álit siðanefndar og er niðurstaða meiri hluta hennar að hátternið, sem erindi forsætisnefndar lýtur að, falli undir gildissvið siðareglnanna. Rétt er þó að taka fram að siðanefndin hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort umrædd háttsemi teljist brot á siðareglum fyrir alþingismenn. Þess skal getið að nefndarmenn í siðanefnd gefa ekki kost á viðtölum við fjölmiðla. Nú liggur fyrir að forsætisnefnd, skipuð 7. og 8. varaforseta, taki ákvörðun um frekara framhald málsins. Þeir þingmenn sem hlut eiga að máli hafa frest til þriðjudagsins 2. apríl nk. til að bregðast við áliti siðanefndar. Álit ráðgefandi siðanefndar má finna hér.