8. fundur
stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 143. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, þriðjudaginn 5. nóvember 2013 kl. 10:00


Mættir:

Ögmundur Jónasson (ÖJ) formaður, kl. 10:00
Brynjar Níelsson (BN) 1. varaformaður, kl. 10:00
Jón Þór Ólafsson (JÞÓ) 2. varaformaður, kl. 10:00
Brynhildur Pétursdóttir (BP), kl. 10:00
Helgi Hjörvar (HHj), kl. 10:00
Karl Garðarsson (KG), kl. 10:50
Pétur H. Blöndal (PHB), kl. 10:00
Valgerður Bjarnadóttir (VBj), kl. 10:00
Willum Þór Þórsson (WÞÞ), kl. 10:00
Þorsteinn Sæmundsson (ÞorS) fyrir SigrM, kl. 10:00

KG var fjarverandi til kl. 10:50 vegna annarra þingstarfa.

Nefndarritari: Hildur Eva Sigurðardóttir

Bókað:

1) Fundargerðir Kl. 10:00
Fyrirtöku 6. og 7. fundar var frestað.

2) Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl. Kl. 10:05
Á fund nefndarinnar kom Jóhann G. Jóhannsson fyrrverandi sviðsstjóri áhættustýringar- og fjárstýringarsviða Íbúðalánasjóðs og greindi nefndinni frá sjónarmiðum sínum varðandi skýrsluna auk þess að svara spurningum nefndarmanna.

Þá átti nefndin símafund með Dr. Alexander Düring frá Deutche Bank vegna málsins þar sem Dr. Düring gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum til einstakra atriða skýrslunnar og svaraði spurningum nefndarmanna. Dr. Düring samþykkti í samræmi við 2. málsl. 1. mgr. 19. gr. þingskapa að vitnað yrði til orða hans um afmarkaða þætti. Það er að ekki hefðu verið gerð mistök við útreikning skiptiálagsins heldur hafi verið notuð alþjóðlega viðurkennd reikniaðferð sem var önnur en sú sem vísað er til í skýrslunni. Jafnframt sagði hann að hefði hin reikniaðferðin verið notuð hefði niðurstaðan verið sú sama þar sem aðrar breytur hefðu verið notaðar við þá aðferð og því ekki hægt að tala um reikningsvillu eða tap af henni. Auk þessa staðfesti Dr. Düring jafnframt að rannsóknarnefndin hefði ekki haft samband við hann til að staðfesta upplýsingar og yfirlýsingar sem fram koma í skýrslunni eða óskað eftir því að hann kæmi til skýrslutöku þó svo að hann hefði reiknað út skiptiálagið og haft mestar upplýsingar um útreikning þess.

Nefndin átti einnig símafund með Joakim Hörwing og Mikael Kärrsten sem unnu fyrir Capto Financial Consulting á þeim tíma sem skýrslan tekur til. Gerðu þeir grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi skýrsluna og svöruðu spurningum nefndarmanna og samþykkti Hörwing að vitnað yrði til orða hans um ákveðna þætti sbr. 2. málsl. 1. mgr. 19. gr. þingskapa. Staðfesti hann að rannsóknarnefndin hefði ekki leitað til Capto til að staðfesta upplýsingar eða yfirlýsingar sem fram koma í skýrslunni eða leitað eftir því að fá einhvern frá fyrirtækinu til skýrslutöku. Þá sagði Hörwing að hann neitaði yfirlýsingum sem fram kæmu í skýrslunni þess efnis að starfsmenn Íbúðalánasjóðs hefðu ekki skilið eða fylgt ráðgjöf Capto.

3) 62. mál - skrásetning kjörsóknar eftir fæðingarári í kosningum á Íslandi frá vori 2014 Kl. 10:00
Samþykkt að senda málið til umsagnar með þriggja vikna fresti.

4) 67. mál - samning stefnumarkandi frumvarpa og þingsályktunartillagna Kl. 10:01
Samþykkt að senda málið til umsagnar með þriggja vikna fresti.

5) 69. mál - þingsköp Alþingis Kl. 10:02
Samþykkt að senda málið til umsagnar með þriggja vikna fresti.

6) 119. mál - bætt ímynd Alþingis á samfélagsmiðlum Kl. 10:03
Samþykkt að senda málið til umsagnar með þriggja vikna fresti.

7) Önnur mál Kl. 10:07
Nefndin ræddi fyrirkomulag næstu funda. Formaður lagði til að á fund nefndinnar á fimmtudaginn yrðu boðaðir ráðuneytisstjórar forsætis-, innanríkis- og utanríkisráðuneytis til að ræða Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) og samskipti við hana. Var það samþykkt.

Fundi slitið kl. 11:55