Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 82. máls.

Þskj. 86  —  82. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1.     Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess.
    Tilskipun 2004/35/EB varðar umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni sem rekja má til atvinnustarfsemi sem fellur undir tilskipunina og er henni ætlað að tryggja samræmingu fjárhagsábyrgðar vegna slíks tjóns eða yfirvofandi hættu á tjóni. Innleiðing hennar kallar á lagabreytingar hér á landi og var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2.     Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3.     Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess.
    Ákvæði tilskipunar 2004/35/EB varða umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni vegna atvinnustarfsemi sem skilgreind er í III. viðauka við hana. Er þar um að ræða starfsleyfisskylda atvinnustarfsemi og byggist ábyrgð rekstraraðila þar á hlutlægum grunni. Einnig tekur tilskipunin til ábyrgðar á grundvelli sakarreglunnar vegna umhverfistjóns eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni á vernduðum tegundum og vistgerðum sem rekja má til annarrar atvinnustarfsemi en þeirrar sem fellur undir III. viðauka. Tilskipuninni er ætlað að færa ábyrgð á umhverfistjóni til þess sem tjóninu veldur, þ.e. til rekstraraðila þeirrar atvinnustarfsemi sem fellur undir hana. Henni er þannig ætlað að tryggja að öll atvinnustarfsemi á svæðinu beri sambærilega fjárhagsábyrgð á þeim skaða sem hún kann að valda. Ábyrgðin nær þó einungis til tjóns á umhverfinu. Tjón á eignum eða lífi og limum fellur ekki undir ákvæði tilskipunarinnar. Ábyrgðin tekur til tjóns á vernduðum tegundum og vistgerðum, landi og vatni. Einstökum aðildarríkjum er heimilt að skylda fyrirtæki til að taka tryggingar vegna þess tjóns sem það veldur. Skýrt er tekið fram að viðkomandi ríki sé ekki heimilt að greiða fyrir tjón sem fyrirtæki bera ábyrgð á samkvæmt henni.
    Af hálfu EFTA-ríkjanna var gerð krafa um þá aðlögun við upptöku gerðarinnar í EES- samninginn að þeir hlutar hennar yrðu undanskildir sem snúa að tilskipunum er varða verndun villtra fugla annars vegar og verndun búsvæða hins vegar. Aðlögunartexti þessa efnis kemur fram í a-lið við 1. gr. ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Í umhverfisráðuneytinu liggja fyrir drög að frumvarpi til laga um umhverfisábyrgð sem lagt verður fram á yfirstandandi þingi. Er efni þess í samræmi við tilskipun 2004/35/EB og reglur opinbers réttar um athafnaskyldur rekstraraðila sem ábyrgð ber á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni. Í samræmi við tilskipunina er kveðið á um heimildir stjórnvalds til að gefa rekstraraðila fyrirmæli um rannsóknir og ráðstafanir til að koma í veg fyrir yfirvofandi umhverfistjón eða til að bæta úr slíku tjóni. Þá er í samræmi við greiðslureglu umhverfisréttar og tilskipunina kveðið á um að rekstraraðili, sem ábyrgð ber samkvæmt lögunum, skuli greiða kostnað af ráðstöfunum til að koma í veg fyrir umhverfistjón eða bæta úr slíku tjóni og greiða auk þess gjald vegna málsmeðferðar stjórnvalds sem samkvæmt frumvarpinu er Umhverfisstofnun.
    Sú atvinnustarfsemi hér á landi sem fellur undir ákvæði tilskipunarinnar mun bera fjárhagsábyrgð á því umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni sem hún kann að valda, í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Er slíkri atvinnustarfsemi hins vegar heimilt að kaupa sér tryggingu vegna kostnaðar af því tagi. Ekki er ljóst hver kostnaður við kaup á slíkri tryggingu kemur til með að verða enda er slík trygging ekki fáanleg í dag. Gerðin er einnig fyrirbyggjandi sem mun minnka líkur á að atvinnustarfsemi steypi sér í kostnað vegna tjóns á umhverfinu.
    Í ljósi þeirrar meginreglu frumvarpsins að rekstraraðili skuli bera þann kostnað sem leiðir af ráðstöfunum vegna umhverfistjóns eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni, er almennt ekki gert ráð fyrir teljandi kostnaði af hálfu hins opinbera. Sá fyrirvari er þó gerður að endanlegt kostnaðarmat liggur ekki fyrir vegna frumvarpsins.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 17/2009

frá 5. febrúar 2009

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)             XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2008 frá 7. nóvember 2008 ( 1 ).

2)             Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB frá 21. apríl 2004 um umhverfisábyrgð í því skyni að koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ráða bót á þeim ( 2 ).

3)             Ákvæði tilskipunar 2004/35/EB skal lesa í samræmi við gildissvið samningsins, að teknu sérstöku tilliti til þess að náttúruvernd fellur ekki undir samninginn.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 1h (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 166/2006) í XX. viðauka við samninginn:

„1i.          32004 L 0035: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB frá 21. apríl 2004 um umhverfisábyrgð í því skyni að koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ráða bót á þeim (Stjtíð. ESB L 143, 30.4.2004, bls. 56).

            Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

            a)    Með fyrirvara um síðari umfjöllun sameiginlegu EES-nefndarinnar ber að hafa í huga að eftirtaldar bandalagsgerðir hafa ekki verið felldar inn í EES-samninginn:

                    i)        Tilskipun ráðsins 79/409/EBE frá 2. apríl 1979 um verndun villtra fugla (fuglatilskipunin).

                    ii)    Tilskipun ráðsins 92/43/EBE frá 21. maí 1992 um vernd náttúrulegra búsvæða og villtra plantna og dýra (búsvæðatilskipunin).

                    Um allar tilvísanir til þessara gerða gildir því að þær varða ekki EFTA-ríkin.

            b)    Ákvæði 3. mgr. 2. gr. gilda ekki að því er varðar EFTA-ríkin.

            c)    Að því er EFTA-ríkin varðar er merking hugtaksins „verndaðar tegundir og náttúruleg búsvæði“ sem hér segir:

            Eftir ákvörðun EFTA-ríkis hvert það búsvæði eða tegund eða flokkur búsvæða eða tegunda sem EFTA-ríkið tiltekur í samsvarandi tilgangi og mælt er fyrir um í tilskipununum tveimur sem um getur í 3. mgr. 2. gr.“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2004/35/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 6. febrúar 2009 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.


Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2004/35/EB
frá 21. apríl 2004
um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ), á grundvelli sameiginlegs texta sem sáttanefndin samþykkti 10. mars 2004,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í Bandalaginu eru nú margir mengaðir staðir og hefur það í för með sér verulega heilbrigðisáhættu, og líffræðilegri fjölbreytni hefur hnignað æ hraðar á síðustu áratugum. Verði ekki brugðist við getur það valdið því að menguðum stöðum fjölgi og að líffræðileg fjölbreytni skerðist enn frekar í framtíðinni. Ráðstafanir til að koma í veg fyrir umhverfistjón og ráða, eftir því sem unnt er, bót á því stuðlar að framkvæmd markmiða og meginreglna í umhverfisstefnu Bandalagsins eins og þau eru sett fram í sáttmálanum. Taka ber tillit til staðbundinna aðstæðna þegar ákveðið er hvernig ráða skuli bót á tjóni.
2)          Ráðstafanir til að koma í veg fyrir og ráða bót á umhverfistjóni skulu framkvæmdar á grundvelli mengunarbótareglunnar eins og tilgreint er í sáttmálanum og samkvæmt meginreglunni um sjálfbæra þróun. Til að hvetja rekstraraðila til að samþykkja ráðstafanir og þróa starfsvenjur, í því skyni að lágmarka hættuna á umhverfistjóni og minnka þar með líkurnar á eigin bótaábyrgð, skal grundvallarreglan í þessari tilskipun því vera sú að rekstraraðili, sem hefur með höndum starfsemi, sem hefur valdið umhverfistjóninu eða yfirvofandi áhættu á því að slíkt tjón verði, skuli teljast fjárhagslega ábyrgur.
3)          Þar eð aðildarríkin geta ekki náð markmiðinu með þessari tilskipun, þ.e. því að koma á sameiginlegum ramma til að koma í veg fyrir umhverfistjón og ráða bót á þeim þannig að kostnaðurinn verði sanngjarn fyrir samfélagið, og markmiðinu verður frekar náð á vettvangi Bandalagsins vegna umfangs þessarar tilskipunar og áhrifa hennar á aðra löggjöf Bandalagsins, þ.e. tilskipun ráðsins 79/409/EBE frá 2. apríl 1979 um verndun villtra fugla ( 4 ), tilskipun ráðsins 92/43/EBE frá 21. maí 1992 um vernd náttúrlegra búsvæða og villtra plantna og dýra ( 1 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma Bandalagsins um stefnu í vatnsmálum ( 2 ), getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna sem sett er fram í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og fram kemur í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi því markmiði.
4)          Til umhverfistjóns telst einnig tjón af völdum loftborinna þátta ef þeir valda tjóni á vatni eða á landi eða á tegundum lífvera eða náttúrulegum búsvæðum sem njóta verndar.
5)          Lykilhugtök fyrir rétta túlkun og beitingu áætlunarinnar, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, skulu skilgreind, einkum að því er varðar skilgreininguna á umhverfistjóni. Ef viðkomandi hugtak kemur fram í annarri viðeigandi löggjöf Bandalagsins skal nota sömu skilgreiningu til að unnt sé að nota sameiginlegar viðmiðanir og stuðla að samræmdri beitingu.
6)          Verndaðar tegundir lífvera og vernduð, náttúruleg búsvæði má einnig skilgreina með vísun til tegunda og búsvæða sem njóta verndar í samræmi við landslög um náttúruvernd. Engu að síður skal taka tillit til sérstakra aðstæðna þegar lög Bandalagsins, eða jafngild landslög, heimila tilteknar undanþágur frá þeirri vernd sem umhverfið nýtur.
7)          Í því skyni að meta tjón á landi, eins og það er skilgreint í þessari tilskipun, er æskilegt að notaðar verði verklagsreglur áhættumats til að ákvarða að hvaða marki heilbrigði manna verður fyrir skaðlegum áhrifum.
8)          Þessi tilskipun gildir, að því er umhverfistjón varðar, um atvinnustarfsemi sem hefur í för með sér áhættu fyrir heilbrigði manna eða umhverfið. Þessi starfsemi skal í grundvallaratriðum skilgreind með vísun til viðeigandi löggjafar Bandalagsins þar sem kveðið er á um kröfur samkvæmt reglum sem eiga við um tiltekna starfsemi eða starfsvenjur sem teljast hafa í för með sér hugsanlega eða raunverulega áhættu fyrir heilbrigði manna eða umhverfið.
9)          Þessi tilskipun gildir einnig, að því er varðar tjón á tegundum lífvera og náttúrulegum búsvæðum sem njóta verndar, um aðra atvinnustarfsemi en þá sem þegar hefur verið skilgreind, beint eða óbeint, með vísun til löggjafar Bandalagsins, svo að hún hafi í för með sér raunverulega eða hugsanlega áhættu fyrir heilbrigði manna eða umhverfið. Í slíkum tilvikum skal rekstraraðilinn aðeins teljast ábyrgur samkvæmt þessari tilskipun þegar honum hafa orðið á mistök eða hann sýnir gáleysi.
10)          Taka skal skýlaust tillit til sáttmála Kjarnorkubandalags Evrópu og viðeigandi alþjóðasamninga, auk löggjafar Bandalagsins, þar sem finna má ítarlegri og strangari reglur um hvers kyns starfsemi sem fellur undir gildissvið þessarar tilskipunar. Í þessari tilskipun er ekki kveðið á um viðbótarreglur varðandi lagaskil þegar valdsvið lögbærra yfirvalda er tilgreint og hún hefur ekki áhrif á reglur um alþjóðalögsögu dómstóla eins og kveðið er á um m.a. í reglugerð ráðsins (EB) nr. 44/2001 frá 22. desember 2000 um dómsvald og viðurkenningu á og fullnustu dóma í einkamálum og viðskiptamálum ( 3 ). Þessi tilskipun gildir ekki um starfsemi þar sem megintilgangurinn er að þjóna landvörnum eða alþjóðaöryggi.
11)          Markmiðið með þessari tilskipun er að koma í veg fyrir umhverfistjón og ráða bót á því og hún hefur ekki áhrif á rétt til bóta vegna hefðbundins tjóns sem veittar eru samkvæmt viðeigandi alþjóðasamningum um einkaréttarlega ábyrgð.
12)          Mörg aðildarríki eru aðilar að alþjóðasamningum um einkaréttarábyrgð á tilteknum sviðum. Gera ber þessum aðildarríkjum kleift að halda því áfram eftir að þessi tilskipun öðlast gildi og önnur aðildarríki skulu ekki glata rétti sínum til að gerast aðilar að þessum samningum.
13)          Ekki er unnt að ráða bót á öllu umhverfistjóni á grundvelli kerfisins um bótaábyrgð. Til að slíkt kerfi sé skilvirkt þurfa að vera fyrir hendi einn eða fleiri sanngreinanlegir mengunarvaldar, tjónið þarf að vera áþreifanlegt og mælanlegt og orsakatengsl milli tjónsins og mengunarvaldsins eða -valdanna skulu vera ljós. Bótaábyrgð er því ekki heppilegt tæki til þess að fást við víðtæka, dreifða mengun ef ekki er unnt að tengja skaðlegu umhverfisáhrifin við aðgerðir eða aðgerðarleysi einstakra aðila.
14)          Þessi tilskipun gildir ekki í málum sem varða líkamstjón, tjón á einkaeigum eða hvers kyns efnahagslegt tjón og hefur ekki áhrif á rétt í tengslum við þær tegundir tjóna.
15)          Þar eð varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess stuðla beinlínis að framgangi umhverfisstefnu Bandalagsins skulu opinber yfirvöld tryggja að áætlunin, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, sé framkvæmd og henni beitt á viðeigandi hátt.
16)          Endurheimt umhverfisins skal vera skilvirk þannig að tryggt verði að viðkomandi markmið með endurheimtinni náist. Skilgreina skal sameiginlegan ramma í þessu skyni og lögbært yfirvald skal hafa eftirlit með því að honum sé beitt á réttan hátt.
17)          Gera skal viðeigandi ráðstafanir þegar upp koma nokkur tilvik umhverfistjóna þar sem lögbært yfirvald getur ekki tryggt að allar nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta séu gerðar samtímis. Þegar um slíkt er að ræða er lögbæru yfirvaldi heimilt að ákveða gegn hvaða umhverfistjóni skuli brugðist við fyrst til úrbóta.
18)          Samkvæmt mengunarbótareglunni ber rekstraraðili, sem veldur umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni, að jafnaði kostnaðinn við nauðsynlegar ráðstafanir til varnar eða úrbóta. Ef lögbært yfirvald sér um framkvæmdir í stað rekstraraðila, annaðhvort sjálft eða með tilstyrk þriðja aðila, skal það tryggja að kostnaðurinn, sem fellur til við þær, sé endurheimtur frá rekstraraðilanum. Einnig er rétt að rekstraraðilar beri að lokum kostnað við mat á umhverfistjóni og, eftir atvikum, mat á yfirvofandi hættu á slíku tjóni.
19)          Aðildarríkjum er heimilt að kveða á um fastan útreikning á kostnaði við umsýslu, lögfræðikostnaði, kostnaði við framkvæmd og öðrum almennum kostnaði sem ætlunin er að endurheimta.
20)          Ekki skal gerð krafa um að rekstraraðili beri kostnað við ráðstafanir til varnar eða úrbóta, sem gerðar eru samkvæmt þessari tilskipun, ef tjónið eða yfirvofandi hætta á tjóni er afleiðing tiltekinna atburða sem rekstraraðilinn fær ekki við ráðið. Aðildarríki geta heimilað að rekstraraðilar, sem ekki hefur orðið á mistök eða ekki hafa sýnt gáleysi, beri ekki kostnað af ráðstöfunum til úrbóta þegar tjónið verður rakið til losunar eða atburða, sem sérstök heimild er fyrir, eða þegar hugsanlegt tjón getur ekki hafa verið fyrirsjáanlegt þegar atburðurinn eða losunin átti sér stað.
21)          Rekstraraðilar skulu bera kostnað af varnarráðstöfunum ef til þeirra hefði skilyrðislaust átt að grípa í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli sem fela í sér ákvæði um starfsemi þeirra eða skilyrði vegna hvers kyns leyfis eða samþykkis.
22)          Aðildarríkin geta sett eigin reglur um kostnaðarskiptingu þegar tjónið má rekja til margra aðila. Einkum geta aðildarríkin tekið tillit til sérstakra aðstæðna notenda vara, sem e.t.v. bera ekki ábyrgð á umhverfistjóninu á sama hátt og framleiðendur varanna. Í þeim tilvikum skal skipting bótaábyrgðar ákveðin í samræmi við landslög.
23)          Lögbærum yfirvöldum skal vera heimilt að endurheimta kostnað vegna ráðstafana við varnir eða úrbætur hjá rekstraraðila innan hæfilega langs tíma frá því að lokið var við ráðstafanirnar.
24)          Nauðsynlegt er að tryggja að fyrir liggi skilvirkar aðferðir til framkvæmdar og fullnustu en gæta jafnframt á fullnægjandi hátt að lögmætum hagsmunum viðkomandi rekstraraðila og annarra hagsmunaaðila. Lögbær yfirvöld skulu bera ábyrgð á sérstökum verkefnum sem fela í sér að stjórnsýslan hafi sjálfdæmi um meðferð þeirra, þ.e. skyldu til að meta hversu mikið tjónið er og ákveða hvaða ráðstafanir til úrbóta skuli gerðar.
25)          Aðilar sem verða fyrir skaða vegna umhverfistjóns eða eru líklegir til að verða fyrir skaða af þeim sökum skulu hafa rétt til að fara fram á aðgerðir af hálfu lögbærs yfirvalds. Hagsmunir varðandi umhverfisvernd eru þó margháttaðir og einstaklingar munu ekki ætíð grípa til aðgerða eða vera í aðstöðu til þess. Frjálsum félagasamtökum, sem vinna að umhverfisvernd, skal því einnig veitt tækifæri til að stuðla á viðeigandi hátt að skilvirkri framkvæmd þessarar tilskipunar.
26)          Þeir einstaklingar eða lögaðilar, sem hlut eiga að máli, skulu hafa aðgang að málsmeðferð til að áfrýja ákvörðunum, aðgerðum eða aðgerðaleysi lögbærs yfirvalds.
27)          Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir sem hvetja rekstraraðila til að nýta sér hvers kyns viðeigandi vátryggingar eða annars konar fjárhagslegar tryggingar og til að þróa gerninga og markaði fyrir fjárhagslegar tryggingar og bjóða þannig árangursríka vernd vegna fjárskuldbindinga samkvæmt þessari tilskipun.
28)          Ef umhverfistjón hefur eða mun að líkindum hafa áhrif á mörg aðildarríki skulu þau vinna saman að því að tryggja að gripið verði til viðeigandi og skilvirkra aðgerða til að koma í veg fyrir hvers kyns umhverfistjón. Aðildarríki geta gert ráðstafanir til að endurheimta kostnað við aðgerðir til varnar eða úrbóta.
29)          Þessi tilskipun kemur ekki í veg fyrir að aðildarríkin viðhaldi eða leiði í lög strangari ákvæði til að koma í veg fyrir umhverfistjón eða ráða bót á því, né heldur kemur hún í veg fyrir að aðildarríkin samþykki viðeigandi ráðstafanir í tengslum við það þegar hætta er á að kostnaður verði endurheimtur í tvígang vegna samhliða aðgerða lögbærs yfirvalds samkvæmt þessari tilskipun og aðila sem á eign sem umhverfistjónið hefur áhrif á.
30)          Ákvæði þessarar tilskipunar gilda ekki um tjón sem á sér stað áður en fresturinn, sem veittur er til að hrinda henni í framkvæmd, rennur út.
31)          Aðildarríkin skulu gefa framkvæmdastjórninni skýrslu um reynsluna af beitingu þessarar tilskipunar þannig að framkvæmdastjórnin geti, með hliðsjón af áhrifum á sjálfbæra þróun og áhættu fyrir umhverfið í framtíðinni, fjallað um það hvort rétt sé að endurskoða tilskipunina.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Viðfangsefni

Markmiðið með þessari tilskipun er að setja ramma um umhverfisábyrgð, sem byggð er á mengunarbótareglunni, til að koma í veg fyrir umhverfistjón og ráða bót á því.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „umhverfistjón“:
    a)    tjón á tegundum lífvera og náttúrulegum búsvæðum, sem njóta verndar, þ.e. hvers kyns tjón sem hefur veruleg neikvæð áhrif á það markmið að ná eða viðhalda góðri verndarstöðu slíkra búsvæða eða tegunda. Mikilvægi slíkra áhrifa skulu metin með hliðsjón af grunnástandinu, að teknu tilliti til viðmiðananna í I. viðauka.
        Til tjóns á tegundum og náttúrulegum búsvæðum, sem njóta verndar, teljast ekki áður tilgreind, skaðleg áhrif af völdum aðgerða rekstraraðila, sem viðeigandi yfirvöld hafa skýlaust leyft í samræmi við ákvæði til framkvæmdar 3. og 4. mgr. 6. gr. eða 16. gr. tilskipunar 92/43/EBE eða 9. gr. tilskipunar 79/409/EBE eða, í þeim tilvikum þar sem búsvæði eða tegundir lífvera falla ekki undir lög Bandalagsins, í samræmi við jafngild ákvæði landslaga um náttúruvernd,
    b)    tjón á vatni, þ.e. hvers kyns tjón sem hefur veruleg, skaðleg áhrif á vistfræðilegt ástand, efnafræðilegt ástand og/eða magnstöðu vatns og/eða vistmegin (ecological potential) þess, eins og skilgreint er í tilskipun 2000/60/EB, að frátöldum skaðlegum áhrifum sem falla undir 7. mgr. 4. gr. þeirrar tilskipunar,
    c)     tjón á landi, þ.e. hvers kyns landmengun sem hefur í för með sér verulega hættu á skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna vegna tilkomu efna, efnablandna, lífvera eða örvera beint eða óbeint í eða á land eða undir yfirborð þess,
2.    „tjón“: mælanleg, skaðleg breyting á náttúruauðlind eða mælanleg, bein eða óbein skerðing á nýtingarmöguleikum hennar,
3.    „tegundir og náttúruleg búsvæði sem njóta verndar“:
    a)    tegundir lífvera sem um getur í 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 79/409/EBE eða eru tilgreindar í I. viðauka við hana eða í II. og IV. viðauka við tilskipun 92/43/EBE,
    b)    búsvæði tegunda sem um getur í 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 79/409/EBE eða eru tilgreind í I. viðauka við hana eða í II. viðauka við tilskipun 92/43/EBE og þau náttúrulegu búsvæði sem eru tilgreind í I. viðauka við tilskipun 92/43/EBE, auk uppeldisstöðva eða viðkomustaða tegundanna sem eru tilgreindar í IV. viðauka við tilskipun 92/43/EBE og
    c)    búsvæði eða tegund, taki aðildarríki ákvörðun þar að lútandi, sem ekki er tilgreind í þessum viðaukum og aðildarríkin hafa tilnefnt til að falla markmið sem eru jafngild þeim sem mælt er fyrir um í þessum tveimur tilskipunum,
4.    „verndarstaða“:
    a)    að því er varðar náttúrulegt búsvæði: heildaráhrif á náttúrulegt búsvæði og þær tegundir, sem eru dæmigerðar fyrir það, sem geta til langs tíma verkað á náttúrulega útbreiðslu, gerð og hlutverk þess og einnig, eftir því sem við á, á langtímalifun dæmigerðra tegunda á evrópsku yfirráðasvæði þeirra aðildarríkja sem sáttmálinn tekur til eða á yfirráðasvæði aðildarríkis eða á náttúrulegu útbreiðslusvæði búsvæðisins.
        Verndarstaða náttúrulegs búsvæðis telst „góð“ þegar:
        –    náttúrulegt útbreiðslusvæði búsvæðisins og þau svæði, sem það nær yfir, eru stöðug eða stækkandi,
        –    sérstök formgerð og starfsemi, sem eru nauðsynleg til viðhalds búsvæðinu til lengdar, eru fyrir hendi og líklegt er að svo verði um fyrirsjáanlega framtíð og
        –    verndarstaða tegundanna, sem eru dæmigerðar fyrir búsvæðið, er góð samkvæmt skilgreiningunni í b-lið,
    b)    að því er varðar tegund: heildaráhrif á viðkomandi tegund, sem geta verkað á langtímaútbreiðslu og stærð stofna hennar á, eftir því sem við á, evrópsku yfirráðasvæði þeirra aðildarríkja sem sáttmálinn tekur til eða á yfirráðasvæði aðildarríkis eða í náttúrulegum heimkynnum tegundarinnar.
        Verndarstaða tegundar telst „góð“ þegar:
        –    gögn um stofnstærð viðkomandi tegundar gefa til kynna að hún haldi sér við til lengri tíma litið og að hún sé lífvænlegur þáttur á náttúrulegu búsvæðum hennar,
        –    náttúruleg heimkynni tegundarinnar fer ekki minnkandi og ólíklegt er að þau minnki í fyrirsjáanlegri framtíð og
        –    búsvæðið er nægilega stórt til að viðhald stofna hennar er tryggt til langs tíma og líklegt er að svo verði áfram,
5.    „vatn“: allt vatn sem fellur undir tilskipun 2000/60/EB,
6.    „rekstraraðili“: einstaklingur eða lögaðili, einkaaðili eða opinber aðili, sem stundar atvinnustarfsemina eða stýrir henni eða, ef kveðið er á um slíkt í landslögum, hefur fengið í hendur fjárhagslegt ákvörðunarvald yfir tæknilegum rekstri starfseminnar, þ.m.t. handhafi leyfis eða samþykkis fyrir slíkri starfsemi eða sá aðili sem skráir eða tilkynnir slíka starfsemi,
7.    „atvinnustarfsemi“: hvers kyns starfsemi sem stunduð er í tengslum við hagræna starfsemi, fyrirtæki eða félag, án tillits til þess hvort slík starfsemi er á vegum einkaaðila eða hins opinbera og hvort hún er rekin í hagnaðarskyni eða ekki,
8.    „losun“: slepping efna, efnablandna, lífvera eða örvera út í umhverfið sem hlýst af umsvifum manna,
9.    „yfirvofandi hætta á tjóni“: ástand sem einkennist af því að nægar líkur eru á því að umhverfistjón muni eiga sér stað í náinni framtíð,
10.    „varnarráðstafanir“: hvers kyns ráðstafanir sem eru gerðar vegna atburðar, aðgerðar eða vanrækslu, sem leiðir til yfirvofandi hættu á umhverfistjóni, í því skyni að koma í veg fyrir eða lágmarka slíkt tjón,
11.    „ráðstafanir til úrbóta“: hvers kyns aðgerðir eða samsetning aðgerða, þ.m.t. mildandi ráðstafanir eða bráðabirgðaráðstafanir til að endurheimta, endurskapa eða endurnýja náttúruauðlindir sem hafa orðið fyrir tjóni og/eða skertar nytjar þeirra eða útvega annan kost sem er jafngildur þessum auðlindum eða nytjum, eins og mælt er fyrir um í II. viðauka,
12.    „náttúruauðlind“: tegundir lífvera og náttúruleg búsvæði sem njóta verndar, vatn og land,
13.    „nytjar“      og „nytjar náttúruauðlinda“: þættir sem náttúruauðlind býr yfir og nýtast annarri náttúruauðlind eða verða til hagsbóta fyrir almenning,
14.    „grunnástand“:     ástandið eins og það var þegar náttúruauðlindirnar og nytjarnar urðu fyrir tjóni og eins og það hefði verið ef umhverfistjónið hefði ekki átt sér stað, metið á grundvelli bestu, fáanlegu upplýsinga,
15.    „endurheimt“, þ.m.t. „náttúruleg endurheimt“: það að koma náttúruauðlindum sem hafa orðið fyrir tjóni og/eða skertum nytjum, ef um er ræða vatn og tegundir lífvera og náttúruleg búsvæði, sem njóta verndar, aftur í grunnástand og koma í veg fyrir verulega hættu, ef um er að ræða tjón á landi, á skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna,
16.    „kostnaður“: útgjöld, sem eru réttlætanleg ef tryggja þarf rétta og skilvirka framkvæmd þessarar tilskipunar, þ.m.t. kostnaður við mat á umhverfistjóni, yfirvofandi hættu á slíku tjóni og aðra kosti sem eru fyrir hendi til aðgerða, auk kostnaðar við umsýslu, lögfræðikostnaðar og kostnaðar við framkvæmd, kostnaðar við öflun gagna og annars almenns kostnaðar, ásamt kostnaði við vöktun og eftirlit.

3. gr.
Gildissvið

1.     Þessi tilskipun gildir um:
a)    umhverfistjón af völdum einhverrar þeirrar atvinnustarfsemi sem tilgreind er í III. viðauka og hvers kyns yfirvofandi hættu á slíku tjóni vegna slíkrar starfsemi,
b)    tjón á tegundum lífvera og náttúrulegum búsvæðum, sem njóta verndar, af völdum annarrar atvinnustarfsemi en þeirrar sem er tilgreind í III. viðauka og um hvers kyns yfirvofandi hættu á slíku tjóni af völdum þeirrar starfsemi þegar rekstraraðila hefur orðið á mistök eða hann hefur sýnt gáleysi.
2.     Þessi tilskipun gildir með fyrirvara um strangari löggjöf Bandalagsins sem reglufestir hverja þá starfsemi sem fellur undir gildissvið þessarar tilskipunar og með fyrirvara um löggjöf Bandalagsins með reglum varðandi ágreining um lögsögu.
3.     Með fyrirvara um viðeigandi landslöggjöf veitir þessi tilskipun einkaaðilum ekki rétt til bóta vegna umhverfistjóns eða yfirvofandi hættu á því.

4. gr.
Undantekningar

1.     Undir þessa tilskipun falla ekki umhverfistjón eða yfirvofandi hætta á slíku tjóni vegna:
a)    vopnaðra átaka, hernaðarátaka, borgarastyrjaldar eða uppreisnar,
b)    óvenjulegs, óhjákvæmilegs og óviðráðanlegs náttúruviðburðar.
2.     Þessi tilskipun gildir ekki um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á því vegna atburðar þegar bótaábyrgð eða bætur falla undir gildissvið einhvers þeirra alþjóðasamninga sem eru tilgreindir í IV. viðauka, þ.m.t. síðari breytingar, og eru í gildi í viðkomandi aðildarríki.
3.     Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á rétt rekstraraðila til að takmarka bótaábyrgð sína í samræmi við landslög til framkvæmdar samningi um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum (LLMC) frá 1976, þ.m.t. síðari breytingar á samningnum, eða Strassborgarsamningi um takmörkun ábyrgðar á skipgengum vatnaleiðum (CLNI) frá 1988, þ.m.t. síðari breytingar á samningnum.
4.     Þessi tilskipun gildir ekki um áhættu, sem tengist kjarnorku, eða umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni af völdum starfsemi sem fellur undir stofnsáttmála Kjarnorkubandalags Evrópu eða af völdum atburðar eða starfsemi þegar bótaábyrgð eða bætur falla undir gildissvið einhverra af alþjóðlegu gerningunum sem eru tilgreindir í V. viðauka, þ.m.t. síðari breytingar á þeim.
5.     Þessi tilskipun gildir einungis um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á því af völdum dreifðrar mengunar þar sem unnt er að sýna fram á orsakatengsl milli tjónsins og starfsemi einstakra rekstraraðila.
6.     Þessi tilskipun gildir hvorki um starfsemi þar sem meginmarkmiðið er að þjóna landvörnum eða alþjóðaöryggi né heldur um starfsemi þar sem eina markmiðið er að veita vernd gegn náttúruhamförum.

5. gr.
Varnaraðgerðir

1.     Ef umhverfistjón hefur enn ekki orðið en yfirvofandi hætta er á slíku tjóni skal rekstraraðilinn þegar í stað grípa til nauðsynlegra varnarráðstafana.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um að rekstraraðilum beri að gera lögbæru yfirvaldi grein fyrir öllum viðeigandi þáttum ástandsins svo fljótt sem unnt er, eftir því sem við á, og í öllum tilvikum þegar yfirvofandi hættu hefur ekki verið bægt frá þrátt fyrir varnarráðstafanir rekstraraðila.
3.     Lögbært yfirvald getur hvenær sem er:
a)    krafist þess að rekstraraðili veiti upplýsingar um hvers kyns yfirvofandi hættu á umhverfistjóni eða um tilvik þar sem grunur leikur á að um yfirvofandi hættu sé að ræða,
b)    krafist þess að rekstraraðili geri nauðsynlegar, varnarráðstafanir,
c)    gefa rekstraraðilanum fyrirmæli sem honum ber að fylgja þegar nauðsynlegar varnarráðstafanir eru gerðar eða
d)    gert sjálft nauðsynlegar varnarráðstafanir.
4.     Lögbært yfirvald skal krefjast þess að rekstraraðilinn grípi til varnarráðstafana. Lögbært yfirvald getur sjálft gripið til þessara ráðstafana ef rekstraraðilinn uppfyllir ekki þá skyldu, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. eða b-lið eða c-lið 3. mgr., ef ekki er unnt að tilgreina hann eða honum er ekki skylt að bera kostnaðinn samkvæmt þessari tilskipun.

6. gr.
Aðgerðir til úrbóta

1.     Ef umhverfistjón hefur orðið skal rekstraraðilinn án tafar gera lögbæru yfirvaldi grein fyrir öllum viðeigandi þáttum ástandsins og gera:
a)    allar raunhæfar ráðstafanir til að ná þegar í stað tökum á, hemja, fjarlægja eða koma á annan hátt böndum á aðskotaefni, sem skipta máli, og/eða öðrum skaðlegum þáttum í því skyni að takmarka eða koma í veg fyrir frekara umhverfistjón og skaðleg áhrif á heilbrigði manna eða frekari rýrnun á nytjum og
b)    nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta, í samræmi við 7. gr.
2.     Lögbært yfirvald getur hvenær sem er:
a)    krafist þess að rekstraraðilinn leggi fram viðbótarupplýsingar um hvers kyns tjón sem hefur orðið,
b)    gripið til, krafist þess að rekstraraðilinn grípi til eða gefið rekstraraðilanum fyrirmæli um að grípa til raunhæfra ráðstafana til að ná tökum á, hemja, fjarlægja eða meðhöndla á annan hátt aðskotaefni, sem skipta máli, og/eða aðra skaðlega þætti í því skyni að takmarka eða koma í veg fyrir frekara umhverfistjón og skaðleg áhrif á heilbrigði manna eða frekari rýrnun á nytjum,
c)    krafist þess að rekstraraðilinn geri nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta,
d)    gefið rekstraraðilanum fyrirmæli, sem honum ber að fylgja, um nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta eða
e)    gert sjálft nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta.
3.     Lögbært yfirvald skal krefjast þess að rekstraraðilinn geri ráðstafanir til úrbóta. Þegar ekki er annars kostur er lögbæru yfirvaldi heimilt að gera sjálft þessar ráðstafanir ef rekstraraðilinn uppfyllir ekki skyldurnar, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. eða b-, c- eða d-lið 2. mgr., ef ekki er unnt að tilgreina hann eða honum er ekki skylt að bera kostnaðinn samkvæmt þessari tilskipun.

7. gr.
Ákvörðun um ráðstafanir til úrbóta

1.     Rekstraraðilar skulu tilgreina, í samræmi við II. viðauka, hugsanlegar ráðstafanir til úrbóta og leggja þær fram til samþykkis hjá lögbæru yfirvaldi nema lögbæra yfirvaldið hafi gripið til aðgerða skv. e-lið 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 6. gr.
2.     Lögbært yfirvald skal ákveða hvaða ráðstöfunum til úrbóta skal hrundið í framkvæmd í samræmi við II. viðauka og í samvinnu við viðkomandi rekstraraðila, eftir því sem þörf krefur.
3.     Ef fleiri en eitt umhverfistjón hafa orðið þannig að lögbært yfirvald getur ekki tryggt að allar nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta verði gerðar samtímis getur lögbæra yfirvaldið ákveðið gegn hvaða umhverfistjóni skuli brugðist við fyrst til úrbóta.
Við töku þeirrar ákvörðunar skal lögbært yfirvald m.a. taka tillit til eðlis, umfangs og alvarleika hvers umhverfistjóns og hverjar séu líkur á náttúrulegri endurheimt. Einnig skal tekið tillit til áhættu fyrir heilbrigði manna.
4.     Lögbært yfirvald skal hvetja aðilana, sem um getur í 1. mgr. 12. gr., og í öllum tilvikum aðilana, sem eiga landið, þar sem ráðstöfunum til úrbóta verður hrundið í framkvæmd, til að leggja fram athugasemdir sínar og skal taka tillit til þeirra.

8. gr.
Kostnaður við varnir og úrbætur

1.     Rekstraraðilinn skal bera kostnað við aðgerðir til varnar og úrbóta sem eru framkvæmdar samkvæmt þessari tilskipun.
2.     Með fyrirvara um 3. og 4. mgr. skal lögbært yfirvald endurkrefja kostnað, sem það hefur stofnað til í tengslum við aðgerðir til varnar eða úrbóta sem framkvæmdar hafa verið samkvæmt þessari tilskipun, m.a. með tryggingum í formi eigna eða öðrum viðeigandi tryggingum af hálfu rekstraraðilans sem á sök á tjóninu eða yfirvofandi hættu á því. Lögbært yfirvald getur þó ákveðið að endurheimta ekki allan kostnaðinn ef útgjöldin því samfara verða meiri en fjárhæðin, sem unnt er að endurheimta, eða ef ekki er unnt að tilgreina rekstraraðilann.
3.     Rekstraraðila skal ekki vera skylt að bera kostnað við aðgerðir til varnar eða úrbóta samkvæmt þessari tilskipun ef hann getur sýnt fram á að umhverfistjónið eða yfirvofandi hætta á því hafi verið:
a)    af völdum þriðja aðila og orðið þótt viðeigandi öryggisráðstafanir hafi verið gerðar eða
b)    afleiðing þess að lögboðinni skipun eða fyrirmælum frá opinberu yfirvaldi var fylgt, þó ekki ef skipunin eða fyrirmælin voru gefin vegna losunar eða atviks sem starfsemi rekstraraðilans sjálfs olli. Í þeim tilvikum skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að rekstraraðili geti endurheimt kostnaðinn sem hann hefur stofnað til.
4.     Aðildarríkjunum er heimilt að ákveða að rekstraraðilinn beri ekki kostnaðinn við aðgerðir til úrbóta samkvæmt þessari tilskipun ef hann sýnir fram á að honum hafi ekki orðið á mistök eða hann hafi ekki sýnt gáleysi og að umhverfistjónið hafi orðið vegna:
a)    losunar eða atviks sem var sérstaklega heimilað og í fullu samræmi við skilyrði leyfis sem var veitt samkvæmt gildandi landslögum og reglum hvers ríkis fyrir sig til framkvæmdar lagaákvæðum, sem Bandalagið hefur samþykkt og tilgreind eru í III. viðauka, eins og þeim var beitt á þeim degi sem losunin eða atvikið átti sér stað,
b)    losunar eða starfsemi eða hvers kyns notkunar vöru í tengslum við starfsemi, sem rekstraraðilinn sýnir fram á að hafi ekki verið líkleg til að valda umhverfistjóni, samkvæmt þeirri vísinda- og tækniþekkingu sem var aðgengileg þegar losunin átti sér stað eða starfsemin fór fram.
5.     Ráðstafanir, sem lögbært yfirvald gerir í samræmi við 3. og 4. mgr. 5. gr. og 2. og 3. mgr. 6. gr., skulu hvorki hafa áhrif á bótaábyrgð viðkomandi rekstraraðila samkvæmt þessari tilskipun né beitingu 87. og 88. gr. sáttmálans.

9. gr.
Kostnaðarskipting þegar margir aðilar valda tjóni

Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ákvæði reglna í hverju ríki fyrir sig um kostnaðarskiptingu þegar margir aðilar valda tjóni, einkum ekki að því er varðar skiptingu bótaábyrgðar milli framleiðanda og notanda vöru.

10. gr.
Frestur til að endurheimta kostnað

Lögbært yfirvald getur, innan fimm ára frá því að ráðstöfunum er lokið eða frá því að sá rekstraraðili, eða þriðji aðili, sem ber ábyrgðina, hefur verið tilgreindur, hvort heldur er seinna, hafið málsmeðferð, til að endurheimta kostnað vegna hvers kyns ráðstafana sem hafa verið gerðar í samræmi við þessa tilskipun, gegn rekstraraðila, eða, ef við á, þriðja aðila, sem hefur valdið tjóni eða yfirvofandi hættu á tjóni.

11. gr.
Lögbært yfirvald

1.     Aðildarríkin skulu tilnefna lögbært yfirvald eða lögbær yfirvöld sem bera ábyrgð á því að þær skyldur, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, séu uppfylltar.
2.     Lögbært yfirvald skal skera úr um það hvaða rekstraraðili hefur valdið tjóni eða yfirvofandi hættu á tjóni, meta afleiðingar tjónsins og ákvarða hvaða ráðstafanir til úrbóta skuli gerðar með hliðsjón af II. viðauka. Lögbæru yfirvaldi er, í þessu skyni, heimilt að krefjast þess að viðkomandi rekstraraðili vinni eigið mat og leggi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn.
3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að lögbært yfirvald geti falið þriðju aðilum að gera nauðsynlegar ráðstafanir til varnar eða úrbóta eða krafist þess að þeir geri þær.
4.     Greina skal nákvæmlega frá grundvelli þeirra ákvarðana sem eru teknar samkvæmt þessari tilskipun þar sem gerð er krafa um ráðstafanir til varnar og úrbóta. Slík ákvörðun skal þegar í stað tilkynnt hlutaðeigandi rekstraraðila og um leið skal kynna honum þau lagaúrræði sem hann getur nýtt sér samkvæmt gildandi lögum í viðkomandi aðildarríki og þann frest sem hann hefur til þess að nýta sér þau.

12. gr.
Beiðni um aðgerðir

1.     Einstaklingar eða lögaðilar, sem:
a)    verða fyrir áhrifum eða líklegt er að verði fyrir áhrifum af umhverfistjóni,
b)    hafa nægilegra hagsmuna að gæta þegar teknar eru ákvarðanir í umhverfismálum sem varða tjónið eða
c)    staðhæfa að brotið sé á rétti sínum, ef gerð er krafa um slíkt í stjórnsýslulögum aðildarríkis,
skulu eiga rétt á að leggja fram hjá lögbæru yfirvaldi hvers kyns athugasemdir sem varða umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni sem þeim er kunnugt um og þau skulu eiga rétt á að fara þess á leit við lögbært yfirvald að það grípi til aðgerða samkvæmt þessari tilskipun.
Aðildarríkin skulu ákvarða hvað telst vera „nægilegir hagsmunir“ og „brot á rétti“.
Öll frjáls félagasamtök, sem stuðla að umhverfisvernd og uppfylla öll skilyrði landslaga, skulu teljast hafa nægilegra hagsmuna að gæta samkvæmt undirgrein b. Slík félagasamtök skulu einnig teljast eiga rétt sem unnt er að skerða samkvæmt undirgrein c.
2.     Beiðninni um aðgerðir skulu fylgja viðeigandi upplýsingar og gögn til stuðnings athugasemdunum sem lagðar eru fram að því er varðar viðkomandi umhverfistjón.
3.     Ef beiðnin um aðgerðir og meðfylgjandi athugasemdir benda til þess að líklegt sé að umhverfistjón hafi orðið skal lögbæra yfirvaldið taka athugasemdirnar og beiðnirnar um aðgerðir til athugunar. Við þær aðstæður skal lögbært yfirvald veita viðkomandi rekstraraðila tækifæri til að láta í ljós álit sitt að því er varðar beiðnina um aðgerðir og meðfylgjandi athugasemdir.
4.     Svo fljótt sem unnt er og í öllum tilvikum í samræmi við viðeigandi ákvæði landslaga skal lögbært yfirvald tilkynna aðilunum, sem um getur í 1. mgr. og lögðu fram athugasemdir hjá yfirvaldinu, um ákvörðun sína um samþykki eða synjun beiðninnar um aðgerðir og skulu ástæðurnar tilgreindar.
5.     Aðildarríkin geta ákveðið að beita ekki 1. og 4. mgr. í þeim tilvikum þegar um er að ræða yfirvofandi hættu á tjóni.

13. gr.
Reglur um meðferð kæru

1.     Aðilarnir, sem um getur í 1. mgr. 12. gr., skulu hafa aðgang að dómstól eða öðrum óháðum og óhlutdrægum opinberum aðila sem er til þess bær að taka til umfjöllunar formlegt og efnislegt lögmæti ákvarðana lögbærs yfirvalds, aðgerða þess eða aðgerðarleysis, samkvæmt þessari tilskipun.
2.     Þessi tilskipun skal hvorki hafa áhrif á þau ákvæði landslaga sem stýra aðgangi að meðferð fyrir dómstólum né ákvæði þar sem þess er krafist að meðferð kærumála samkvæmt stjórnsýslureglum sé fullreynd áður en málinu er skotið til úrskurðar fyrir dómstólum.

14. gr.
Fjárhagsleg trygging

1.     Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að hvetja til þróunar gerninga og markaða á sviði fjárhagslegra trygginga af hálfu viðeigandi rekstraraðila á sviði efnahagsmála og fjármála, m.a. fjármálakerfa þegar um er að ræða ógjaldfærni, í því skyni að gera rekstraraðilum kleift að nota fjárhagslegar tryggingar til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun.
2.     Framkvæmdastjórnin skal, fyrir 30. apríl 2010, leggja fram skýrslu um árangur af tilskipuninni að því er varðar raunverulegar úrbætur vegna umhverfistjóna, um aðgang að vátryggingum fyrir sanngjarnt verð og skilyrði þar að lútandi og um aðrar tegundir fjárhagslegra trygginga vegna starfseminnar sem fellur undir III. viðauka. Í tengslum við fjárhagslega tryggingu skal skýrslan einnig fjalla um eftirfarandi þætti: stigbundna nálgun, hámarksfjárhæð fjárhagslegu tryggingarinnar og undanþágu fyrir starfsemi þar sem áhætta er lítil. Í ljósi þessarar skýrslu og ítarlegs mats á áhrifum, m.a. með kostnaðar- og ábatagreiningu, skal framkvæmdastjórnin, ef við á, leggja fram tillögur að kerfi fyrir samræmda og lögboðna fjárhagslega tryggingu.

15. gr.
Samstarf aðildarríkja

1.     Ef umhverfistjón hefur áhrif í nokkrum aðildarríkjum eða líklegt er að svo verði skulu viðkomandi aðildarríki vinna saman að því, m.a. með viðeigandi upplýsingaskiptum, að tryggja að gripið verði til varnaraðgerða og, ef nauðsyn krefur, aðgerða til úrbóta vegna slíks umhverfistjóns.
2.     Ef umhverfistjón hefur orðið skal aðildarríkið, sem ræður yfir svæðinu þar sem tjónið varð, veita fullnægjandi upplýsingar þeim aðildarríkjum sem tjónið gæti haft áhrif á.
3.     Ef sannreynt er að tjón hafi orðið innan landamæra aðildarríkis og orsök þess er utan þeirra getur aðildarríkið tilkynnt um málið til framkvæmdastjórnarinnar og annarra aðildarríkja, sem hlut eiga að máli; aðildarríkið getur sett fram tilmæli þess efnis að gerðar verði ráðstafanir til varnar eða úrbóta og freistað þess, í samræmi við þessa tilskipun, að endurheimta kostnaðinn sem það hefur stofnað til í tengslum við framkvæmd ráðstafana til varnar eða úrbóta.

16. gr.
Tengsl við landslög

1.     Þessi tilskipun kemur ekki í veg fyrir að aðildarríkin viðhaldi eða leiði í lög strangari ákvæði til að koma í veg og ráða bót á umhverfistjóni, t.d. með því að tilgreina fleiri tegundir starfsemi sem falli undir varnar- og úrbótakröfurnar í þessari tilskipun og með því að tilgreina fleiri ábyrgðaraðila.
2.     Þessi tilskipun kemur ekki í veg fyrir að aðildarríkin samþykki viðeigandi ráðstafanir, banni t.a.m. að kostnaður verði endurheimtur í tvígang vegna samhliða aðgerða lögbærs yfirvalds samkvæmt þessari tilskipun og aðila sem á eign sem umhverfistjónið hefur haft áhrif á.

17. gr.
Tímabundin beiting

Tilskipun þessi gildir ekki um:
—    tjón af völdum losunar, atburðar eða atviks sem átti sér stað fyrir þann dag sem um getur í 1. mgr. 19. gr.,
—    tjón af völdum losunar, atburðar eða atviks sem á sér stað eftir þann dag sem um getur í 1. mgr. 19. gr., ef rekja má þau til sérstakrar starfsemi sem fór fram og lauk fyrir fyrrnefndan dag,
—    tjón, ef meira en 30 ár eru liðin síðan losunin, atburðurinn eða atvikið, sem olli þeim, átti sér stað.

18. gr.
Skýrslur og endurskoðun

1.     Aðildarríkin skulu gefa framkvæmdastjórninni skýrslu um fengna reynslu af beitingu þessarar tilskipunar eigi síðar en 30. apríl 2013. Í skýrslunni skulu koma fram þær upplýsingar og þau gögn sem sett eru fram í VI. viðauka.
2.     Á þeim grundvelli skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið fyrir 30. apríl 2014 með viðeigandi tillögum um breytingar.
3.     Skýrslan, sem um getur í 2. mgr., skal m.a. ná til endurskoðunar á:
a) beitingu:
    —    2. og 4. mgr. 4. gr. í tengslum við undanþágu frá gildissviði tilskipunarinnar vegna mengunar sem fellur undir alþjóðasamningana sem tilgreindir eru í IV. og V. viðauka og
    —    3. mgr. 4. gr. í tengslum við rétt rekstraraðila til að takmarka bótaábyrgð sína í samræmi við alþjóðasamningana sem um getur í 3. mgr. 4. gr.
    Framkvæmdastjórnin skal taka tillit til fenginnar reynslu á viðeigandi sviðum á alþjóðavettvangi, s.s. á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og Kjarnorkubandalags Evrópu, og reynslu af viðeigandi alþjóðasamningum og til þess að hve miklu leyti þessir gerningar hafa öðlast gildi og/eða aðildarríkin komið þeim til framkvæmda og/eða þeim breytt, með hliðsjón af tilvikum, sem skipta máli og þar sem umhverfistjón hefur orðið vegna slíkrar starfsemi, aðgerðum til að ráða bót á þeim og muninum á vægi bótaskyldu hjá aðildarríkjunum og að teknu tilliti til tengsla bótaábyrgðar skipaeigenda og framlaga viðtakenda olíu, að teknu tilhlýðilegu tilliti til allra viðeigandi rannsókna á vegum Alþjóðasjóðs til að bæta tjón af völdum olíumengunar (International Oil Pollution Compensation Funds – IOPC Fund),
b)    beitingu þessarar tilskipunar vegna umhverfistjóns af völdum erfðabreyttra lífvera, einkum í ljósi fenginnar reynslu af viðeigandi alþjóðasamningum, s.s. samningnum um líffræðilega fjölbreytni og Cartagena-bókuninni um líföryggi, auk afleiðinga hvers kyns umhverfistjóna af völdum erfðabreyttra lífvera,
c)     beitingu þessarar tilskipunar í tengslum við tegundir lífvera og náttúruleg búsvæði sem njóta verndar,
d)    gerningunum sem e.t.v. er unnt að fella inn í III., IV. og V. viðauka.

19. gr.
Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 30. apríl 2007. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum, sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til, og töflu sem sýnir samsvörun milli ákvæða þessarar tilskipunar og ákvæða landslaga sem samþykkt hafa verið.

20. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

21. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 21. apríl 2004.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX D. ROCHE
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI
VIÐMIÐANIR SEM UM GETUR Í A-LIÐ 1. MGR. 2. GR.

Umfang hvers kyns tjóna, sem vinna gegn því markmiði að ná eða viðhalda góðri verndarstöðu búsvæðis eða lífverutegundar, skal metið með skírskotun til verndarstöðunnar, eins og hún var þegar tjónið varð, nytjanna sem til verða vegna afþreyingargildis tegundanna og búsvæðanna og hæfni þeirra til náttúrulegrar endurnýjunar. Nota skal gögn um mælanlega þætti til að ganga úr skugga um hvort um sé að ræða verulegar, skaðlegar breytingar á grunnástandi, m.a. gögn um:
—    fjölda einstaklinga, þéttleika þeirra eða útbreiðslusvæði,
—    hvaða hlutverki viðkomandi einstaklingar eða svæðið sem orðið hefur fyrir tjóni gegna gagnvart lífverutegundinni eða varðveislu búsvæðisins, hversu sjaldgæf tegundin eða búsvæðið er (samkvæmt staðbundnu og svæðisbundnu mati og mati á hærra stigi, þ.m.t. á vettvangi Bandalagsins),
—    fjölgunargetu tegundarinnar (allt eftir þeim stofnfræðilegu eiginleikum sem tegundin eða stofnar hennar búa yfir), lífvænleika hennar eða getu búsvæðisins til náttúrulegrar endurnýjunar (allt eftir þeim stofnfræðilegu eiginleikum sem einkennandi tegundir þess eða stofnar þeirra búa yfir),
—    getu tegundarinnar eða búsvæðisins, eftir að tjón hefur orðið, til þess að endurheimta á skömmum tíma, og án þess að til komi önnur íhlutun en auknar verndarráðstafanir, ástand sem einungis í krafti þeirra stofnfræðilegu eiginleika, sem tegundin eða búsvæðið býr yfir, leiðir til ástands sem álitið er jafngott eða betra en grunnástandið.
Flokka verður tjón sem verulegt tjón ef sannað er að það hafi áhrif á heilbrigði manna.
Ekki þarf að flokka eftirfarandi sem verulegt tjón:
—    neikvæðar sveiflur, sem eru minni en þær náttúrulegu sveiflur, sem teljast eðlilegar fyrir viðkomandi tegund eða búsvæði,
—    neikvæðar sveiflur, sem stafa af náttúrulegum orsökum eða af íhlutun í tengslum við venjubundna stjórnun staða eins og hún er skilgreind í skrám eða markmiðsskjölum fyrir viðkomandi búsvæði eða eins og henni hefur verið háttað hjá fyrri eigendum eða rekstraraðilum,
—    tjón á tegundum eða búsvæðum sem staðfest hefur verið að muni á skömmum tíma og án íhlutunar endurheimta grunnástand sitt eða ástand sem einungis í krafti þeirra stofnfræðilegu eiginleika, sem viðkomandi tegund eða búsvæði býr yfir, leiðir til ástands sem álitið er jafngott eða betra en grunnástandið.

II. VIÐAUKI
ÚRBÆTUR VEGNA UMHVERFISTJÓNS

Í þessum viðauka eru sett fram sameiginleg rammaákvæði sem fylgja ber til að velja heppilegustu ráðstafanirnar til að tryggja úrbætur vegna umhverfistjóns.
1.         Úrbætur vegna tjóns á vatni, tegundum lífvera eða náttúrulegum búsvæðum sem njóta verndar
        Úrbætur vegna umhverfistjóns, sem varða vatn, tegundir eða náttúruleg búsvæði, sem njóta verndar, felast í því að koma umhverfinu aftur í grunnástand sitt með því að gera á því frumúrbætur, fyllingarúrbætur eða jöfununarúrbætur sem eru skilgreindar svo:
        a)    „frumúrbætur“: ráðstafanir til úrbóta sem koma náttúruauðlindunum sem orðið hafa fyrir tjóni og/eða skertu nytjunum aftur í grunnástand sitt eða í átt til þess,
        b)    „fyllingarúrbætur“: ráðstafanir til úrbóta sem gripið er til í tengslum við náttúruauðlindir og/eða nytjar til að bæta það upp að frumúrbæturnar nægja ekki til að koma náttúruauðlindunum sem orðið hafa fyrir tjóni og/eða nytjunum að fullu í fyrra horf,
        c)    „jöfnunarúrbætur“: aðgerðir til að bæta upp tímabundið tap á náttúrulegum auðlindum og/eða nytjum frá því að tjón verður og þar til árangur af frumúrbótum hefur náðst að fullu,
        d)    „tímabundið tap“: tap sem er afleiðing þess að náttúruauðlindir eða nytjar, sem hafa orðið fyrir tjóni, geta ekki gegnt vistfræðilegu hlutverki sínu eða nýst fyrir aðrar náttúruauðlindir eða almenning fyrr en frum- eða fyllingarúrbætur eru að fullu komnar til framkvæmda. Það felur ekki í sér fébætur til almennings.
        Ef ekki næst, með frumúrbótum, að koma umhverfinu aftur í grunnástand sitt skal grípa til fyllingarúrbóta. Auk þess skal gera jöfnunarúrbætur til að bæta upp tímabundið tap.
        Í úrbótum vegna umhverfistjóns, sem varða tjón á vatni, tegundum lífvera eða náttúrulegum búsvæðum, sem njóta verndar, felst einnig að útrýma allri verulegri áhættu á skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna.
1.1.     Markmið með úrbótum
        Tilgangurinn með frumúrbótum
1.1.1.    Tilgangurinn með frumúrbótum er að koma náttúruauðlindunum sem orðið hafa fyrir tjóni og/eða skertu nytjunum aftur í grunnástandið eða í átt til þess.
        Tilgangurinn með fyllingarúrbótum
1.1.2.    Ef ekki er unnt að koma náttúruauðlindunum sem orðið hafa fyrir tjóni og/eða nytjunum í grunnástand sitt er gripið til fyllingarúrbóta. Tilgangurinn með fyllingarúrbótum er að sjá til þess að náttúruauðlindir og/eða nytjar, þ.m.t. ef við á, þær sem eru á öðrum stað séu á svipuðu stigi og verið hefði ef svæðinu, sem orðið hefur fyrir tjóni, hefði verið komið aftur í grunnástand sitt. Ef unnt er og við á skal hinn staðurinn vera í landfræðilegum tengslum við staðinn, sem orðið hefur fyrir tjóni, með hliðsjón af hagsmunum þeirra íbúa sem málið varðar.
        Tilgangurinn með jöfnunarúrbótum
1.1.3.    Gera skal jöfnunarúrbætur til að jafna upp tímabundið tap á náttúruauðlindum og nytjum meðan þess er beðið að þau jafni sig. Í þessum úrbótum felast frekari endurbætur á vernduðum náttúrulegum búsvæðum og tegundum lífvera eða vatni, annaðhvort á staðnum sem orðið hefur fyrir tjóni eða á öðrum stað. Þær fela ekki í sér fébætur til almennings.
1.2.     Ákvörðun um ráðstafanir til úrbóta
        Ákvörðun ráðstafana til frumúrbóta
1.2.1.    Skoða skal þá kosti um aðgerðir sem standa til boða í því skyni að koma náttúruauðlindinni og nytjunum beint í átt að grunnástandi sínu með flýtiferli eða með náttúrulegri endurheimt.
        Ákvörðun ráðstafana til fyllingar- og jöfnunarúrbóta
1.2.2.    Þegar umfang ráðstafana til fyllingar- og jöfnunarúrbóta er ákvarðað skal fyrst skoða notkun aðferða þar sem fundin eru jafngildi með því bera eina auðlind saman við aðra auðlind og einar nytjar saman við aðrar nytjar. Samkvæmt þessum aðferðum skal fyrst vega og meta aðgerðir sem gefa af sér náttúruauðlindir og/eða nytjar sem eru af sömu tegund, gæðum og umfangi og þær sem urðu fyrir tjóni. Verði þessu ekki komið við skal sjá til þess að völ sé á öðrum náttúruauðlindum og/eða nytjum í staðinn. Sem dæmi má nefna að ef gæði skerðast skal vega það upp með því að auka umfang ráðstafana til úrbóta.
1.2.3.    Ef ekki er unnt að nota fyrsta kostinn, sem er jafngildisaðferðin þar sem ein auðlind er borin saman við aðra og einar nytjar við aðrar, skal nota annars konar matsaðferðir í staðinn. Lögbært yfirvald getur fyrirskipað hvaða aðferð skuli notuð til að ákvarða umfang nauðsynlegra ráðstafana til fyllingar- og jöfnunarúrbóta, t.d. fjárhagslegt mat. Ef unnt er að vinna mat á auðlindinni og/eða nytjunum sem glötuðust en ekki er unnt, innan eðlilegra tímamarka eða með eðlilegum kostnaði, að meta auðlindina og/eða nytjarnar, sem koma í staðinn, getur lögbæra yfirvaldið valið ráðstafanir til úrbóta þar sem kostnaðurinn jafngildir áætluðu, fjárhagslegu virði náttúruauðlindarinnar og/eða nytjanna sem glötuðust. Haga skal ráðstöfunum til fyllingar- og jöfnunarúrbóta þannig að þær gefi af sér frekari náttúruauðlindir og/eða nytjar sem endurspegla forgangsröð í tíma og tímasetningu þessara ráðstafana til úrbóta. Sem dæmi má nefna að því lengur sem það tekur að ná grunnástandi því meira verður umfang þeirra ráðstafana til jöfnunarúrbóta sem verða gerðar (að öllu öðru jöfnu).
1.3.     Val á kostum til úrbóta
1.3.1.    Meta skal eðlilega kosti til úrbóta með bestu, fáanlegu tækni og á grundvelli eftirfarandi viðmiðana sem eru:
         —    áhrif hvers kostar á lýðheilsu og almannaöryggi,
         —    kostnaður af því að hrinda viðkomandi kosti í framkvæmd,
         —    líkurnar á að hver kostur fyrir sig skili árangri,
         —    að hve miklu leyti hver kostur muni koma í veg fyrir tjón í framtíðinni og að hve miklu leyti framkvæmd þessa kostar muni koma í veg fyrir frekara tjón,
         —    að hve miklu leyti hver kostur gagnast mismunandi þáttum náttúruauðlindarinnar og/eða nytjanna,
         —    að hve miklu leyti hver kostur tekur mið af félagslegum, efnahagslegum og menningarlegum sjónarmiðum, sem skipta máli, og öðrum þáttum sem skipta máli og eru einkennandi fyrir viðkomandi stað,
        —    hversu langur tími líður þar til úrbæturnar á umhverfistjóninu hafa skilað árangri,
        —    að hve miklu leyti hver kostur dugir til að koma svæðinu, þar sem umhverfistjónið varð, aftur í samt lag,
        —    landfræðileg tengsl við staðinn sem orðið hefur fyrir tjóni.
1.3.2.    Við mat á mismunandi kostum til úrbóta, sem koma til greina, má velja ráðstafanir til frumúrbóta sem koma vatni, tegundum lífvera eða náttúrulegum búsvæðum, sem njóta verndar og hafa orðið fyrir tjóni, ekki að fullu í grunnástand sitt eða eru lengur en ella að ná grunnástandi. Einungis má taka slíka ákvörðun ef náttúruauðlindirnar og/eða nytjarnar, sem fara forgörðum á upprunalega staðnum vegna þessarar ákvörðunar, eru bættar upp með því að auka fyllingar- og jöfnunaraðgerðir þannig að til verði svipaðar náttúruauðlindir og/eða nytjar og þær sem fóru forgörðum. Þetta á t.d. við þegar unnt er að sjá fyrir jafngildum náttúruauðlindum og/eða nytjum annars staðar með minni tilkostnaði. Þessar viðbótarráðstafanir til úrbóta skulu ákveðnar í samræmi við reglurnar sem settar eru fram í lið 1.2.2.
1.3.3.    Þrátt fyrir reglurnar, sem settar eru fram í lið 1.3.2, og í samræmi við 3. mgr. 7. gr. hefur lögbæra yfirvaldið rétt til að ákveða að ekki skuli gera frekari ráðstafanir til úrbóta ef:
        a)    þær ráðstafanir til úrbóta, sem hafa þegar verið gerðar, tryggja að ekki sé lengur fyrir hendi veruleg áhætta á því að heilbrigði manna, vatn eða tegundir lífvera eða náttúruleg búsvæði, sem njóta verndar, verði fyrir skaðlegum áhrifum,
        b)    kostnaðurinn við þær ráðstafanir til úrbóta, sem gera þarf til að ná grunnástandinu eða svipuðu ástandi, væri óhóflegur miðað við ávinninginn af þeim fyrir umhverfið.
2.         Úrbætur vegna tjóns á landi
        Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að lágmarki að þau aðskotaefni, sem um er að ræða, verði fjarlægð, þeim haldið í skefjum, þau verði einangruð eða dregið verði úr þeim svo að mengaða landið, með tilliti til núverandi notkunar þess eða fyrirhugaðrar og samþykktrar notkunar þess á þeim tíma sem tjónið varð, skapi ekki lengur verulega áhættu sem geti haft skaðleg áhrif á heilbrigði manna. Beita skal áhættumati til að meta hvort slík áhætta sé fyrir hendi og taka þar mið af eiginleikum og hlutverki jarðvegsins, tegund og styrk skaðlegu efnanna, efnablandnanna, lífveranna eða örveranna, áhættunni, sem þeim fylgir, og hugsanlegri útbreiðslu þeirra. Notkun landsins skal ákvörðuð út frá reglum um landnotkun eða öðrum viðeigandi reglum sem voru í gildi þegar tjónið varð, ef slíkar reglur eru til.
        Verði breyting á notkun landsins skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir hvers kyns skaðleg áhrif á heilbrigði manna.
        Ef ekki eru til reglur um landnotkun eða aðrar viðeigandi reglur skal notkun þessa tiltekna svæðis ráðast af eðli svæðisins þar sem tjónið varð, að teknu tilliti til væntanlegrar þróunar þess.
        Skoða skal hvort velja skuli þann kost að láta náttúruna um endurheimtarferlið, þ.e.a.s. lausn án mannlegrar íhlutunar í endurheimtarferlinu.

III. VIÐAUKI
STARFSEMI SEM UM GETUR Í 1. MGR. 3. GR.

1.    Rekstur stöðva sem háðar eru leyfi samkvæmt tilskipun ráðsins 96/61/EB frá 24. september 1996 um samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun ( 1 ). Þetta á við um alla starfsemi sem er tilgreind í I. viðauka við tilskipun 96/61/EB, að undanskildum stöðvum eða hlutum stöðva sem eru notuð til rannsókna, þróunar og prófunar á nýjum vörum og ferlum.
2.    Meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. söfnun, flutningur, endurnýting og förgun úrgangs og hættulegs úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim er lokað, sem er háð leyfi eða skráningu samkvæmt tilskipun ráðsins 75/442/EBE frá 15. júlí 1975 um úrgang ( 2 ) og tilskipun ráðsins 91/689/EBE frá 12. desember 1991 um hættulegan úrgang ( 3 ). Þessi starfsemi tekur m.a. til reksturs urðunarstaða samkvæmt tilskipun ráðsins 1999/31/EB frá 26. apríl 1999 um urðun úrgangs ( 4 ) og rekstur brennslustöðva samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/76/EB frá 4. desember 2000 um brennslu úrgangs ( 5 ). Aðildarríkin geta, að því er varðar þessa tilskipun, ákveðið að þessi starfsemi taki ekki til dreifingar í landbúnaði á skólpeðju sem kemur frá hreinsistöðvum fyrir þéttbýlisskólp og hefur verið meðhöndluð svo að hún standist samþykktan staðal.
3.    Öll losun í yfirborðsvatn á landi sem er háð fyrirframleyfi samkvæmt tilskipun ráðsins 76/464/EBE frá 4. maí 1976 um mengun af völdum tiltekinna, hættulegra efna sem losuð eru í vatn í Bandalaginu ( 6 ).
4.    Öll losun efna í grunnvatn sem er háð fyrirframleyfi samkvæmt tilskipun ráðsins 80/68/EBE frá 17. desember 1979 um verndun grunnvatns gegn mengun af völdum tiltekinna hættulegra efna ( 1 ).
5.    Losun eða ídæling mengunarvalda í yfirborðsvatn eða grunnvatn sem er háð leyfi, heimild eða skráningu samkvæmt tilskipun 2000/60/EB.
6.    Vatnstaka og vatnsmiðlun sem er háð fyrirframleyfi samkvæmt tilskipun 2000/60/EB.
7.    Framleiðsla, notkun, geymsla, vinnsla, urðun, losun í umhverfið og flutningur á staðnum á:
    a)    hættulegum efnum eins og þau eru skilgreind í 2. mgr. 2. gr. tilskipunar ráðsins 67/548/EBE frá 27. júní 1967 um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um flokkun, pökkun og merkingu hættulegra efna ( 2 ),
    b)    hættulegum efnum eins og þau eru skilgreind í 2. mgr. 2. gr. tilskipunar ráðsins 1999/45/EB frá 31. maí 1999 um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um flokkun, pökkun og merkingu hættulegra efnablandna ( 3 ),
    c)    plöntuvarnarefnum eins og þau eru skilgreind í 1. mgr. 2. gr. tilskipunar ráðsins 91/414/EBE frá 15. júlí 1991 um markaðssetningu plöntuvarnarefna ( 4 ),
    d)    sæfiefnum eins og þau eru skilgreind í a-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/8/EB frá 16. febrúar 1998 um markaðssetningu sæfiefna ( 5 ).
8.    Flutningar á vegum, járnbrautum og skipgengum vatnaleiðum og á sjó eða í lofti á hættulegum farmi eða mengandi farmi eins og skilgreint er, annaðhvort í viðauka A við tilskipun ráðsins 94/55/EB frá 21. nóvember 1994 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna varðandi flutning á hættulegum farmi á vegum ( 6 ) eða í viðaukanum við tilskipun ráðsins 96/49/EB frá 23. júlí 1996 um samræmingu laga aðildarríkjanna að því er varðar flutninga á hættulegum farmi með járnbrautum ( 7 ) eða eins og skilgreint er í tilskipun ráðsins 93/75/EBE frá 13. september 1993 um lágmarkskröfur fyrir skip sem flytja hættulegar eða mengandi vörur til eða frá höfnum innan Bandalagsins ( 8 ).
9.    Rekstur stöðva sem eru háðar leyfi samkvæmt tilskipun ráðsins 84/360/EBE frá 28. júní 1984 um baráttu gegn loftmengun frá iðjuverum ( 9 ) að því er varðar losun í andrúmsloft á mengunarefnum sem falla undir framangreinda tilskipun.
10.    Afmörkuð notkun, þ.m.t. flutningur, sem nær til erfðabreyttra örvera eins og skilgreint er í tilskipun ráðsins 90/219/EBE frá 23. apríl 1990 um afmarkaða notkun erfðabreyttra örvera ( 10 ).
11.    Slepping út í umhverfið, flutningur og setning erfðabreyttra lífvera á markað samkvæmt skilgreiningu í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB ( 1 ).
12.    Flutningur yfir landamæri á úrgangi innan Evrópusambandsins, til þess og út úr því sem er háður leyfi eða er bannaður í skilningi reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 259/93 frá 1. febrúar 1993 um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og út úr Evrópubandalaginu ( 2 ).

IV. VIÐAUKI
ALÞJÓÐASAMNINGAR SEM UM GETUR Í 2. MGR. 4. GR.

a)    Alþjóðasamningur frá 27. nóvember 1992 um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar.
b)    Alþjóðasamningur frá 27. nóvember 1992 um stofnun alþjóðasjóðs til að bæta tjón af völdum olíumengunar.
c)    Alþjóðasamningur frá 23. mars 2001 um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum eldsneytisolíumengunar.
d)    Alþjóðasamningur frá 3. maí 1996 um bótaskyldu og skaðabætur fyrir tjón í tengslum við flutning hættulegra og skaðvænlegra efna á sjó.
e)    Samningur frá 10. október 1989 um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns í flutningi á hættulegum farmi á vegum og járnbrautum og með skipum á skipgengum vatnaleiðum.

V. VIÐAUKI
ALÞJÓÐASAMNINGAR SEM UM GETUR Í 4. MGR. 4. GR.

a)    Parísarsamningurinn frá 29. júlí 1960 um bótaskyldu þriðja aðila á sviði kjarnorku og viðbótarsamningurinn sem gerður var í Brussel 31. janúar 1963.
b)    Vínarsamningurinn frá 21. maí 1963 um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum kjarnorku.
c)    Samningur frá 12. september 1997 um frekari bætur vegna tjóns af völdum kjarnorku.
d)    Sameiginleg bókun frá 21. september 1988 varðandi beitingu Vínarsamningsins og Parísarsamningsins.
e)    Brusselsamningurinn frá 17. desember 1971 varðandi einkaréttarlega ábyrgð á flutningum sjóleiðis á kjarnakleyfum efnum.

VI. VIÐAUKI
UPPLÝSINGAR OG GÖGN SEM UM GETUR Í 1. MGR. 18. GR.

Í skýrslunum, sem um getur í 1. mgr. 18. gr., skal vera skrá yfir tilvik þar sem umhverfistjón hefur orðið og yfir bótaskyldutilvik samkvæmt þessari tilskipun, ásamt eftirfarandi upplýsingum og gögnum fyrir hvert tilvik:
1.     Tegund umhverfistjónsins, hvenær atvikið átti sér stað og/eða var uppgötvað og hvenær málsmeðferð var hafin samkvæmt þessari tilskipun.
2.     Atvinnuflokkunarnúmer ábyrga eða ábyrgu lögaðilanna ( 1 ).
3.     Hvort aðilar, sem bera skaðabótaábyrgð, eða hæfir aðilar hafi skotið málinu til dómsvalda. (Tilgreina skal tegund krefjanda og niðurstöður málsmeðferðar.)
4.     Árangurinn af úrbótunum.
5.     Dagsetning lykta málsmeðferðar.
Aðildarríkjum er heimilt að bæta öðrum upplýsingum og gögnum í skýrslu sína sem þau telja að komi að gagni við mat á beitingu þessarar tilskipunar, t.d. varðandi:
1.    kostnað sem stofnað er til vegna úrbóta- og varnarráðstafana, eins og skilgreint er í þessari tilskipun:
    —    og aðilar, sem bera skaðabótaábyrgð, greiddu beint, þegar þessar upplýsingar liggja fyrir,
    —    og aðilar, sem bera skaðabótaábyrgð, endurgreiða síðar,
    —    og aðilar, sem bera skaðabótaábyrgð, endurgreiða ekki. (Tilgreina skal ástæðurnar fyrir því að endurgreiðsla fæst ekki.)
2.    Árangur af aðgerðum til að stuðla að þeim fjárhagslegu tryggingagerningum, sem notaðir eru í samræmi við þessa tilskipun, og hrinda þeim í framkvæmd.
3.    Mat á þeim árlega viðbótarumsýslukostnaði opinberrar stjórnsýslu sem hlýst af stofnun og rekstri þeirra stjórnsýslueininga sem eru nauðsynlegar til að hrinda þessari tilskipun í framkvæmd og framfylgja henni.

Yfirlýsing framkvæmdastjórnarinnar um 2. mgr. 14. gr. – Tilskipun um umhverfisábyrgð

Framkvæmdastjórnin tekur mið af 2. mgr. 14. gr. Í samræmi við þá grein mun framkvæmdastjórnin leggja fram skýrslu, að liðnum sex árum frá gildistöku tilskipunarinnar, m.a. um framboð á vátryggingum og annars konar fjárhagslegri tryggingu með sanngjörnum kostnaði og skilyrðum. Skýrslan mun einkum taka mið af þróun markaðsaflanna á viðeigandi vörum til fjárhagslegrar tryggingar að því er varðar þá þætti sem vísað er til. Þar verður einnig skoðuð stigbundin nálgun sem miðast við tegund tjóns og eðli áhættunnar. Framkvæmdastjórnin mun, ef við á, leggja fram tillögur á grundvelli skýrslunnar. Framkvæmdastjórnin mun vinna áhrifamat, sem verður látið ná til efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta, í samræmi við viðeigandi, fyrirliggjandi reglur, einkum samstarfssamninginn milli stofnana um betri lagasetningu og orðsendingu sína um áhrifamat [COM(2002) 276, lokaútgáfa].
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 339, 18.12.2008, bls. 114, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 79, 18.12.2008, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 143, 30.4.2004, bls. 56.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 151 E, 25.6.2002, bls. 132.
Neðanmálsgrein: 5
(2)     Stjtíð. EB C 241, 7.10.2002, bls. 162.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 14. maí 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB), sameiginleg afstaða ráðsins frá 18. September 2003 (Stjtíð. ESB C 277 E, 18.11.2003, bls.10) og afstaða Evrópuþingsins frá 17. desember 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB). Lagaleg ályktun Evrópuþingsins frá 31. mars 2004 og ákvörðun ráðsins frá 30. mars 2004.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. EB L 103, 25.4.1979, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 807/2003 (Stjtíð. ESB L 122, 16.5.2003, bls. 36).
Neðanmálsgrein: 8
(1)    Stjtíð. EB L 206, 22.7.1992, bls. 7. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1882/2003 (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 9
(2)    Stjtíð. EB L 327, 22.12.2000, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með ákvörðun nr. 2455/2001/EB (Stjtíð. EB L 331, 15.12.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 10
(3)    Stjtíð. EB L 12, 16.1.2001, bls. 1. Reglugerðinni var breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1496/2002 (Stjtíð. EB L 225, 22.8.2002, bls. 13).
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 257, 10.10.1996, bls. 26. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003.
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. EB L 194, 25.7.1975, bls. 39. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003.
Neðanmálsgrein: 13
(3)    Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 20. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 94/31/EB (Stjtíð. EB L 168, 2.7.1994, bls. 28).
Neðanmálsgrein: 14
(4)    Stjtíð. EB L 182, 16.7.1999, bls. 1 Tilskipuninni var breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003.
Neðanmálsgrein: 15
(5)    Stjtíð. EB L 332, 28.12.2000, bls. 91.
Neðanmálsgrein: 16
(6)    Stjtíð. EB L 129, 18.5.1976, bls. 23. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2000/60/EB.
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Stjtíð. EB L 20, 26.1.1980, bls. 43. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 91/692/EBE (Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 48).
Neðanmálsgrein: 18
(2)    Stjtíð. EB 196, 16.8.1967, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 807/2003.
Neðanmálsgrein: 19
(3)    Stjtíð. EB L 200, 30.7.1999, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003.
Neðanmálsgrein: 20
(4)    Stjtíð. EB L 230, 19.8.1991, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 806/2003 (Stjtíð. ESB L 122, 16.5.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 21
(5)    Stjtíð. EB L 123, 24.4.1998, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003.
Neðanmálsgrein: 22
(6)    Stjtíð. EB L 319, 12.12.1994, bls. 7. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2003/28/EB (Stjtíð. ESB L 90, 8.4.2003, bls. 45).
Neðanmálsgrein: 23
(7)    Stjtíð. EB L 235, 17.9.1996, bls. 25. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2003/29/EB (Stjtíð. ESB L 90, 8.4.2003, bls. 47).
Neðanmálsgrein: 24
(8)    Stjtíð. EB L 247, 5.10.1993, bls. 19. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/84/EB (Stjtíð. EB L 324, 29.11.2002, bls. 53).
Neðanmálsgrein: 25
(9)    Stjtíð. EB L 188, 16.7.1984, bls. 20. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 91/692/EBE (Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 48).
Neðanmálsgrein: 26
(10)    Stjtíð. EB L 117, 8.5.1990, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003.
Neðanmálsgrein: 27
(1)    Stjtíð. EB L 106, 17.4.2001, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1830/2003 (Stjtíð. ESB L 268, 18.10.2003, bls. 24).
Neðanmálsgrein: 28
(2)    Stjtíð. EB L 30, 6.2.1993, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2557/2001 (Stjtíð. EB L 349, 31.12.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 29
(1)    Nota má kóða atvinnugreinaflokkunar Evrópubandalaganna (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3037/90 frá 9. október 1990 um atvinnugreinaflokkun Evrópubandalagsins (Stjtíð. EB L 293, 24.10.1990, bls.1).