38. fundur
stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 154. löggjafarþingi
haldinn í Smiðju, miðvikudaginn 6. mars 2024 kl. 09:15


Mætt:

Þórunn Sveinbjarnardóttir (ÞSv) formaður, kl. 09:15
Steinunn Þóra Árnadóttir (SÞÁ) 1. varaformaður, kl. 09:15
Sigmar Guðmundsson (SGuðm) 2. varaformaður, kl. 09:22
Ágúst Bjarni Garðarsson (ÁBG), kl. 09:15
Ásthildur Lóa Þórsdóttir (ÁLÞ), kl. 09:15
Berglind Ósk Guðmundsdóttir (BGuðm), kl. 09:15
Eva Sjöfn Helgadóttir (ESH), kl. 09:15
Halla Signý Kristjánsdóttir (HSK), kl. 09:15

Nefndarritari: Björn Freyr Björnsson

Bókað:

1) Fundargerð Kl. 09:15
Fundargerð 37. fundar var samþykkt.

2) Ábending umboðsmanns Alþingis um meinbugi á lögum Kl. 09:15
Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Bryndísi Helgadóttur skrifstofustjóra og Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneyti.

3) Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2022 Kl. 09:26
Nefndin samþykkti að ljúka málinu með eftirfarandi bókun:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund umboðsmann Alþingis.

Nefndin leggur áherslu á að stjórnvöld nýti skýrsluna og niðurstöður umboðsmanns Alþingis til umbóta í stjórnsýslunni. Nefndin telur jafnframt mikilvægt að þingmenn hafi í huga þau álitamál sem umboðsmaður Alþingis sér ástæðu til að vekja athygli Alþingis á þar sem starf umboðsmanns er mikilvægt í þingeftirliti með framkvæmdarvaldinu.

4) Skýrsla Ríkisendurskoðunar um ríkislögreglustjóra, fjárreiður, stjórnsýslu og stjórnarhætti - eftirfylgni Kl. 09:28
Nefndin samþykkti að ljúka málinu með eftirfarandi bókun:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti frá Ríkisendurskoðun. Í skýrslunni er að finna niðurstöður eftirfylgni stofnunarinnar með skýrslu um ríkislögreglustjóra, fjárreiður, stjórnsýslu og stjórnarhætti frá 2020.

Í skýrslunni kemur fram að brugðist hafi verið nokkuð skipulega við úrbótatillögum Ríkisendurskoðunar, þó með tveimur undantekningum en ökutækjamál lögreglu þarf að skoða nánar sem og tölvudeild ríkislögreglustjóra en þau atriði eru þó í vinnslu. Nefndin hvetur dómsmálaráðuneyti og ríkislögreglustjóra að vinna með markvissum hætti að því að ljúka þeirri vinnu.

5) Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu dómstólanna - eftirfylgni Kl. 09:30
Nefndin samþykkti að ljúka málinu með eftirfarandi bókun:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti frá Ríkisendurskoðun. Í skýrslunni er að finna niðurstöður eftirfylgni stofnunarinnar með skýrslu um stjórnsýslu dómstólanna frá 2020.

Í skýrslunni kemur fram að dómstólasýslan hafi brugðist við öllum fjórum ábendingum Ríkisendurskoðunar.

6) Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Tryggingastofnun og stöðu almannatrygginga - eftirfylgni Kl. 09:30
Nefndin samþykkti að ljúka málinu með eftirfarandi bókun:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti frá Ríkisendurskoðun. Í skýrslunni er að finna niðurstöður eftirfylgni stofnunarinnar með skýrslu frá 2020.

Í skýrslunni kemur fram að brugðist hafi verið við þremur úrbótatillögum af sjö. Enn eigi þó eftir að ljúka heildarendurskoðun laga um almannatryggingar, auka þarf hlutfall viðskiptavina sem fá réttar greiðslur, ljúka þarf heildarstefnumótun í lífeyrismálum auk þess sem fyrirkomulag þess efnis að rekin séu umboð fyrir Tryggingastofnun hjá sýslumannsembættum landsins hefur ekki verið endurskoðað.

Að mati nefndarinnar er mikilvægt að unnið sé markvisst að því að bregðast við þeim úrbótatillögum sem Ríkisendurskoðun leggur fram. Fram hefur komið að unnið hafi verið að þeim sem eftir standa en sú vinna hefur gengið hægt. Þó má benda á að drög að frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra um heildarendurskoðun laga um almannatryggingar hefur verið kynnt í samráðsgátt. Nefndin beinir því til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og Tryggingastofnunar ríkisins að gera gangskör að því að bregðast við tillögum Ríkisendurskoðunar.

7) Önnur mál Kl. 09:33
Steinunn Þóra Árnadóttir vakti athygli nefndarinnar á tölvupósti sem hún sendi nefndinni með upplýsingum frá Evrópuneti mannréttindastofnana um frumvarp til laga um Mannréttindastofnun Íslands.

Þá ræddi nefndin starfið framundan.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 09:36