Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 461  —  376. mál.




Frumvarp til laga



um afnám laga nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Frá og með 1. janúar 2005 falla lög nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna, með síðari breytingum, úr gildi.

2. gr.

    Frá og með 1. janúar 2005 skal Lífeyrissjóður sjómanna starfa á grundvelli laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, og samþykkta er fyrir sjóðinn gilda. Stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna skal aðlaga samþykktir sjóðsins ákvæðum laga nr. 129/1997 og leggja þær þannig breyttar fyrir fjármálaráðherra til staðfestingar, sbr. 28. gr. laganna, svo fljótt sem auðið er.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Undanfarin missiri hefur verið til skoðunar hvort þörf væri á að sérstök lög giltu um Lífeyrissjóð sjómanna. Fram hefur komið að það geti staðið sjóðnum fyrir þrifum að reglur um hann séu bundnar í lög. Í ljósi þess að sjóðurinn er um flest eðlislíkur öðrum lífeyrissjóðum verður að telja eðlilegra að hann starfi á grundvelli laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og samþykkta eins og flestir lífeyrissjóðir gera. Þá hefur fjármálaráðuneytinu borist erindi frá Lífeyrissjóði sjómanna þess efnis að ráðuneytið beiti sér fyrir afnámi laga um sjóðinn. Í samræmi við framangreint er með frumvarpi þessu lagt til að lög nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna, verði afnumin.
    Í 7. gr. núgildandi laga um Lífeyrissjóð sjómanna kemur fram að iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda skuli hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipi og ganga fyrir öllum öðrum veðum. Ákvæðið kom upphaflega inn í lög um Lífeyrissjóð togarasjómanna, nr. 49/1958, með breytingu sem gerð var með lögum nr. 34/1960. Í greinargerð frumvarpsins sem síðar varð að lögum segir m.a.: „Komið hafa í ljós annmarkar á ákvæðum laga um innheimtu iðgjalda til lífeyrissjóðs togarasjómanna. Nokkur togarafélög hafa eigi staðið skil á iðgjöldum, og hefur orðið að innheimta iðgjöldin með lögsókn. Hafa tveir togarar verið auglýstir til uppboðs vegna vanskila við ýmsa kröfuhafa, þ. á m. lífeyrissjóð togarasjómanna. Mun mjög tvísýnt, hvort sjóðurinn nær kröfum sínum, því að skuldir munu allmiklu meiri en eignin. Lífeyrissjóðurinn hefur ekki tök á því að fyrirbyggja skuldasöfnun, þar sem tryggingin er lögboðin, og þykir því eðlilegt, að hann fái lögveð í hlutaðeigandi skipi.“ Í framsöguræðu með frumvarpinu kom fram að rök fyrir frumvarpinu væru þau að í ýmsum tilfellum hefðu átt sér stað erfiðleikar við innheimtu þessara iðgjalda, en fram til þessa hefði engin veðtrygging verið fyrir greiðslu þeirra. Hætta væri á að iðgjaldagreiðslur innheimtust ekki og töpuðust með öllu í ýmsum tilfellum. Frumvarpinu væri ætlað að koma í veg fyrir að slíkt ætti sér stað. Trygging togarasjómanna væri lögboðin og af því leiddi að tryggja yrði að tekjur lífeyrissjóðsins heimtust. Frumvarpið var samþykkt óbreytt sem lög nr. 34/1960. Samkvæmt framangreindum gögnum og umræðum hefur sú sérstaða lífeyristryggingar togarasjómanna, að vera lögboðin, skipt sköpum við afgreiðslu ákvæðisins um lögveð á sínum tíma.
    Frá gildistöku framangreinds lagaákvæðis um lögveð hefur mikið vatn runnið til sjávar í lífeyrismálum hér á landi. Þannig hefur á grundvelli allsherjarsamkomulags aðila vinnumarkaðarins náðst sátt um skipan lífeyriskerfis fyrir alla launamenn í landinu. Um það gilda nú lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Er nú svo komið að öllum launamönnum er skylt að greiða í lífeyrissjóð af launum sínum og framangreind sérstaða lífeyristryggingar togarasjómanna því ekki lengur fyrir hendi. Á undanförnum árum hafa verið settar almennar reglur um innheimtu lífeyrisiðgjalda og ábyrgð á vangoldnum iðgjöldum við gjaldþrot vinnuveitanda. Reglurnar eru almennar og ná til allra launþega og launagreiðenda. Í lögum nr. 129/1997 er sérstaklega fjallað um eftirlit með greiðslu iðgjalda en skv. 6. gr. laganna skal ríkisskattstjóri hafa með höndum eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til. Skv. 5. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, njóta kröfur lífeyrissjóðs um lífeyrisiðgjöld, sem fallið hafa í gjalddaga á ábyrgðartímabili, ábyrgðar sjóðsins. Í samræmi við framangreint þykja ekki vera rök til þess að viðhalda umræddu ákvæði um lögveð. Það mun því falla brott með afnámi laganna um Lífeyrissjóð sjómanna.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um afnám laga nr. 45/1999,
um Lífeyrissjóð sjómanna, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sérlög um Lífeyrissjóð sjómanna verði afnumin og að sjóðurinn starfi framvegis samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, eins og flestir aðrir lífeyrissjóðir í landinu. Ekki er ástæða til að ætla að ákvæði frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.