Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 289. máls.

Þingskjal 327  —  289. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88 12. júní 2008,
með síðari breytingum (embætti héraðssaksóknara).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)



1. gr.

    Í stað ártalsins „2012“ í 1. málsl. 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr. og 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VII og í ákvæði til bráðabirgða VIII, sbr. 3. og 4. gr. laga nr. 156/2008 og 1. gr. laga nr. 123/2009, kemur: 2014.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum um meðferð sakamála var gert ráð fyrir að sett skyldi á fót embætti héraðssaksóknara sem yrði nýtt stjórnsýslustig innan ákæruvaldsins. Var gert ráð fyrir að það embætti tæki til starfa 1. janúar 2009 um leið og lögin tækju gildi. Vegna þeirra fjárhagserfiðleika sem við var að glíma í framhaldi af falli bankanna haustið 2008 var ákveðið að fresta gildistöku þeirra ákvæða laganna sem vörðuðu embætti héraðssaksóknara fram til 1. janúar 2010 með það fyrir augum að endurmeta stöðuna að ári liðnu. Vegna áframhaldandi fjárhagserfiðleika og mikils niðurskurðar hjá öllum opinberum stofnunum var enn á ný, með lögum nr. 123/2009, því frestað að setja á fót embætti héraðssaksóknara fram til 1. janúar 2012. Á fjárlögum næsta árs er ekki gert ráð fyrir fé til embættis héraðssaksóknara. Er því í frumvarpi þessu lagt til að enn á ný verði gildistöku þeirra ákvæða er varða stofnun þessa embættis frestað og nú fram til 1. janúar 2014. Ljóst er að taka þarf til skoðunar hvort rétt sé að hætta við að setja á fót embætti héraðssaksóknara. Verði niðurstaðan sú að ekki skuli setja embættið á fót þarf jafnframt að huga að öðrum breytingum sem slíkt hefði í för með sér á fyrirkomulagi ákæruvaldsins. Er gert ráð fyrir því að á þeim tíma sem frestun ákvæðanna tekur til verði þessi atriði tekin til skoðunar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88 12. júní 2008, með síðari breytingum (embætti héraðssaksóknara).

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnun sérstaks embættis héraðssaksóknara verði frestað til 1. janúar 2014. Upphaflega var gert ráð fyrir að embættið tæki til starfa árið 2009 en vegna aðhalds í ríkisútgjöldum í kjölfar hruns bankakerfisins haustið 2008 hefur stofnun embættisins verið frestað tvisvar, fyrst til ársins 2010 og síðar til ársins 2012. Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnun embættisins verði enn frestað og nú til ársins 2014 enda hefur ekki verið gert ráð fyrir fjárheimildum vegna embættisins í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012.
    Lögfesting frumvarpsins mun því ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs frá því sem þegar hefur verið gert ráð fyrir.