31.1.2017

Lækkun á greiðslum til þingmanna samþykkt í forsætisnefnd

Hinn 14. des. sl. barst forsætisnefnd Alþingis bréf frá formönnum stjórnmálaflokkanna þar sem þess er farið á leit við nefndina að hún endurskoði reglur um þingfararkostnað, þ.e. starfstengdar greiðslur til þingmanna, sem eru fastar mánaðarlegar greiðslur. Beiðnin var sett fram í tengslum við afgreiðslu Alþingis á frumvarpi um breytingar á kjararáði og í ljósi gagnrýni sem fram kom á kjör þingmanna á opinberum vettvangi eftir úrskurð kjararáðs í lok október sl.

 Í bréfi formanna flokkanna er gert ráð fyrir því að úrskurður kjararáðs um laun þjóðkjörinna fulltrúa sé látinn standa óbreyttur, og það var líka afstaða Alþingis sem lauk afgreiðslu kjararáðsfrumvarpsins fyrir jól. Beiðni formanna flokkanna laut að því að breyta öðrum greiðslum til þingmanna, kostnaðargreiðslum sem forsætisnefnd þingsins ákvarðar, þannig að samanlagt hækki greiðslur til þingmanna minna en annars hefði orðið. Almennt hefur verið miðað við launaþróunina frá 2006, en þá var kjaradómur lagður niður og kjararáð stofnað, og að samanlagðar greiðslur, a.m.k. þingfararkaup, sé í takt við þróun launavísitölu frá þeim tíma. Samkvæmt þessu viðmiði ættu heildargreiðslur til þingmanna að lækka um sem svarar 150 þús. kr., eða þar um bil, á mánuði. Hafa ber í huga að kostnaðargreiðslur eru ekki hugsaðar sem laun, þær eru skattfrjálsar að hluta, og verður því að uppreikna þær ef jafna á til launa.

Beiðni formanna flokkanna hefur verið til umræðu í forsætisnefnd og lét fyrrv. forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, gera tillögur um útfærslu þessarar breytinga. Málið var þó látið bíða fram að því að ný forsætisnefnd yrði kjörin. Á fundi nefndarinnar í dag lagði forseti Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir, fram tillögu um að lækka greiðslur fyrir ferðakostnaði í kjördæmi og starfskostnaði. Ferðakostnaður lækkar um 54 þús. kr. sem jafna má til um 100 þús. kr. í launagreiðslu, og starfskostnaður lækkar um 50 þús. kr.; samanlagt má jafna þessari lækkun við 150 þús. kr. fyrir skatt.

Samkvæmt þessum breytingum eiga því greiðslur til þingmannna, þ.e. þingfararkaup og fastar mánaðarlegar greiðslur, að vera innan þeirrar launaþróunar  sem orðið hefur frá því að kjararáð hóf að úrskurða um þingfararkaup árið 2006.

Á fundi forsætisnefndarinnar var enn fremur samþykkt að taka núverandi lög um þingfararkaup og þingfararkostnað til endurskoðunar þar sem leiðarljósið verður einföldun og gagnsæi. Lögin eru að stofni til frá 1995.