31.10.2017

Útgáfa kjörbréfa og starfandi forseti eftir alþingiskosningar

Landskjörstjórn kemur saman til fundar þriðjudaginn 7. nóvember til að úthluta þingsætum á grundvelli kosningaúrslita í kjördæmum eftir almennar alþingiskosningar sem fram fóru 28. október sl. 

Að loknum alþingiskosningum fá kjörnir þingmenn og jafnmargir varaþingmenn kjörbréf sent frá landskjörstjórn. Áður en landskjörstjórn gefur út kjörbréf og birtir úrslit fer hún yfir skýrslur yfirkjörstjórna um atkvæðatölur og úthlutar þingsætum. 

Jafnskjótt og kjörbréfin hafa verið afhent tilkynnir landskjörstjórn stjórnarráðinu (forsætisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu) úrslit kosninganna og sendir nöfn hinna kjörnu þingmanna til birtingar í Stjórnartíðindum. Auk þessa er á vef landskjörstjórnar birt tilkynning um úrslit alþingiskosninganna. 

Að loknum alþingiskosningum gegnir störfum forseta, sem ekki er endurkjörinn, sá  varaforseti  sem næst honum gengur í röð endurkjörinna varaforseta, frá kjördegi og fram til þingsetningar, skv. 2. mgr. 6. gr. þingskapa.

Samkvæmt 1. gr. þingskapa  skal sá þingmaður, sem hefur lengst þingsetu að baki, stjórna fundi þegar Alþingi kemur saman við þingsetningu að loknum alþingiskosningum þangað til forseti þingsins er kosinn og standa fyrir kosningu hans. 

Samkvæmt 22. gr. stjórnarskrárinnar stefnir forseti lýðveldisins Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar.