10. fundur
utanríkismálanefndar á 141. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, þriðjudaginn 30. október 2012 kl. 09:04


Mættir:

Árni Páll Árnason (ÁPÁ), kl. 09:04
Bjarni Benediktsson (BjarnB), kl. 09:12
Björn Valur Gíslason (BVG) fyrir ÁÞS, kl. 09:55
Gunnar Bragi Sveinsson (GBS), kl. 09:04
Jón Bjarnason (JBjarn), kl. 09:04
Lúðvík Geirsson (LGeir), kl. 09:04
Magnús Orri Schram (MSch) fyrir HHj, kl. 09:09
Ragnheiður E. Árnadóttir (REÁ), kl. 09:04
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG), kl. 09:11

Nefndarritari: Þröstur Freyr Gylfason

Bókað:

1) Fundargerð síðasta fundar. Kl. 09:04
Umfjöllun nefndarinnar um dagskrármálið var frestað.

2) Samningsafstaða vegna ESB - 12. kafli, Matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði. Kl. 09:05
Nefndin hélt áfram umfjöllun sinni um málið. Á fundinn komu Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður, Högni S. Kristjánsson og Harald Aspelund frá utanríkisráðuneyti og Elías Blöndal Guðjónsson, Erna Bjarnadóttir og Sigurbjartur Pálsson frá Bændasamtökum Íslands.

Gestirnir fjölluðu um drög að samningsafstöðu íslenskra stjórnvalda um 12. samningskafla vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu, á ensku og íslensku,og fylgiblað til utanríkismálanefndar Alþingis vegna sama samningskafla, dags. 1. ágúst 2012. Þá svöruðu gestirnir spurningum nefndarmanna.

* * *

Eftirfarandi bókun var lögð fram af Jóni Bjarnasyni:

„Bókun

Vísað er til afdráttarlausrar kröfu Íslands um að tryggja öryggi og verndun íslenskra búfjárkynja og plantna og þeirra varanlegu undanþága sem landið hefur haft skv. EES samningnum og barist var fyrir og staðfest með hinum s.k. mavælalögum árið 2010. Jafnframt er vísað til þeirra fyrirvara sem settir eru fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni um aðild að ESB. Ennfremur er vísað til stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í þessum málum. Þá er auk þess vísað til „varnarlína“ Bændasamtaka Íslands í landsbúnaðarmálum, matvæla og dýraheilbrigðismálum og tollamálum sem lögð var fram í ríkisstjórn af undirrituðum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem grunnsamningsskilyrði Íslendinga.

Nú þegar komið er að því að leggja fram samningsafstöðu Íslands um 12. kafla - Matvælaöryggi og dýra og plöntuheilbrigði munu verða tilgreindar lágmarkskröfur Íslendinga í þessum viðræðum.

Í ljósi mikilvægis þessa máls fyrir Íslendinga og ofangreindra skilyrða sem liggja fyrir, verður að setja fram í texta skýlausa og ófrávíkjanlega kröfu um að Ísland fái haldið varanlega rétti sínum og undanþágum hvað varðar bann við innflutningi á lifandi dýrum og innflutningi á hráum ófrosnum dýraafurðum og bann við innflutningi tiltekinna planta og trjáa. ESB verði krafið svara innan tiltekins tímafrests um afstöðu sambandsins til þessara atriða á grundvelli þess að hér sé um ófrávíkjanleg skilyrði af hálfu Íslands að ræða fyrir áframhaldandi viðræðum um kaflann.

Jafnframt verði það sett fram á skýran hátt sem ófrávíkjanleg krafa að Ísland framselji ekki til ESB rétt varðandi samninga um þennan málaflokk hjá WTO er varða Ísland. Sama gildir um tvíhliða samninga sem ESB gerir á þessu sviði.

Sá texti sem nú liggur fyrir að samningsafstöðu Íslands í 12. kafla og er hér til umfjöllunar er algjörlega ófullnægjandi hvað þessi atriði varðar og ekki í samræmi við þær ófrávíkjanlegu kröfur sem samninganefndinni var gert að vinna eftir.

Undirritaður ítrekar andstöðu sína við umsóknarferlið og aðild að ESB, en leggur áherslu á að meðan ferlið og aðlögunin er ekki stöðvuð af hálfu Alþingis verði Ísland að setja fram með skýrum og afdráttarlausum hætti kröfur sínar, fyrirvara og ófrávíkjanlegu skilyrði í samningaviðræðum sem ekki verði samið um.“

* * *

Gunnar Bragi Sveinsson óskaði eftir að tækifæri yrði gefið svo bregðast mætti við með bókun. Varð formaður við því.

* * *

Eftirfarandi bókun var lögð fram af Árna Páli Árnasyni, Magnúsi Orra Schram, Lúðvík Geirssyni og Birni Val Gíslasyni:

„Drög að samningsafstöðu um 12. kafla, um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði, hafa verið rædd á sex fundum utanríkismálanefndar: þann 13. ágúst, 12. september, 11. október, 15. október, 25. október og 30. október 2012. Í því ferli hafa drögin tekið miklum breytingum til bóta. Almenn samstaða hefur náðst um efnisatriði kaflans meðal hagsmunaaðila, þótt enn séu einstök atriði í orðalagi sem ágreiningur er um. Sá meiningarmunur liggur alveg ljós fyrir. Ekki verður séð hvaða tilgangi frekari fundahöld um málið þjóna á vettvangi utanríkismálanefndar.“

* * *

Eftirfarandi bókun var lögð fram af Bjarna Benediktssyni, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Gunnari Braga Sveinssyni:

„Við undirrituð tökum undir flest er fram kemur í bókun Jóns Bjarnarsonar. Við viljum árétta að samningsafstaðan eins og hún liggur fyrir endurspeglar ekki á skýran hátt skýlausa kröfu Íslendinga um bann við innflutningi á lifandi dýrum, hráum ófrosnum dýraafurðum og tilteknum plöntum og trjám. Þá vantar skýra kröfu um að Íslendingar framselji ekki rétt varðandi samninga um þennan málaflokk til ESB s.s. vegna WTO eða annara samninga er tengjast þessum kafla. Því verður ekki fallist á að samningsafstaðan, eins og hún liggur nú fyrir í drögum endurspegli hagsmuni Íslendinga.“

* * *

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði til að nefndin lyki ekki umfjöllun um samningskaflann, að minnsta kosti ekki nema að undangengnu samráði við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Óskaði hann eftir atkvæðagreiðslu um tillöguna.

Formaður bar undir atkvæði tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að nefndin lyki ekki umfjöllun um samningskaflann, að minnsta kosti ekki nema að undangengnu samráði við utanríkisráðherra. Að samþykkt tillögunnar stóðu Jón Bjarnason, Bjarni Benediktsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson. Á móti voru Árni Páll Árnason, Lúðvík Geirsson, Björn Valur Gíslason og Magnús Orri Schram.

3) 278. mál - ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 158/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn Kl. 11:04
Á fund nefndarinnar komu Bergþór Magnússon og Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir frá utanríkisráðuneyti og Björn Freyr Björnsson frá innanríkisráðuneyti. Fjölluðu þau um málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.

Nefndin ákvað að Jón Bjarnason yrði framsögumaður málsins.

4) 279. mál - ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 167/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn Kl. 11:10
Á fund nefndarinnar komu Bergþór Magnússon og Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir frá utanríkisráðuneyti og Guðbjörg Eva Baldursdóttir frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Fjölluðu þau um málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.

Nefndin ákvað að Gunnar Bragi Sveinsson yrði framsögumaður málsins.

5) 280. mál - ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 168/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn Kl. 11:16
Á fund nefndarinnar komu Bergþór Magnússon og Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir frá utanríkisráðuneyti og Guðbjörg Eva Baldursdóttir frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Fjölluðu þau um málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.

Nefndin ákvað að Gunnar Bragi Sveinsson yrði framsögumaður málsins.

6) 281. mál - ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn Kl. 11:22
Á fund nefndarinnar komu Bergþór Magnússon og Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir frá utanríkisráðuneyti og Björn Freyr Björnsson frá innanríkisráðuneyti. Fjölluðu þau um málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.

Nefndin ákvað að Ragnheiður E. Árnadóttir yrði framsögumaður málsins.

7) Önnur mál. Kl. 11:28
Fleira var ekki gert.

Árni Páll Árnason, 1. varaformaður nefndarinnar, stjórnaði fundi í fjarveru formanns.

Fundi slitið kl. 11:28