Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 645. máls.

Þskj. 1165  —  645. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum.
1. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „nánari reglur“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: og leiðbeinandi tilmæli.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Komi í ljós að aðili sem nefndur er í 2. málsl. 1. mgr. fylgir ekki reglum og leiðbeinandi tilmælum sem Seðlabanki Íslands setur um skilyrði til gjaldeyrisviðskipta skv. 2. mgr. skal Seðlabankinn krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests, að viðlögðum dagsektum skv. 15. gr. h.

3. gr.

    Í stað 1. málsl. 14. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Skylt er að veita Seðlabankanum allar þær upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti sem hann kann að óska eftir til að hann geti sinnt nauðsynlegu eftirliti, að viðlögðum dagsektum skv. 15. gr. h. Að sama skapi ber að veita bankanum allar nauðsynlegar upplýsingar til hagskýrslugerðar, sbr. ákvæði laga um Seðlabanka Íslands.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. a laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „Fjármálaeftirlitinu“ í inngangsmálslið 2. mgr. og „Fjármálaeftirlitsins“ í 6. málsl. 3. mgr. kemur: Seðlabanka Íslands.
     c.      4. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar.

5. gr.

    Í stað orðanna „Fjármálaeftirlitinu“ í 1. málsl. og „Fjármálaeftirlitið“ í 3. málsl. 15. gr. b laganna kemur: Seðlabanka Íslands, og: Seðlabanki Íslands.

6. gr.

    Í stað orðsins „Fjármálaeftirlitið“ í 15. gr. c laganna kemur: Seðlabanki Íslands.

7. gr.

    Í stað orðanna „Fjármálaeftirlitsins“ í 1. mgr. og „Fjármálaeftirlitið“ í 2. mgr. 15. gr. d laganna kemur: Seðlabanka Íslands, og: Seðlabanki Íslands.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. e laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Í tengslum við rannsókn mála er Seðlabanka Íslands heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Seðlabankans. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarkar ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið. Seðlabankinn getur kallað til skýrslugjafar einstaklinga sem hann telur búa yfir upplýsingum er varða rannsókn málsins.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Telji Seðlabanki Íslands að starfsemi samkvæmt lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra sé stunduð án tilskilinna leyfa getur hann krafist gagna og upplýsinga sem eru nauðsynlegar til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur hann krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er honum heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem eru taldir bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
     c.      Í stað orðsins „Fjármálaeftirlitið“ í 3. mgr. kemur: Seðlabanki Íslands.
     d.      4. mgr. orðast svo:
                  Seðlabanka Íslands er heimilt að gera sérstakar athuganir og leggja hald á gögn í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála, enda séu ríkar ástæður til að ætla að einstaklingar og lögaðilar hafi brotið gegn lögum þessum eða reglum sem eru settar á grundvelli þeirra eða ástæða er til að ætla að athuganir eða aðgerðir Seðlabankans nái að öðrum kosti ekki tilætluðum árangri. Skal ákvæðum laga um meðferð sakamála beitt við framkvæmd slíkra aðgerða.

9. gr.

    Á eftir 15. gr. e laganna koma þrjár nýjar greinar, 15. gr. f, 15. gr. g og 15. gr. h, svohljóðandi:

    a. (15. gr. f.)
    Í tengslum við athuganir tiltekinna mála er Seðlabanka Íslands heimilt að afla upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að leita til Fjármálaeftirlitsins vegna gagnaöflunar í tengslum við rannsókn tiltekinna mála, eins og heimildir Fjármálaeftirlitsins leyfa.
    Seðlabankanum er heimilt að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis um atriði sem lög þessi taka til að því tilskildu að þær upplýsingar lúti samsvarandi þagnarskyldu í hlutaðeigandi ríki.

    b. (15. gr. g.)
    Seðlabanki Íslands skal athuga svo oft sem þurfa þykir hvort starfsemi aðila sem hafa leyfi til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skv. 1. mgr. 8. gr. sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglur sem eru settar á grundvelli þeirra. Aðilum skv. 1. málsl. er skylt að veita Seðlabanka Íslands aðgang að öllum gögnum í vörslu þeirra er varða starfsemina og Seðlabankinn telur nauðsynleg. Í tengslum við eftirlit sitt samkvæmt lögum þessum getur Seðlabankinn gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á þann hátt svo oft sem hann telur þörf á.
    Aðilum sem hafa leyfi til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skv. 1. mgr. 8. gr. er skylt að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti og fyrirhuguð viðskipti þar sem grunur leikur á að viðskiptin brjóti gegn ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra og tilkynna Seðlabanka Íslands þegar í stað um slík viðskipti. Kanna skal bakgrunn og tilgang slíkra viðskipta að því marki sem unnt er. Aðilar skv. 1. málsl. skulu láta í té allar upplýsingar sem eru taldar nauðsynlegar vegna tilkynningarinnar.
    Aðilum sem hafa leyfi til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skv. 1. mgr. 8. gr., stjórnendum, starfsmönnum og öðrum sem vinna í þágu þeirra er skylt að sjá til þess að viðskiptamaður eða annar utanaðkomandi aðili fái ekki vitneskju um að Seðlabanka Íslands hafi verið tilkynnt um grun skv. 2. mgr. Upplýsingagjöf aðila skv. 2. mgr. eða starfsmanna hans sem er veitt í góðri trú samkvæmt ákvæði þessu telst ekki brot á þagnarskyldu sem viðkomandi er bundinn af samkvæmt lögum eða með öðrum hætti. Slík upplýsingagjöf leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á herðar hlutaðeigandi aðilum.

    c. (15. gr. h.)
    Seðlabanki Íslands getur lagt dagsektir á aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Ákvæði þetta tekur jafnt til lögaðila sem einstaklinga. Sama gildir um aðila sem veitt geta upplýsingar í þágu athugana samkvæmt ákvæðum þessara laga. Greiðast dagsektirnar þangað til farið hefur verið að kröfum Seðlabankans. Dagsektir leggjast á frá þeim degi sem skila bar upplýsingunum í síðasta lagi og fram að þeim degi sem skyldunni er fullnægt. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.
    Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila er tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
    Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum Seðlabanka Íslands nema Seðlabankinn ákveði það sérstaklega.
    Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
    Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Heimilt er að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. b laganna:
     a.      Í stað orðsins „Fjármálaeftirlitsins“ í 1. mgr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í greininni kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Seðlabanka Íslands.
     b.      Í stað orðsins „stofnuninni“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: Seðlabankanum.
     c.      Í stað orðsins „stofnunin“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: Seðlabankinn.
     d.      Í stað orðanna „hún hefur aflað“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: aflað hefur verið.
     e.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Seðlabanki Íslands skal upplýsa Fjármálaeftirlitið um kærur til lögreglu á hendur aðilum sem falla undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, vegna brota á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra.

11. gr.

    Á eftir 16. gr. b laganna koma tvær nýjar greinar, 16. gr. c og 16. gr. d, svohljóðandi:

    a. (16. gr. c.)
    Nú vill aðili ekki una ákvörðun Seðlabanka Íslands og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar né heimild til aðfarar samkvæmt henni, sbr. þó 2. mgr. 15. gr. h.

    b. (16. gr. d.)
    Seðlabanka Íslands er heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum er byggjast á lögum þessum, nema ef slík birting verður talin stefna hagsmunum gjaldeyrismarkaðarins í hættu, varðar ekki hagsmuni hans sem slíks eða veldur hlutaðeigandi aðilum tjóni sem er ekki í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir. Seðlabankinn skal birta opinberlega þá stefnu sem hann fylgir við framkvæmd slíkrar birtingar.

12. gr.

    4. málsl. 17. gr. laganna fellur brott.

13. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. nóvember 2010“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I í lögunum kemur: 31. ágúst 2011.

14. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. nóvember 2010“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: 31. ágúst 2011.

II. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
15. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. nóvember 2010“ í ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum kemur: 31. ágúst 2011.

III. KAFLI
Gildistaka.
16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara skal Fjármálaeftirlitið endursenda til Seðlabanka Íslands öll mál, ásamt öllum gögnum, sem tilkynnt hafa verið skv. 1. mgr. 15. gr. a laga nr. 87/1992 og eru enn til meðferðar hjá Fjármálaeftirlitinu.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með lögum nr. 134/2008 var Seðlabanka Íslands falið það hlutverk að tryggja stöðugleika í gengis- og peningamálum, með því að takmarka og stöðva tiltekna flokka fjármagnshreyfinga til og frá landinu og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengjast með útgáfu reglna, sbr. ákvæði til bráðabirgða I.
    Samkvæmt núgildandi skipan laga um gjaldeyrismál fer Seðlabanki Íslands með eftirlit með lögum og reglum um gjaldeyrismál en Fjármálaeftirlitið annast rannsókn þeirra mála sem Seðlabankinn tilkynnir til eftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur heimild til að leggja stjórnvaldssektir á þá sem brotlegir gerast eða eftir atvikum vísa þeim til lögreglu ef um meiri háttar mál er að ræða.
    Í ljósi þess að Seðlabanka Íslands ber að hafa eftirlit með lögum og reglum um gjaldeyrismál þykir eðlilegt að Seðlabankinn fari einnig með rannsókn og framfylgni þeirra mála. Af þeim sökum er með frumvarpi þessu lagt til að Seðlabanki Íslands taki við því hlutverki Fjármálaeftirlitsins að rannsaka mál og leggja á sektir. Í ljósi þessa er einnig nauðsynlegt að Seðlabankanum verði tryggð þau úrræði og heimildir sem þörf er á við rannsókn þessara mála, sambærilegar þeim sem Fjármálaeftirlitið hefur nú.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að felld verði brott kæruheimild til ráðherra sem kveðið er á um í 2. mgr. 7. gr. laganna vegna ákvarðana Seðlabanka Íslands um undanþágur skv. 1. mgr. 7. gr. laganna.
    Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna, sbr. og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I, hefur Seðlabankinn heimild til að veita undanþágur frá reglum um gjaldeyrismál sem takmarka tilteknar fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra. Í tilfelli sjálfstæðra ríkisstofnana, líkt og Seðlabanka Íslands, þarf sérstaka lagaheimild til að aðila máls sé heimilt að skjóta ákvörðunum sjálfstæðrar ríkisstofnunar til æðra setts stjórnvalds. Hvað fyrrgreinda undanþáguheimild varðar er slíka málskotsheimild að finna í 2. mgr. 7. gr. laganna.
    Stjórnsýslukærum er ætlað að vera trygging fyrir því að ákvarðanir stjórnvalda séu sem best úr garði gerðar. Þá er þeim einnig ætlað það hlutverk að tryggja almennum borgurum ódýra, skilvirka og einfalda leið til að fá ákvörðun endurskoðaða. Almennt er aðila máls hins vegar heimilt að bera stjórnsýsluákvörðun undir dómstóla og gera kröfu um að hún verði ógilt. Í ljós hefur komið að þær kærur sem berast ráðuneytinu vegna ákvarðana Seðlabanka Íslands um fyrrgreindar undanþágur eru yfirleitt tengdar atvinnurekstri og fjárhæðir eru háar. Því verður að telja að í þessu tilfelli eigi ekki við sjónarmið um að tryggja almennum borgurum ódýra leið til að fá ákvörðun stjórnvalds endurskoðaða.
    Með lögum um gjaldeyrismál hefur Seðlabankanum verið fengið verulegt svigrúm til að tryggja stöðugleika í gengis- og peningamálum, sem m.a. taka mið af alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við mat á beiðnum um undanþágu skal Seðlabankinn m.a. líta til þess hvaða markmið eru að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþága hefur á stöðugleika í gengis- og peningamálum, sbr. 2. mgr. 7. gr. Er Seðlabankanum fengið þetta mat sem sérfræðistjórnvaldi á þessu sviði.
    Í ljósi þess sem að framan greinir verður að telja eðlilegt að ákvarðanir Seðlabanka Íslands í þessum málum sæti ekki endurskoðun ráðherra.

Um 2. gr.


    Í ákvæðinu er lögð til sú breyting að Seðlabankanum sé heimilt að setja leiðbeinandi tilmæli um skilyrði til gjaldeyrisviðskipta sem gilda fyrir þá aðila sem hafa heimild til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti. Þá þykir rétt að Seðlabankanum sé fengin heimild til að leggja dagsektir á þessa sömu aðila í þeim tilvikum þegar þeir fylgja ekki reglum og leiðbeinandi tilmælum. Um nánari skýringar á dagsektarheimildum Seðlabankans vísast til skýringa við 9. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.


    Lagt er til að skýrt sé kveðið á um að Seðlabankanum sé heimilt að leggja á dagsektir verði aðilar ekki við beiðni Seðlabankans og veiti upplýsingar sem bankinn kann að óska eftir um gjaldeyrisviðskipti til að geta sinnt nauðsynlegu eftirliti sínu. Um nánari skýringar á dagsektarheimildum Seðlabankans vísast til skýringa við 9. gr. frumvarpsins.

Um 4.–8. gr.


    Meginmarkmiðið með frumvarpi þessu er að færa til Seðlabanka Íslands það hlutverk Fjármálaeftirlitsins að rannsaka ætluð brot á lögunum og leggja eftir atvikum á stjórnvaldssektir vegna slíkra brota. Í ljósi þessa er nauðsynlegt að Seðlabankanum séu veittar þær heimildir sem Fjármálaeftirlitið hefur við rannsókn slíkra brota. Í samræmi við það eru lagðar til breytingar á 15. gr. a – 15. gr. e laganna sem fela í sér að Seðlabankinn fari með þær heimildir sem Fjármálaeftirlitið hefur samkvæmt þessum ákvæðum í núgildandi lögum, þ.m.t. heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir.
    Til að tryggja að Seðlabankinn hafi sömu rannsóknarúrræði og Fjármálaeftirlitið er nauðsynlegt að styrkja heimildir Seðlabanka Íslands til að óska eftir upplýsingum, eins og fram kemur í b-lið 8. gr. frumvarpsins, og mæla fyrir um heimild Seðlabankans til að gera sérstakar athuganir og leggja hald á gögn í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála, sbr. d-lið 8. gr. frumvarpsins. Orðalag ákvæðisins tekur mið af sambærilegu ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

Um 9. gr.


    Lagt er til að á eftir 15. gr. e laganna komi þrjár nýjar greinar, 15. gr. f, 15. gr. g og 15. gr. h.
    Í 1. mgr. 15. gr. f er lagt til að við eftirlit Seðlabankans með lögum þessum sé bankanum heimilt að afla upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra. Hér undir falla t.d. tollyfirvöld. Á málsgreinin sér fyrirmynd í 4. mgr. 14. gr. í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og verður að telja eðlilegt að Seðlabankinn hafi slíka heimild. Samkvæmt ákvæðinu á þagnarskylda annarra stjórnvalda ekki að standa í vegi athugana Seðlabankans og hefur bankinn m.a. rétt til að afla skjala og annarra gagna sem viðkomandi stjórnvöld kunna að búa yfir. Ljóst er að ýmsar stofnanir sinna eðlislíkum störfum og Seðlabankinn og kunna ýmsar upplýsingar að liggja fyrir hjá öðrum stjórnvöldum, t.d. um tengsl aðila og fleiri atriði sem kunna að vera gagnleg fyrir athuganir Seðlabankans. Áréttað skal að slíkar upplýsingar sem Seðlabankinn kynni að afla hjá öðrum stjórnvöldum falla undir þagnarskylduákvæði 15. gr. laganna. Samkvæmt því njóta upplýsingarnar sama trúnaðar hjá Seðlabankanum og hjá viðkomandi stjórnvöldum.
    Við eftirlit með lögum um gjaldeyrismál er ljóst að Seðlabankinn mun m.a. þurfa að leita upplýsinga erlendis til þess að geta sinnt hlutverki sínu. Þykir því rétt að árétta í 2. mgr. 15. gr. f að Seðlabankinn geti notið aðstoðar Fjármálaeftirlitsins við slíka gagnaöflun í þeim tilvikum er heimildir Seðlabanka Íslands til gagnaöflunar þrýtur, og heimildir Fjármálaeftirlitsins leyfa. Af sömu ástæðu þykir rétt að árétta heimild til að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis eins og kveðið er á um í lögum um Seðlabanka Íslands.
    Í 15. gr. g er lagt til að Seðlabankanum séu veitt nauðsynleg úrræði til að hafa eftirlit með starfsemi þeirra aðila sem hafa heimild til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt lögunum. Er um að ræða heimild til vettvangskannana og tilkynningarskyldu aðila um brot á lögunum. Litið var til sambærilegra úrræða laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, en ljóst er að brot gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál geta falið í sér peningaþvætti samkvæmt skilgreiningu þeirra laga.
    Í 15. gr. h er lagt til að skýrt sé kveðið á um að Seðlabankanum sé heimilt að leggja á dagsektir verði aðilar ekki við beiðni Seðlabankans um upplýsingar sem bankinn kann að óska eftir til að geta sinnt nauðsynlegu eftirliti og rannsóknum, eða sinni ekki kröfum um úrbætur. Ákvæðið tekur mið af sambærilegu ákvæði 11. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Lagt er til að dagsektir sem innheimtar eru samkvæmt þessu ákvæði renni í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu þeirra, eins og almennt fer um sektir sem innheimtar eru af opinberum aðilum.

Um 10. gr.


    Í greininni er kveðið á um breytingar er lúta að flutningi rannsókna og sektarheimilda frá Fjármálaeftirlitinu til Seðlabankans. Um frekari skýringar er vísað til almennra athugasemda og umfjöllunar um 4.–8. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.


    Hér er lagt til að tvær nýjar greinar bætist við lögin, 16. gr. c og 16. gr. d.
    Í a-lið (16. gr. c) segir að aðili geti höfðað mál fyrir dómstólum, vilji hann ekki una ákvörðun Seðlabanka Íslands, innan þriggja mánaða frá því að honum var tilkynnt um ákvörðun bankans. Slík málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar né heimild til aðfarar nema um sé að ræða tilvik skv. 2. mgr. 15. gr. h, en þar segir að ekki sé heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar Seðlabanka Íslands um dagsektir og óskað hafi verið eftir flýtimeðferð. Sambærilegt ákvæði er að finna í 18. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Byggist ákvæðið á því að mikilvægt sé að aðili sem ekki vill una ákvörðun Seðlabankans geti höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Í greininni er kveðið á um þriggja mánaða málshöfðunarfrest með sambærilegum hætti og í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi en mikilvægt er talið að mál sem varð ágreining um ákvarðanir Seðlabankans í gjaldeyrismálum komi sem fyrst til kasta dómstóla.
    Með tillögu í b-lið (16. gr. d) er litið til sambærilegrar heimildar í 9. gr. a laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er heimilar Fjármálaeftirlitinu að birta niðurstöður í málum og athuganir er byggjast á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Lagt er til að Seðlabanki Íslands fái sambærilega heimild, að breyttu breytanda, enda er aukin upplýsingagjöf til þess fallin að auka trúverðugleika og veita aukið aðhald. Þess ber að geta að tillagan um heimild til birtingar upplýsinga er ekki án undantekninga þar sem ekki er gert ráð fyrir birtingu tiltekinna upplýsinga ef sýnt er fram á að slík birting geti stefnt hagsmunum gjaldeyrismarkaðarins í hættu eða geti valdið hlutaðeigandi aðilum tjóni sem telst ekki í eðlilegu samræmi við brot það sem um ræðir. Þá er í frumvarpinu lagt til að Seðlabanka Íslands verði gert að birta opinberlega þá stefnu sem bankinn fylgir við framkvæmd birtingar á upplýsingum, í því skyni að tryggja að öll eðlislík mál séu meðhöndluð með sambærilegum hætti og að starfsemi Seðlabanka Íslands sé samræmd og styðji við eftirlitsverkefni.

Um 12. gr.


    Í 4. málsl. 17. gr. laganna segir að Fjármálaeftirlitið rannsaki þau mál sem Seðlabanki Íslands tilkynnir um til eftirlitsins. Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að Seðlabanki Íslands taki við rannsóknarhlutverki Fjármálaeftirlitsins er lagt til að umræddur málsliður falli niður.

Um 13. og 14. gr.


    Með breytingu á lögum um gjaldeyrismál með lögum nr. 134/2008 var Seðlabanka Íslands veitt tímabundin heimild til að setja reglur, með samþykki efnahags- og viðskiptaráðherra, til að takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra. Heimildin var bundin við lengd efnahagsáætlunar Íslands gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þá er í gjaldeyrislögunum kveðið á um að greiðslur fyrir vöru og þjónustu skuli tímabundið til 30. nóvember 2010 fara fram í erlendum gjaldmiðli. Í frumvarpinu er lagt til að heimild bráðabirgðaákvæða laganna verði framlengd til 31. ágúst 2011, í samræmi við þá ákvörðun stjórnvalda að framlengja samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í ljósi þeirra tafa sem orðið hafa á framgangi efnahagsáætlunarinnar.

Um 15. gr.


    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða IV í tollalögum, nr. 88/2005, verði framlengt til 31. ágúst 2011, í samræmi við þá ákvörðun stjórnvalda að framlengja samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í ljósi þeirra tafa sem orðið hafa á framgangi efnahagsáætlunarinnar.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Rétt þykir að þau mál sem þegar hafa verið tilkynnt af Seðlabankanum til Fjármálaeftirlitsins verði endursend Seðlabankanum til meðferðar í samræmi við þær breytingar sem frumvarp þetta mælir fyrir um.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um
gjaldeyrismál og tollalögum, með síðari breytingum.

    Samkvæmt núgildandi lögum um gjaldeyrismál fer Seðlabanki Íslands með eftirlit með lögum og reglum um gjaldeyrismál en Fjármálaeftirlitið annast rannsókn þeirra mála sem Seðlabankinn tilkynnir til eftirlitsins. Með frumvarpi þessu er lagt til að það hlutverk Fjármálaeftirlitsins verði fært til Seðlabanka Íslands en hingað til hafa fjórir starfsmenn Fjármálaeftirlitsins sinnt þessari vinnu hjá stofnuninni. Markmiðið með þessari breytingu er að auka skilvirkni þar sem eftirlit og rannsókn verða á einum stað. Kostnaður Fjármálaeftirlitsins við þessi verkefni hefur hingað til verið greiddur af almennu eftirlitsgjaldi sem lagt er á alla aðila sem háðir eru reglubundnu eftirliti stofnunarinnar samkvæmt lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Á hverju ári skila Fjármálaeftirlitið og samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila skýrslu og rekstraráætlun til efnahags- og viðskiptaráðherra um umfang og útgjöld allrar starfsemi stofnunarinnar sem tekjuöflun eftirlitsgjaldsins tekur síðan mið af. Seðlabanki Íslands tilheyrir ekki A-hluta ríkissjóðs og fær ekki bein framlög heldur er fjármagnaður með eigin tekjuöflun. Gert er ráð fyrir að kostnaður Seðlabanka Íslands við aukin verkefni í tengslum við frumvarpið verði sem fyrr fjármagnaður með þeim tekjustofnum og hafi því ekki bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að velta Fjármálaeftirlitsins, bæði tekjur og gjöld, kunni að lækka sem nemur um fjórum störfum eða um 30 m.kr. við þessa tilfærslu verkefna frá stofnuninni yfir til Seðlabanka Íslands. Afkoma A-hluta ríkissjóðs yrði hins vegar óbreytt eftir sem áður.