Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 624. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1099  —  624. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



1. gr.

    4. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Komi fram beiðni um greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti skulu ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, eins og þau eru á hverjum tíma, eiga við um Orkuveitu Reykjavíkur með sama hætti og um félag með takmarkaða ábyrgð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með lögum nr. 144/2010 voru gerðar breytingar á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, í framhaldi af ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA frá 8. júlí 2009, í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á fyrirkomulagi eigendaábyrgða Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar. Samhliða framlagningu þess frumvarps sem varð að lögum nr. 144/2010 var lagt fram frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með sama markmiði og hefur það verið afgreitt sem lög frá Alþingi.
    Frumvarp þetta er lagt fram til að tryggja að sams konar kröfur séu að öllu leyti gerðar til eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur, að því leyti hvenær slík eigendaábyrgð verður mögulega virk. Var á því atriði tekið í b-lið 1. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 144/2010, varðandi Orkuveitu Reykjavíkur, og í b-lið 1. gr. frumvarps þess sem nýverið var afgreitt frá Alþingi um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun. Umrædd ákvæði eru ekki að öllu leyti samhljóða og má halda því fram að ákveðinn efnismunur sé á þeim. Ekki var það ætlunin þegar framangreind frumvörp voru lögð fram sl. haust og er frumvarp þetta því lagt fram til að samræma ákvæðin.
    Til að taka af allan vafa um að sams konar fyrirkomulag sé viðhaft varðandi framangreindar eigendaábyrgðir er með frumvarpi þessu lagt til að orðalagið verði samræmt í lögunum, þ.e. að orðalagið í lögum nr. 139/2001, eins og þeim var breytt með lögum nr. 144/2010, verði fært til samræmis við viðkomandi ákvæði í lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun.
    Nánar tiltekið er núgildandi ákvæði laga nr. 139/2001 svohljóðandi:
    „Ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, greiðslustöðvun og nauðasamninga, eins og þau eru á hverjum tíma, gilda um Orkuveitu Reykjavíkur. Ábyrgð eigenda Orkuveitu Reykjavíkur verður ekki virk fyrr en að loknum gjaldþrotaskiptum fyrirtækisins.“
    Lagt er til að umrætt ákvæði orðist svo, til samræmis við ákvæði b-liðar 1. gr. í nýlegum lögum um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun:
    „Komi fram beiðni um greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti skulu ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, eins og þau eru á hverjum tíma, eiga við um Orkuveitu Reykjavíkur með sama hætti og um félag með takmarkaða ábyrgð.“
    Með þessu ákvæði er í samræmi við kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA tryggt að Orkuveita Reykjavíkur, líkt og Landsvirkjun, lúti sömu reglum um gjaldþrotaskipti, greiðslustöðvun og nauðasamninga og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð.
    Eins og fram kemur í lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, bera eigendur Orkuveitu Reykjavíkur hver um sig einfalda hlutfallslega ábyrgð á lánaskuldbindingum fyrirtækisins. Þar sem um einfalda ábyrgð er að ræða verður kröfu ekki beint að eigendum fyrr en fullreynt er að krafa fáist ekki greidd hjá fyrirtækinu. Þetta getur ýmist verið með árangurslausu fjárnámi eða gjaldþrotaskiptum. Að gera kröfu um að gjaldþrotaskiptum sé lokið getur haft áhrif á möguleika fyrirtækisins á lánafyrirgreiðslu, þar sem gjaldþrotaskipti geta tekið verulega langan tíma. Ekki er talin ástæða til að ganga það langt í lagatextanum og er því frumvarp þetta lagt fram til að tryggja að fullt samræmi sé í lagaumhverfi Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar hvað þessi atriði varðar.