16. fundur
utanríkismálanefndar á 141. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, þriðjudaginn 4. desember 2012 kl. 09:05


Mættir:

Árni Páll Árnason (ÁPÁ), kl. 09:05
Bjarkey Gunnarsdóttir (BjG) fyrir ÁÞS, kl. 09:06
Bjarni Benediktsson (BjarnB), kl. 09:36
Gunnar Bragi Sveinsson (GBS), kl. 09:05
Jón Bjarnason (JBjarn), kl. 09:13
Mörður Árnason (MÁ), kl. 09:05

Nefndarritari: Þröstur Freyr Gylfason

Bókað:

1) Fundargerðir síðustu funda. Kl. 09:05
Umfjöllun nefndarinnar um dagskrárliðinn var frestað.

2) 296. mál - fullgilding viðbótarbókunar við samning á sviði refsiréttar um spillingu Kl. 09:05
Á fund nefndarinnar komu Íris Lind Sæmundsdóttir og Birgir Hrafn Búason frá utanríkisráðuneyti og Inga Þórey Óskarsdóttir frá innanríkisráðuneyti. Fjölluðu þau um málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.

3) 187. mál - viðurkenning á þjóðarmorði á Armenum Kl. 09:18
Nefndin hóf umfjöllun um málið.

Nefndin ákvað að Árni Þór Sigurðsson yrði framsögumaður málsins.

4) 395. mál - framferði kínverskra yfirvalda gagnvart tíbesku þjóðinni Kl. 09:24
Nefndin hóf umfjöllun um málið.

Nefndin ákvað að Mörður Árnason yrði framsögumaður málsins.

5) 122. mál - Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu Kl. 09:29
Nefndin hélt áfram umfjöllun sinni um málið.

Á fund nefndarinnar komu Jóhanna K. Eyjólfsdóttir frá Íslandsdeild Amnesty International, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir frá BSRB. Gestirnir gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum til málsins og svöruðu spurningum nefndarmanna.

6) 415. mál - stjórnarskipunarlög Kl. 10:00
Nefndin hélt áfram umfjöllun sinni um málið.

Formaður lét dreifa yfirliti um fyrirhugaða umfjöllun nefndarinnar, þar sem fjallað yrði um VIII. kafla frumvarpsins sbr. beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en einnig skv. óskum nefndarmanna um aðrar tillögur frumvarpsins sem standa í tengslum við ákvæði kaflans, einkum 13. gr. (eignarréttur), 31. gr. (bann við herskyldu), 55. gr. (opnir fundir) og 67. gr. (framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu). Þar voru ennfremur reifuð nokkur efnisatriði, sem ætlunin væri að fjalla um, auk annarra, svo sem þeirra er gestir fyrir nefndinni kynnu að nefna til sögunnar. Á minnisblaðinu var listi yfir gesti sem nefndin myndi óska eftir að yrðu kallaðir til álitsgjafar vegna málsins.

Þá lét formaður dreifa gögnum til nefndarmanna vegna málsins ásamt yfirliti, með yfirskriftinni: „Gögn utanríkismálanefndar vegna umfjöllunar um 415. mál - Frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.“

7) 381. mál - loftslagsmál Kl. 10:31
Nefndin hélt áfram umfjöllun sinni um málið, sbr. álitsbeiðni frá umhverfis- og samgöngunefnd í 381. máli um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál (skráningarkerfi losunarheimilda, EES-reglur) frá síðasta fundi.

Á fund nefndarinnar komu Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Glóey Finnsdóttir frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Fjölluðu þau um málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.

8) Önnur mál. Kl. 11:24
a) Fjallað var um álit efnahags- og viðskiptanefndar um eftirlitskerfi með fjármálamörkuðum í Evrópu, dags. 28. nóvember 2012, sbr. beiðni utanríkismálanefndar um afstöðu til þess hvort efnislegra aðlagana væri þörf við upptöku þriggja tilgreindra reglugerða í EES-samninginn sem varða nýtt eftirlitskerfi með fjármálamarkaði Evrópusambandsins.

Fleira var ekki gert.

Árni Páll Árnason, 1. varaformaður, stjórnaði fundinum í fjarveru formanns.

Helgi Hjörvar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ragnheiður E. Árnadóttir voru fjarverandi.

Fundi slitið kl. 11:36