8.12.2016

Ljósmyndir frá þingsetningu

Ljósmyndir frá þingsetningu 146. löggjafarþings 6. desember 2016. Þingsetningarathöfnin hófst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Hjálmar Jónsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, predikaði og séra Sveinn Valgeirsson þjónaði fyrir altari ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur. 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setti Alþingi, 146. löggjafarþing. Starfsaldursforseti, Steingrímur J. Sigfússon, stýrði kosningu kjörbréfanefndar og á framhaldsþingsetningarfundi kosningu forseta Alþingis, kosningu varaforseta og kosningu í tvær fastanefndir, fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Steingrímur var kjörinn forseti Alþingis.

Kjörbréf þingmanna voru afgreidd og þingmenn sem ekki höfðu tekið sæti á Alþingi áður unnu drengskaparheit. Ari Trausti Guðmundsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Benedikt Jóhannesson, Einar Brynjólfsson, Eva Pandora Baldursdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Gunnar Hrafn Jónsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Jóna Sólveig Elínardóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Nichole Leigh Mosty, Njáll Trausti Friðbertsson, Pawel Bartoszek, Páll Magnússon, Smári McCarthy, Teitur Björn Einarsson, Theodóra S. Þorsteinsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Hildur Sverrisdóttir undirrituðu drengskaparheit um að halda stjórnarskrána.

Forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson greindi frá því að formenn stjórnmálaflokkanna sem fulltrúa eiga á Alþingi hefðu komist að samkomulagi um meðferð mála við upphaf þings.

Fjárlagafrumvarpi 2017 var útbýtt á þingsetningardegi og hlutað var um sæti þingmanna.