Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 696. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1054 —  696. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    3. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að skipta sjóðnum í deildir eftir því hvernig ávinnslu réttinda er háttað og eftir því hvort lífeyrisréttindi eru í sameign eða séreign.

2. gr.

    1. og 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Iðgjald sjóðfélaga skv. 1. mgr. 2. gr. skal að lágmarki vera 4% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. þessarar greinar. Á móti iðgjaldi sjóðfélaga skal greitt mótframlag sem skal að lágmarki vera 6% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. þessarar greinar.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Iðgjöld skulu að lágmarki vera 10% af tryggðum tekjum eða greiddum launum, þ.e. að lágmarki 4% iðgjald sjóðfélaga og að lágmarki 6% mótframlag vinnuveitanda.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Iðgjöld launþega sem eru sjóðfélagar skv. 2. mgr. 2. gr. skulu að lágmarki vera 10% af heildarlaunum, þ.e. að lágmarki 4% iðgjald sjóðfélaga og að lágmarki 6% mótframlag vinnuveitanda.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Iðgjöld skv. 3. og 4. gr. skulu hvert almanaksár umreiknuð til lífeyrisréttinda með jafnri og/eða aldurstengdri réttindaávinnslu samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum fyrir sjóðinn.
     b.      Í stað 3. og 4. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
                  Ekki skal reikna réttindi lengur en til loka þess mánaðar er 70 ára aldri er náð. Séu iðgjaldaár fleiri en 30 skal við framreikning vegna örorku- og makalífeyris reikna að fullu réttindi þeirra 30 ára sem hagstæðust eru fyrir sjóðfélagann en að hálfu réttindi þeirra ára sem afgangs verða.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      A-liður 2. mgr. orðast svo: hafi greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum fyrir orkutap og áunnið sér a.m.k. 0,4 stig í jafnri réttindaávinnslu hvert þessara þriggja ára eða sambærileg réttindi í aldurstengdri ávinnslu.
     b.      Í stað orðanna „sbr. þó 3. málsl. 4. mgr. 6. gr.“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: sbr. þó 3. mgr. 6. gr.
     c.      Í stað orðsins „stig“ í 3. málsl. 5. mgr. kemur: réttindi.

6. gr.

    Í stað orðsins „stig“ í 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laganna kemur: réttindi.

7. gr.

    4. og 5. málsl. 2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Fullur barnalífeyrir greiðist ef árleg réttindi, áætluð í samræmi við 5. mgr. 10. gr., jafngilda a.m.k. einu stigi í jafnri réttindaávinnslu og samsvarandi réttindum í aldurstengdri réttindaávinnslu. Séu áætluð árleg réttindi lægri lækkar barnalífeyrir frá sjóðnum hlutfallslega og fellur niður ef árleg réttindi jafngilda minna en 0,5 stigum.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Orðin „sbr. 3. mgr. 6. gr.“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Upphæð elli- og örorkulífeyris skv. 9. og 10. gr. er hundraðshluti af grundvallarlaunum, sbr. 1. mgr., samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum. Upphæð makalífeyris skv. 11. gr. skal vera 50% lægri.

9. gr.

    Orðin „sbr. 3. mgr. 6. gr.“ í 6. mgr. 16. gr. laganna falla brott.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lífeyrissjóður bænda stendur frammi fyrir vaxandi vanda gagnvart tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins. Aldursskipting sjóðfélaga er og hefur ætíð verið sérlega óhagstæð miðað við flesta aðra lífeyrissjóði. Til að sjóðurinn geti brugðist við þessari stöðu eru í frumvarpi þessu lagðar til tvær efnisbreytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að breyta ákvæðum er lúta að iðgjöldum sjóðfélaga og mótframlagi launagreiðenda þannig að hægt verði í samþykktum lífeyrissjóðsins að hækka iðgjöld og mótframlag svo að styrkja megi stöðu sjóðsins. Í öðru lagi er lagt til að opna fyrir möguleika á aldurstengingu lífeyrisréttinda.
    Lífeyrisbyrði sjóðsins er mjög há. Meðalaldur sjóðfélaga verður hærri með hverju árinu sem líður og greiðandi sjóðfélögum fækkar. Framtíðarskuldbindingar sjóðsins eru því mjög þungar. Lífeyrisþegum sjóðsins fjölgar og eru þeir nú fleiri en greiðandi sjóðfélagar. Lífeyrisbyrði sjóðsins nam í árslok 2004 um 158% en það þýðir að greiddur lífeyrir er nær 60% hærri en þau iðgjöld sem greidd eru til sjóðsins. Sjóðurinn þarf því stöðugt að ganga á eignir sínar og ávöxtun þarf að vera mjög góð, betri en hjá flestum öðrum lífeyrissjóðum, til þess að halda í horfinu. Halli lífeyrissjóðsins nam í árslok 2002 11,9%. Á árinu 2003 var greiðslutími makalífeyris styttur úr þremur árum í tvö ár og margföldunarstuðull, sem notaður er til að reikna út lífeyrishlutfall elli- og örorkulífeyris, lækkaður úr 1,442 í 1,4 og makalífeyrir lækkaður úr 0,721 í 0,7. Komu breytingarnar til framkvæmda 1. júlí 2003 og leiddu til 2,91% skerðingar á lífeyrisgreiðslum. Bótaréttindi miðast því nú við lágmörk samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Breytingarnar höfðu það í för með sér að halli sjóðsins fór úr 11,9% í 8,6%. Fjármálaeftirlitið gerði þá ráð fyrir, í samráði við tryggingafræðing sjóðsins, að með 5,5% raunávöxtun sjóðsins á næstu árum kæmist hallinn undir 5% á fyrri hluta þessa árs.
    Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt í árslok 2003 nam halli sjóðsins 7,2% og ekki virtist útlit fyrir annað en framangreind áætlun um að ná hallanum undir 5% gæti gengið eftir. Ávöxtun var nokkuð góð hjá sjóðnum á árinu 2004, þó ekki eins góð og árið 2003. Endanlegu uppgjöri er ekki lokið en útlit er fyrir raunávöxtun um 7,13%.
    Á árinu 2004 gerðist það hins vegar að unnar voru nýjar töflur um lífslíkur og örorkulíkur Íslendinga. Ljóst er að miðað við þessar nýju töflur munu skuldbindingar sjóðsins (eins og annarra lífeyrissjóða) aukast töluvert. Verði miðað við hinar nýju töflur er nokkuð ljóst að staða Lífeyrissjóðs bænda mun ekki batna og að jafnvel muni vanta meira en 10% til að hann eigi fyrir heildarskuldbindingum.
    Að undanförnu hafa ýmis stéttarfélög gert kjarasamninga sem fela í sér hækkun á mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóði. Samkvæmt því hækkaði mótframlag þann 1. janúar 2005 úr 6% í 7% og mun hækka í 8% í ársbyrjun 2007.
    Frekari möguleikar til að bæta stöðu Lífeyrissjóðs bænda án lagasetningar eru ekki fyrir hendi. Nauðsynlegt er að opna fyrir möguleika á hækkun iðgjalds sjóðfélaga, mótframlags launagreiðenda svo og aldurstengingu réttinda sem er að mati tryggingafræðings sjóðsins orðin óhjákvæmileg.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lagt til að í 3. mgr. 1. gr. laganna verði heimild til að skipta sjóðnum í deildir eftir því hvernig ávinnslu réttinda er háttað. Með þessu er opnað fyrir heimild til handa lífeyrissjóðnum að aldurstengja réttindi.

Um 2. gr.

    Lagt er til að bætt verði í 1. og 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna orðunum „að lágmarki“ fyrir framan 4% af iðgjaldsstofni og 6% af iðgjaldsstofni. Tilgangur þessarar breytingar er að lífeyrissjóðurinn geti með breytingum á samþykktum fyrir sjóðinn hækkað iðgjöld og mótframlög í sjóðinn.

Um 3. gr.

    Eins og í 2. gr. er í 3. gr. lagt til að í 1. og 2. mgr. 4. gr. laganna verði bætt við orðunum „að lágmarki“ þrisvar sinnum í hvorri málsgrein í sama tilgangi og að framan greinir.

Um 4. gr.

    Í a-lið er gert ráð fyrir að í 2. mgr. 6. gr. verði ákvæði um að iðgjöld verði reiknuð til lífeyrisréttinda í stað stiga eins og verið hefur. Þá verði réttindi annaðhvort reiknuð með jafnri ávinnslu eins og verið hefur og/eða með aldurstengdri ávinnslu og fari réttindaávinnslan eftir nánari ákvæðum í samþykktum fyrir sjóðinn.
    Í b-lið er lagt til að 3. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. 6. gr. laganna falli brott og ákvæði um reikning réttinda verði í samþykktum fyrir sjóðinn. Í nýrri 3. mgr. er ekki um neina efnislega breytingu að ræða á því sem eftir stendur af 4. mgr. 6. gr. nema að í stað stiga er talað um réttindi sem getur þá átt við jafna sem aldurstengda réttindaávinnslu.

Um 5. gr.

    Í a-lið er lagt til að í a-lið 2. mgr. 10. gr. verði orðin „jafnri réttindaávinnslu“ sett í staðinn fyrir stigadeild og aftast í málsliðnum komi „eða sambærileg réttindi í aldurstengdri ávinnslu“ til þess að ákvæðið geti bæði átt við jafna réttindaávinnslu og aldurstengda.
    Þá er í c-lið lagt til að í 3. málsl. 5. mgr. 10. gr. verði í staðinn fyrir orðið stig notað orðið réttindi. Með því verður vísað til réttinda hvort heldur þau eru áunnin með jafnri eða aldurstengdri ávinnslu.

Um 6. gr.

    Í sama tilgangi og greint er frá í 5. gr. er hér einnig lagt til að orðið „réttindi“ verði sett í stað orðsins stig.

Um 7. gr.

    Með 7. gr. er enn fremur lagt til að í 4. og 5. málsl. 2. mgr. 12. gr. laganna verði orðinu stig skipt út fyrir orðið réttindi til þess að það eigi bæði við jafna réttindaávinnslu og aldurstengda. Nauðsynlegt er að umorða texta málsliðanna í heild til þess að ná fram réttri túlkun breytingarinnar.

Um 8. gr.

    Með 8. gr. er einnig lagt til að umorða 2. mgr. 13. gr. til að ná fram breytingu á stigum í réttindi. Fellt er út ákvæði um útreikning á hundraðshluta lífeyris miðað við heildarstigafjölda og margföldunarstuðul. Þetta ákvæði um útreikning lífeyris er í samþykktum fyrir sjóðinn og verði tekin upp aldurstenging réttinda hjá sjóðnum verður samþykktum breytt til samræmis.

Um 9. og 10. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 12/1999,
um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.

    Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru annars vegar rýmkaðar heimildir sjóðsins til að hækka iðgjöld í samræmi við kjarasamninga ýmissa stéttarfélaga um hækkun mótframlaga atvinnurekenda og aukinn lífeyrissparnað launþega. Hins vegar er veitt heimild til að aldurstengja réttindi sjóðsfélaga. Frumvarpinu er ætlað að auka möguleika stjórnar sjóðsins á að bæta stöðu hans. Mótframlag atvinnurekenda í sjóðinn er nú 6% og er greitt af sjóðfélaga eða ríkissjóði sé samið um það í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Ríkissjóður greiðir árlega 234 m.kr. í lífeyrissjóðinn samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2005 vegna mjólkur- og sauðfjárframleiðslu, eða um 40 m.kr. fyrir hvert prósent atvinnurekenda.
    Verði frumvarpið að lögum leiðir það ekki sjálfkrafa til aukinna útgjalda ríkissjóðs þar sem framlög í sjóðinn eru bundin samningum.