8.10.2008

Magnús Stefánsson áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd

Á fundi forsætisnefndar 7. október síðastliðinn féllst forsætisnefnd á erindi þingflokks Framsóknarflokksins þess efnis að þingflokkurinn fengi áheyrnarfulltrúa á fundum nefndarinnar.

Með breytingum á lögum um þingsköp Alþingis í desember síðastliðnum (lög nr. 161/2007) var þingflokki sem ekki á fulltrúa í forsætisnefnd heimilt, með samþykki forsætisnefndar, að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu á fundum hennar, sbr. 1. mgr. 10. gr. þingskapa.

Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur tilnefnt Magnús Stefánsson, varaformann þingflokks Framsóknarflokksins, sem áheyrnarfulltrúa í nefndinni.