28. fundur
fjárlaganefndar á 144. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, laugardaginn 29. nóvember 2014 kl. 14:00


Mættir:

Vigdís Hauksdóttir (VigH) formaður, kl. 14:08
Guðlaugur Þór Þórðarson (GÞÞ) 1. varaformaður, kl. 14:08
Oddný G. Harðardóttir (OH) 2. varaformaður, kl. 14:08
Ásmundur Einar Daðason (ÁsmD), kl. 14:08
Haraldur Benediktsson (HarB), kl. 14:08
Óttarr Proppé (ÓP) fyrir Brynhildi Pétursdóttur (BP), kl. 14:08
Svandís Svavarsdóttir (SSv) fyrir Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur (BjG), kl. 14:08
Valgerður Gunnarsdóttir (ValG), kl. 14:08
Willum Þór Þórsson (WÞÞ) fyrir Karl Garðarsson (KG), kl. 14:08

Jón Þór Ólafsson, áheyrnarfulltrúi, var fjarverandi. Svandís Svavarsdóttir vék af fundi kl. 14:45. Óttar Proppé vék af fundi fyrir afgreiðslu málsins.

Nefndarritarar:
Jón Magnússon
Ólafur Elfar Sigurðsson

Bókað:

1) 1. mál - fjárlög 2015 Kl. 14:10
Frumvarp til fjárlaga var afgreitt til 2. umræðu með atkvæðum Vigdísar Hauksdóttur, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Valgerðar Gunnarsdóttur, Haraldar Benediktssonar, Willums Þórs Þórssonar og Ásmundar Einars Daðasonar.

Minni hluti nefndarinnar situr hjá við afgreiðslu málsins. Hringt var í Brynhildi Pétursdóttur og Bjarkeyju Gunnarsdóttur á fundinum til að staðfesta að þær sætu hjá við afgreiðslu málsins ásamt Oddnýju G. Harðardóttur. Hver minni hluti mun leggja fram nefndarálit eða alls þrjú minnihlutaálit.

Oddný G. Harðardóttir hefur áhyggjur af því að fjárlaganefnd verði gagnrýnd fyrir að styrkþegar hafi ekki jafnan aðgang að fjárlaganefnd við afgreiðslu safnliða.

Því leggur hún fram eftirfarandi bókun minni hlutans um safnliði við 2. umræðu:

„Minni hluti fjárlaganefndar telur mikilvægt að breyting á umgjörð og vinnulagi við skiptingu óskiptra liða, sem þverpólitísk samstaða var um á síðasta kjörtímabili, sé í heiðri höfð. Minni hlutanum sýnist að meiri hluti fjárlaganefndar brjóti það þverpólitíska samkomulag með breytingartillögum sínum.“

Auk þess leggur hún fram eftirfarandi bókun:
„Minni hluti fjárlaganefndar bendir á að þegar starfsáætlun Alþingis var breytt að ósk stjórnarmeirihlutans og 2. umræðu fjárlaga var frestað til 2. desember, var gert ráð fyrir að breytingartillögur meiri hlutans yrðu lagðar fram á fundi fjárlaganefndar þriðjudaginn 25. nóvember. Fundum fjárlaganefndar hefur ítrekað verið frestað vegna málsins og kynningu á breytingartillögum meiri hlutans ekki lokið fyrr en laugardaginn 29. nóvember. Með þessum frestunum meiri hlutans hefur þrengt verulega að þeim tíma sem minni hlutinn hefur til að vinna sínar tillögur og nefndarálit. Því er það sjálfsögð krafa að 2. umræðu fjárlaga verði frestað til fimmtudagsins 4. desember. Minni hlutinn fer þess á leit við meiri hluta fjárlaganefndar að hann styðji þá kröfu.“

Valgerður Gunnarsdóttir hafði samband við forseta Alþingis sem samþykkti góðfúslega að fresta 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga 2015 um einn dag.

Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram eftirfarandi bókun:
„Meiri hluti fjárlaganefndar bendir á í sinni bókun mikilvægi þess að fara yfir vinnubrögð við gerð fjárlaga. Það er hins vegar mjög mikilvægt að þriðji geirinn verði ekki útilokaður frá fjárveitingum. Þriðji geirinn gegnir mjög mikilvægu hlutverki í velferðarþjónustu þjóðarinnar. Við erum sammála minni hlutanum um að breyting á vinnulagi verði gerð í þverpólitískri sátt.“

2) Önnur mál Kl. 15:05
Fleira var ekki gert.

3) Fundargerðir fjárlaganefndar á 144. þingi Kl. 15:06
Frestað.

Fundargerð 27. fundar samþykkt.

Fundi slitið kl. 15:10