2.6.2010

Minningarorð um Birgi Finnsson, fyrrverandi forseti sameinaðs Alþingis

Í nótt lést á sjúkrahúsi í Reykjavík Birgir Finnsson, fyrrverandi forseti sameinaðs Alþingis. Hann var 93 ára að aldri.

Þorgeir Birgir Finnsson var fæddur á Akureyri 19. maí 1917. Foreldrar hans voru Finnur Jónsson alþingismaður og ráðherra og fyrri kona hans, Auður Sigurgeirsdóttir húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1937 og hóf þá um haustið nám í hagfræði við Háskólann í Stokkhólmi. Stríðsátökin sem hófust haustið 1939 bundu enda á frekara nám hans erlendis. Hann sneri sér þá að afgreiðslu fiskflutningaskipa sem sigldu til Englands öll stríðsárin frá Ísafirði en þangað fluttist hann barnungur með foreldrum sínum. Hann varð síðar framkvæmdastjóri Samvinnufélags Ísfirðinga 1945–1961.

Birgir Finnsson gekk snemma til liðs við Alþýðuflokkinn og var kjörinn bæjarfulltrúi hans á Ísafirði árið 1942 og sat þar samfellt í sex kjörtímabil fram til ársins 1966. Forseti bæjarstjórnar var hann í 10 ár. Hann átti sæti í stjórnum ýmissa félaga og stofnana á sviði sjávarútvegsins, t.d. Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum og í síldarútvegsnefnd þar sem hann var lengi formaður. Í haustkosningum 1959 tók Birgir Finnsson forustusæti á lista Alþýðuflokksins í hinu nýmyndaða Vestfjarðakjördæmi og sat samfellt í 12 ár á Alþingi fram til 1971 þegar talsverðar sviptingar urðu í stjórnmálum þar. Er þingferli hans lauk fluttist hann til Reykjavíkur og starfaði við endurskoðun í allmörg ár.

Eftir alþingiskosningarnar 1963 var Birgir Finnsson kosinn forseti sameinaðs Alþingis og gegndi því embætti í átta ár, samfellt lengur en nokkur annar maður í sögu þingsins. Í forsetatíð Birgis urðu margvíslegar framfarir í starfsemi þingsins. Húsakostur þess var aukinn verulega og miklar breytingar urðu á launakjörum alþingismanna. Alþjóðlegt samstarf Alþingis jókst á þessum árum og tók Birgir sem forseti þingsins fullan þátt í því. Hann var traustur og öruggur á forsetastóli, réttsýnn í fundarstjórn og samvinnufús við alla þingmenn.

Bernskuheimili Birgis Finnssonar var mótað af stjórnmálaþátttöku föður hans um langan tíma. Birgir fetaði í fótspor hans og varð öflugur liðsmaður Alþýðuflokksins á Ísafirði og síðar á landsvísu meginhluta starfsævi sinnar. Hann kom því margreyndur sem forustumaður í atvinnu- og sveitarstjórnarmálum til starfa á Alþingi og varð þar áhrifamaður um málefni Vestfjarða og sjávarútvegsins.

Birgir Finnsson bar sterk persónueinkenni í dagfari sínu. Hann var hógvær í allri framgöngu, málefnalegur og sanngjarn í umræðum og alþýðlegur í besta máta. Öll störf sín vann hann af samviskusemi og vandvirkni. Sem fyrirsvarsmaður Alþingis gætti hann sóma þess í hvívetna en vildi ekki láta meira á sér bera en nauðsynlegt var. Jafnaðarmaður var hann í orði og verki.

Ég bið þingheim að minnast Birgis Finnssonar, fyrrverandi forseta þingsins, með því að rísa úr sætum.