Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 18. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 18  —  18. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um málsvara fyrir aldraða.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Katrín Júlíusdóttir,


Guðbjartur Hannesson, Árni Páll Árnason, Ellert B. Schram.



    Alþingi ályktar að fela félags- og tryggingamálaráðherra að beita sér fyrir því að komið verði á þjónustu sem sinni gæslu hagsmuna og réttinda aldraðra. Það verði metið hvort sett verði á laggirnar sérstakt embætti umboðsmanns aldraðra eða hvort sveitarfélög annist verkefnið. Samráð verði haft við hagsmunasamtök aldraðra við vinnuna.

Greinargerð.


    Á liðnum árum hefur á Alþingi og í almennri þjóðfélagsumræðu verið rætt um þörfina á að stofna sérstakt embætti umboðsmanns aldraðra sem hefði það hlutverk að annast hagsmunagæslu fyrir aldraða og fylgjast með því að stjórnvöld og einkaaðilar tækju fullt tillit til réttinda þeirra og þarfa.
    Hér er miðað við þann hóp sem kominn er á eftirlaunaaldur. Hópurinn er stór og fjölbreyttur og eðli málsins samkvæmt er hann misjafnlega fær um að gæta réttar síns og hagsmuna sjálfur. Ábyrgð á þjónustu við aldraða dreifist á hendur ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Lögin um málaflokkinn eru flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Því er brýnt að aldraðir geti á einum stað nálgast upplýsingar um lögvarin réttindi sín og hvernig þeim verður best fylgt eftir, m.a. í því skyni að styrkja stöðu þeirra með tilliti til fjárhags, heilsu, búsetu og umönnunar. Þetta er hópur sem fer ört stækkandi. Árið 2007 voru Íslendingar 67 ára og eldri tæplega 32 þúsund og samkvæmt spá Hagstofunnar verða þeir orðnir um 46 þúsund árið 2020.
    Þegar embætti umboðsmanns barna var stofnað með sérstökum lögum var útskýrt hvað almennt fælist í störfum umboðsmanna sérhópa í almennum athugasemdum með frumvarpinu (377. mál 117. löggjafarþings): „Í umræðu um umboðsmenn sérhópa í þjóðfélaginu er yfirleitt átt við óháða embættismenn sem hafa það hlutverk að taka við kvörtunum vegna tiltekinna málefna sem heyra undir verksvið þeirra jafnframt því að vera talsmenn þeirra hópa gagnvart stjórnvöldum, gefa út álitsgerðir, þrýsta á stjórnvöld um úrbætur, hafa frumkvæði að ábendingum til stjórnvalda um það sem betur mætti fara í löggjöf eða á viðkomandi sviðum framkvæmdarvaldsins og almennt að móta viðhorf í þjóðfélaginu og hafa stefnumarkandi áhrif fyrir þá þegna þjóðfélagsins sem þeir eru talsmenn fyrir.“
    Flytjendur telja eðlilegt að metið verði hvort sett verði á laggirnar sérstakt embætti umboðsmanns aldraðra eða hvort sveitarfélögum verði falið að annast hagsmunagæsluna. Málefni aldraðra heyra undir félags- og tryggingamálaráðherra og því rétt að hann kanni kosti þessa. Verði niðurstaðan á þá leið að fela sveitarfélögum verkefnið bæri ráðherranum að viðhafa samráð við samgönguráðherra sem er yfirmaður sveitarstjórnarmála. Einnig er mikilvægt að haft verði samráð við samtök aldraðra á öllum stigum málsins. Félag eldri borgara í Reykjavík hefur á undanförnum árum reynt eftir bestu getu að annast hagsmunagæslu fyrir aldraða en nú er svo komið að samtökin eiga erfitt með að sinna því vel vegna mikils umfangs. Félagið hefur bent á að fordæmi séu fyrir réttindagæslu af hendi opinberra aðila í lögum um málefni fatlaðra sem hafa mætti til hliðsjónar.
    Það er í samræmi við tíðarandann að þjónusta við aldraða sé nærþjónusta og þannig að miklu leyti á hendi sveitarfélaga. Sveitarfélög gætu í ljósi þess aðstoðað eldri borgara innan sinna umdæma við að gæta réttar síns í málefnum sem þá varða. Þar sem sveitarfélög eru misstór er eðlilegt að smærri sveitarfélög sameinuðust um aðstoðina.
    Á Norðurlöndum er ýmis háttur hafður á við að gæta hagsmuna og réttinda aldraðra og leggja flytjendur áherslu á að reynslan þaðan verði höfð til hliðsjónar. Dæmi eru um óháð embætti á vegum yfirvalda, borgar- eða sveitarstjórna sem búa yfir sérþekkingu á málefnum aldraðra. Hlutverk þeirra er að aðstoða eldri borgara við að fá rétta úrlausn sinna mála. Nefna má sem dæmi að umboðsmaður aldraðra í Stokkhólmi aðstoðar eldri borgara við það sem snýr að málefnum aldraðra og þjónustu við þá. Þeir geta komið beint til hans með skoðanir á málefnum sínum, kvartanir og spurningar og hann vísar þeim síðan áfram rétta leið í kerfinu. Borgaryfirvöld í Stokkhólmi telja mikilvægt að efla tengsl sín við aldraða sem njóta þjónustu borgarinnar á þennan hátt. Áhrif eldri borgara á þá þjónustu sem þeir fá er þar talin mikilvæg og jafnframt að þeir hafi val um þá þjónustu. Hlutverk umboðsmannsins er einnig að safna saman athugasemdum og nýta þær til að bæta þjónustu við aldraða.
    Flytjendur telja ástæðu til að aldraðir hér á landi eignist málsvara sem sinni réttindamálum þeirra og í sama streng hafa félög eldri borgara tekið, sbr. fylgiskjal. Með tillögunni er það lagt í hendur félags- og tryggingamálaráðherra að ákveða leið til að ná því markmiði.
    Mál af svipuðum toga hafa verið lögð fram á Alþingi, sbr. 475. mál 122. löggjafarþings og 117. mál 126. löggjafarþings, en ekki náð fram að ganga.



Fylgiskjal.

Margrét Margeirsdóttir:

Umboðsmaður aldraðra.
(Morgunblaðið, 21. apríl 2007.)


    Á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík hinn 19. febrúar síðastliðinn var samþykkt áskorun til ríkisstjórnarinnar að stofna embætti umboðsmanns aldraðra.
    Með áskoruninni fylgdi eftirfarandi greinargerð: „Réttindi eldri borgara eru oft fyrir borð borin í þjóðfélaginu bæði utan stofnana sem og innan þeirra. Þetta gildir um kjaramál, skattamál, þjónustu o.fl. Þess vegna er það brýnt hagsmunamál fyrir eldri borgara að embætti umboðsmanns aldraðra verði stofnað. Slíkt embætti gæti tekið að sér og fjallað um réttindi og réttindabrot sem eldri borgarar verða fyrir, en enginn aðili í stjórnkerfinu telur sér skylt að sinna.“
    Mjög brýnt er að mál þetta nái fram að ganga sem fyrst. Eldri borgarar standa mjög illa að vígi þegar þeir þurfa að sækja eða verja réttindi sín. Enginn aðili í stjórnkerfinu er til staðar sem þeir gætu leitað til og hefði það lögbundna hlutverk að sinna málum þeirra þegar þeir telja brotið á sér. Eldri borgarar standa berskjaldaðir gagnvart stofnunum og yfirvöldum sem beita valdi sínu á óréttlátan hátt eins og því miður fjölmörg dæmi eru um. Stór hópur eldri borgara er í stöðugri baráttu við „kerfið“ vegna þess að þeim finnst brotið á sér og fá ekki lausn eða leiðréttingu á sínum málum. Mjög oft er um að ræða lífeyrismál og mál sem eru tengd þeim eins og skattamál en einnig búsetumál, skort á þjónustu bæði utan stofnana aldraðra sem og innan þeirra. Þessi hópur hefur ekki efni á að leita til lögfræðinga með vandamál sín.
    Í sambandi við réttindamál má geta þess að í lögum um málefni fatlaðra frá 1992 eru ítarleg ákvæði um réttindagæslu fatlaðra, sem svæðisráðin (8) hafa eftirlit með eða sérstakir starfsmenn þeirra. Engin hliðstæð ákvæði eru til í lögum um málefni aldraðra. Þess vegna leggur Félag eldri borgara í Reykjavík mikla áherslu á að úr þessu verði bætt með stofnun embættis umboðsmanns aldraðra. Félagið mun beita sér í ríkari mæli fyrir umræðum og að vekja athygli á réttindamálum og í því skyni standa fyrir almennum fundi í Stangarhyl 4, 21. apríl nk. þar sem Brynhildur Flóvenz lektor við lagadeild Háskóla Íslands og formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands mun flytja erindi um réttindamál aldraðra.