11.9.2018

Minningarorð um Inga Tryggvason, fyrrverandi alþingismann

Frá síðasta fundi Alþingis hefur einn fyrrverandi alþingismaður andast, Ingi Tryggvason bóndi. Hann lést á heilbrigðisstofnuninni á Húsavík 22. ágúst síðastliðinn. Hann var á 98. aldursári, elstur í hópi fyrrverandi alþingismanna. 

Ingi Tryggvason var fæddur á Litlu-Laugum í Reykjadal 14. febrúar 1921. Foreldrar hans voru Tryggvi Sigtryggsson, bóndi á Laugabóli í Reykjadal, og kona hans, Unnur Sigurjónsdóttir frá Sandi. Átti hann til merkra menningarfrömuða að telja í héraði og alþingismanna. 

Ingi Tryggvason lauk kennaraprófi í Reykjavík árið 1942. Hann var við kennslustörf næstu fjögur árin á Norður- og Austurlandi en fór síðan utan til að afla sér viðbótarmenntunar, fyrst í Askov á Jótlandi, en síðan við kennaraháskólann í Kaupmannahöfn og loks við The Polytechnic School of Modern Languages í Lundúnum á árunum 1946–1948. 

Ingi hélt síðan heim og hafði kennslu að aðalstarfi í röska tvo áratugi, eða fram til 1970. Lengst af var hann við Héraðsskólann á Laugum. Hann var samhliða kennslunni bóndi á Kárhóli í Reykjadal, frá árinu 1955 og fram til 1986, og gerðist síðan ferðaþjónustubóndi á Narfastöðum í Reykjadal frá 1988 og alveg fram á síðustu ár. Með kennslu og búskap var Ingi enn fremur sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykdæla 1952–1974. Hann var forstöðumaður Upplýsingaþjónustu landbúnaðarins í Reykjavík 1970–1974. 

Ingi Tryggvason var félagsmálamaður alveg frá því að hann komst á fullorðinsár og hlóðust á hann margvísleg nefnda- og stjórnarstörf í héraði. Hann sat enn fremur í stjórn Stéttarsambands bænda 1969–1987 og var formaður stjórnarinnar frá 1981. Stjórnarsetu og formennsku fylgdu svo ýmis önnur forustustörf á vegum landbúnaðarins. 

Ingi Tryggvason tók fyrst sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra í kosningunum 1967, varð varaþingmaður eftir kosningarnar 1971 og kosinn alþingismaður fyrir kjördæmið 1974 og sat eitt kjörtímabil, þ.e. fram til 1978. Kosningarnar það ár urðu Framsóknarflokknum mótdrægar og Ingi náði ekki kosningu. Hætti hann þá virkum afskiptum af stjórnmálum og hvarf til fyrri starfa. Hann sat alls á átta löggjafarþingum, þar af sem varamaður á þremur. Á Alþingi lét Ingi raforkumál, vegamál og önnur hagsmunamál kjördæmisins mest til sín taka. Hann var formaður allsherjarnefndar í efri deild.

Ingi Tryggvason var ræktunarmaður eins og margir samtíðarmanna hans, og ræktaði skóg af kappi alla ævi, lét náttúrvernd til sín taka og sat í stjórn Landverndar 1975–1981. 

Þegar Ingi náði eftirlaunaaldri hægði hann ekki á eins og flestir, heldur gerðist frumkvöðull í ferðaþjónustu og byggði með fjölskyldu sinni upp allmikinn rekstur á Narfastöðum. Hann var formaður Félags ferðaþjónustubænda um tíma. 

Ingi Tryggvason var starfsamur alla ævi og samviskusamur og trúr í þeim ábyrgðarstörfum sem samtíðarmenn í héraði og starfssystkin hans á landsvísu fólu honum. Hann var farsæll og vinsæll kennari, eins og forseti getur borið vitni um, góður ræðumaður, fyrirmannlegur og prúður í allri framkomu, hlýr og glettinn. Hann undi sér best á heimaslóð og átti góða daga síðustu missirin, sæll og glaður og sáttur, á Skógarbrekku, hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík.