Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 169. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 182  —  169. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á skattamálum lögaðila.

Flm.: Ellert B. Schram.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að hefja nú þegar endurskoðun á skattamálum lögaðila, einkum einkahlutafélaga.

Greinargerð.


    Í árslok 2001 var tekjuskattur á atvinnurekstur lækkaður, einkum í þeim tilgangi „að auka fjárfestingar erlendra aðila hér á landi og koma í veg fyrir að íslensk fyrirtæki flytji starfsemi sína til útlanda“.
    Á 133. löggjafarþingi lagði flutningsmaður fyrirspurn fyrir fjármálaráðherra um þá reynslu sem fengist hefur af þessum skattalagabreytingum að því er varðar skatta á einkahlutafélög. Svar fjármálaráðherra nær yfir árin 2003–2005 (sjá þskj. 1186, 583. mál). Þar má meðal annars sjá að þúsundir einkahlutafélaga hafa verið stofnaðar til að nýta sér framangreindar skattalagabreytingar. Skráð félög af þessu tagi eru á árinu 2005 samtals 24.163 talsins. Langflest þeirra eru mynduð um þjónustustarfsemi og aðra starfsemi sem alls ekki er í samkeppni við útlönd. Hér eru í yfirgnæfandi meiri hluta fyrirtæki sem einstaklingar stofna um sína eigin þjónustu, en þar er skattgreiðanda heimilt, innan marka sem sett eru um svokallað „reiknað endurgjald“, að ákveða sér sjálfum laun en telja síðan afganginn af tekjum sínum fram sem arð af hlutafé. Í raun þýðir þetta að skattgreiðandinn getur oft að eigin ákvörðun náð fram verulegri lækkun á sköttum sínum. Skattur á einkahlutafélög er 18% og síðan eru arðgreiðslur skattlagðar með 10% fjármagnstekjuskatti. Á árinu 2005 greiddu 1.752 einkahlutafélög arð sem var umfram 100% af hlutafé og arðshlutfallið hjá þessum félögum var að meðaltali 650%.
    Var þetta tilgangur laganna? Er það í samræmi við sanngjarnt og réttlátt skattkerfi að þúsundir skattgreiðenda geti hagrætt sköttum sínum með því að telja óeðlilegan hluta af tekjum sínum fram sem arð? Er það í samræmi við sanngjarnt og réttlátt skattkerfi að með hækkandi tekjum lækki það hlutfall sem greitt er í skatt? Fer nokkuð á milli mála að tilurð skattívilnana gagnvart einkahlutafélögum hefur leitt af sér óverjandi mismun á skattbyrði af raunverulegum tekjum einstaklinga?
    Við lauslega athugun má ætla að skattalegur ávinningur þess hóps skattgreiðenda sem stofnað getur einkahlutafélög um atvinnu sína nemi að minnsta kosti einum milljarði króna á ári hverju.
    Þegar framangreindar lagabreytingar voru gerðar á árinu 2001 var oftlega vísað til góðs fordæmis frá öðrum löndum um lækkun skatta á atvinnurekstur. Hins vegar var ekki gerð grein fyrir því hvaða ákvæði er að finna í skattalöggjöf viðkomandi landa til að hindra að slík skattalækkun leiði til misréttis í skattlagningu einstakra þjóðfélagshópa. Nauðsynlegt er að þessara upplýsinga verði aflað í sambandi við þá endurskoðun sem hér er óskað eftir.