Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 43. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 43  —  43. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á vegagerð og veggjöldum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Halldór Blöndal,


Drífa Hjartardóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson.

    
    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að vinna að úttekt á kostum í vegagerð sem unnt yrði að fjármagna með veggjöldum, í því skyni auka fjárfestingar í vegagerð og stuðla að uppbyggingu nýrra samgöngumannvirkja.

Greinargerð.


    Mál þetta var flutt á 130. þingi, en varð ekki útrætt og er því flutt að nýju.
    Íslendingar verja umtalsverðu fé til vegagerðar, líklega hlutfallslega meira en flestar aðrar þjóðir. Aðstæður til vegagerðar eru víða erfiðar og ör þéttbýlismyndun hefur kallað á mikla fjárfestingu í innviðum samfélagsins, svo sem í vegagerð. Samgöngukerfið hefur fyrir vikið tekið miklum stakkaskiptum á ótrúlega skömmum tíma.
    Samkvæmt samgönguáætlun 2003–2014 verður varið um 71,8 milljörðum kr. til stofnframkvæmda í grunnneti vegakerfisins. Þó er ljóst að mikil þörf er á frekari uppbyggingu og að tugi milljarða króna vantar til þess að uppfylla allar óskir um nýframkvæmdir í vegagerð í landinu. Nútímalífshættir auka kröfur um nýja og fullkomnari vegi. Stórauknir landflutningar kalla á skjótar úrbætur í vegamálum. Enn hefur ekki tekist að rjúfa vetrareinangrun sumra þéttbýlisstaða né leggja uppbyggða nútímalega vegi þar sem þörf er á. Sífellt aukast kröfur um styttingu vega, til þess að auka rekstrarhagkvæmni atvinnulífsins og opna fólki leiðir að sem fjölbreytilegri þjónustu. Þannig er vegagerð snar þáttur í nútímalegri byggðastefnu og forsenda fjölbreyttrar atvinnu og þjónustu.
    Þarfir við vegagerð eru margvíslegar og breytast ört. Horfa þarf til grundvallarþarfa eins og að leggja bundið slitlag á vegi út um landið, auka öryggi með breiðari og styrkari vegum, útrýma einföldum brúm, verjast skriðuföllum, stytta leiðir, útrýma snjóaköflum og öðru því sem er snar þáttur í almennri vegagerð um byggðir landsins. Á höfuðborgarsvæðinu er þörf á annars konar vegagerð. Þar eru markmiðin að greiða fyrir umferð, draga úr hávaðamengun og tengja byggðirnar á svæðinu saman með sem greiðustum hætti.

Hvalfjarðargöngin – eina dæmið.
    Á undanförnum árum hefur oft verið rætt um að beita nýrri fjármögnunaraðferð við vegagerð til þess að flýta fyrir gerð umferðarmannvirkja. Þar er þá horft til vegagerðar sem einstaklingar og fyrirtæki á þeirra vegum annist og fjármagni en fái heimild til þess að innheimta veggjald í einhverri mynd. Slíkt tíðkast víða erlendis og hefur verið notað við gerð stórra og dýrra samgöngumannvirkja. Þessari aðferð hefur líka verið beitt til þess að hafa áhrif á dreifingu umferðar og er nýlegt dæmi frá Lundúnum líklega þekktast.
    Hér á landi hefur slíkum kostum við mannvirkjagerð verið lítt beitt. Hvalfjarðargöngin eru eina samgöngumannvirkið sem gert hefur verið og fjármagnað með veggjöldum á síðari árum. Var sú fjármögnun forsenda þess að farið var í þá framkvæmd á sínum tíma. Þar með var einnig skapað svigrúm til annarrar vegagerðar, sem ekki var unnt að fjármagna með veggjöldum en var borin uppi með fé af vegáætlun. Reynslan hefur sýnt að þörfin fyrir Hvalfjarðargöngin var afskaplega brýn. Frá 1999 til 2002 jókst umferðin um þau um meira en fjórðung.

Mikil þróun.
    Fullt tilefni er til þess nú að hyggja sérstaklega að því hvar koma megi við frekari veggjöldum til þess að stuðla að aukinni vegagerð í landinu, ekki síst vegna þess að mikil þróun á sér nú stað varðandi tæknilega möguleika á slíku. Búnaður sem þarf til slíkrar innheimtu verður æ fullkomnari. Með því að stöðugt fleiri þjóðir tileinka sér slíkar fjármögnunarleiðir til vegagerðar verður unnið að því af miklum krafti að fullkomna slíkan búnað og gera hann einfaldari. Innan Evrópu tengist þetta tilraunum manna til þess að fjármagna vegagerð í vaxandi mæli með notendagjöldum af hvers konar tagi.
    Hér á landi er vaxandi umræða um þessi mál. Nefna má að stofnað hefur verið einkahlutafélag í Bolungarvík, Leið ehf. – félag um einkafjármögnun vegamannvirkja, sem auk annars heldur úti kröftugri og fróðlegri heimasíðu: www.leid.is. Þangað má sækja almennan fróðleik um vegamál og ekki síst um mál er tengjast veggjöldum og skyldum hlutum. Hefur fyrirtækið meðal annars staðið fyrir skoðanakönnunum um veggjöld og vilja vegfarenda til þess að greiða fyrir afnot af nýjum samgöngumannvirkjum og vegum. Þessar kannanir hafa leitt í ljós verulegan áhuga á slíkri fjármögnun og greinilegan vilja fólks til þess að greiða fyrir vegabætur með umferðargjöldum.

Þingmál á Alþingi.
    Mál sem tengjast veggjöldum hafa einatt komið til umræðu á Alþingi. Vitaskuld með beinskeyttustum hætti þegar unnið var að undirbúningi Hvalfjarðarganga. Einnig má tiltaka þingmál sem flutt hafa verið og samþykkt í þessa veru. Hér verða nefnd tvö dæmi.
    Fyrir ríflega einum áratug, 7. maí 1993, var samþykkt ályktun á Alþingi (104. mál 116. þings) þar sem sagði meðal annars: „Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd sem hafi eftirfarandi verkefni: að kanna hvar sé mögulegt og réttlætanlegt að fjármagna gerð vega og tengdra samgöngumannvirkja á annan hátt en með framlögum samkvæmt núgildandi lögum um bensíngjald og Vegasjóð.“ Flutningsmenn tillögunnar voru Árni M. Mathiesen, Árni R. Árnason og Einar K. Guðfinnsson.
    Á árinu 1998 var síðan flutt þingsályktunartillaga (45. mál 123. þings) þar sem sagði: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er kanni hvort unnt sé að beita vegtollum til þess að draga úr þörf á gerð samgöngumannvirkja, stuðla að minni mengun og afla fjár til vegagerðar.“ Flutningsmenn hennar voru Einar K. Guðfinnsson, Össur Skarphéðinsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Árni M. Mathiesen og Kristín Halldórsdóttir. Var tillagan síðan samþykkt eilítið breytt 10. mars 1999.
    Af þessum dæmum má sjá að áður hafa komið fram hugmyndir um að beita vegtollum. Nú, að fenginni reynslu, vegna brýnnar þarfar á frekari vegagerð og í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur annars staðar í Evrópu, er fullt tilefni til þess að skoða þessi mál að nýju og er það helsta ástæða þess að þingsályktunartillaga þessi er flutt. Fylgiskjal.


Framlög til vegamála samkvæmt gildandi samgönguáætlun.

    
3.3     Vegamál.
Verðlag fjárlaga fyrir árið 2003, millj. kr. 1. tímabil 2. tímabil 3. tímabil
(vísitala vegagerðar 6.940) 2003–2006 2007–2010 2011–2014
Tekjur og framlög
Markaðar tekjur 42.946 45.113 46.424
Framlag úr ríkissjóði 12.752 12.152 9.332
Viðbótarfé til eflingar atvinnutækifæra 4.600 0 0
Ríkistekjur
Sértekjur
Tekjur og framlög 60.298 57.265 55.756
Viðskiptahreyfingar
    Lántökur 0 0 0
    Afborganir -1.413 -320 0
    Afborganir 0 -500 0
Viðskiptahreyfingar samtals -1.413 -820 0
Til ráðstöfunar alls 58.885 56.445 55.756
Gjöld
Rekstrargjöld
    Yfirstjórn 1.233 1.330 1.400
    Upplýsingaþjónusta 313 330 350
    Umferðareftirlit 238 250 270
    Þjónusta 10.384 10.889 11.496
    Almenningssamgöngur 3.920 3.070 2.770
        Þar af afborgun lána -1.253 -240 0
    Rannsóknir 426 451 464
    Minjar og saga 35 80 100
Rekstrargjöld alls 15.296 16.160 16.850
Viðhald samtals 9.628 10.600 11.100
Stofnkostnaður
    Grunnnet
        Almenn verkefni 1.920 1.740 1.740
        Höfuðborgarsvæðið 5.986 7.246 7.762
        Stórverkefni 8.100 9.319 8.914
        Áður framkvæmt/afborgarnir -160 -80 0
        Orku- og iðjuvegir 417 0 0
        Jarðgöng 6.400 5.000 2.000
        Landsvegir í grunnneti 120 200 520
        Viðbótarfé til eflingar atvinnutækifæra 4.600 0 0
    Samtals grunnnet 27.383 23.425 20.936
    Utan grunnnets
        Tengivegir 2.115 2.160 2.180
        Til brúargerðar 1.158 1.160 1.160
        Ferðamannaleiðir 1.050 1.100 1.100
        Girðingar 262 300 350
        Landsvegir utan grunnnets 397 400 400
        Safnvegir 1.178 1.200 1.200
        Styrkvegir 235 240 260
        Reiðvegir 183 200 220
    Samtals utan grunnnets 6.578 6.760 6.870
    Afborgun skuldar frá 1999 0 -500 0
Stofnkostnaður samtals 33.961 29.685 27.806
Gjöld alls 58.885 56.445 55.756