Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 66. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 251  —  66. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur
erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands
og starfskjör starfsmanna þeirra, með síðari breytingum
(réttur til launa í veikindum).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur og Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá velferðarráðuneyti. Þá hafa nefndinni borist nokkrar umsagnir um málið en ekki voru gerðar neinar efnislegar athugasemdir við frumvarpið í umsögnum umsagnaraðila.
    Tilurð frumvarps þess sem hér er til umfjöllunar má rekja til dóms EFTA-dómstólsins í máli nr. E-12/10, frá 28. júní 2011. Í dómnum komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ákvæði íslenskra laga um rétt til launa í veikinda- og slysatilvikum sem og um slysatryggingar vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku væru ekki í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB, um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu. Með ákvæðum laga nr. 45/2007 voru starfsmönnum, sem að jafnaði starfa utan Íslands en eru sendir tímabundið hingað til lands til vinnu við veitingu þjónustu, veittur ríkari réttur en kveðið er á um í tilskipuninni. Með frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar að í 2. og 4. mgr. 5. gr. laganna verði kveðið á um rétt fyrrgreindra starfsmanna til kjarasamningsbundinna launa í viðkomandi starfsgrein í réttu hlutfalli við starfshlutfall, í stað þess að kveða á um föst laun annars vegar og dagvinnulaun í þrjá mánuði hins vegar, sem dómstóllinn taldi að væri ríkari réttur en lágmarkslaun sem tilskipunin kveður á um. Þá er til samræmis lögð til breyting á skilgreiningu 5. mgr. og tiltekið hvað teljist til kjarasamningsbundinna launa. Einnig er með frumvarpinu lagt til að 7. gr. laganna falli brott en í henni er nú kveðið á um slysatryggingar vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku útsendra starfsmanna erlendra fyrirtækja hér á landi.
    Fyrir nefndinni kom fram að við vinnslu frumvarpsins höfðu stjórnvöld samráð við aðila vinnumarkaðarins. Voru allir sammála um að tryggja þyrfti sem best réttindi útsendra starfsmanna hér á landi, og því yrðu með frumvarpinu gerðar eins litlar breytingar og mögulegt er með hliðsjón af fyrrgreindum dómi EFTA-dómstólsins. Þannig væri bæði horft til þess að réttindi erlendra starfsmanna hér á landi væru eins góð og hægt er og einnig að ekki yrði grafið undan samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum sem senda starfsmenn hingað til lands tímabundið. Með frumvarpinu er eftir sem áður tryggt að starfsmenn sem hingað koma tímabundið njóti réttar til launa í veikinda- og slysatilvikum en viðmiðuninni er breytt þannig að rétturinn miðist nú við kjarasamningsbundin laun. Nefndin telur að hafa þurfi í huga að það fyrirkomulag sem er við lýði hér á landi, að vinnuveitandi starfsmanns greiði honum laun í veikinda- og slysatilvikum, er ekki við lýði alls staðar í Evrópu. Í þeim ríkjum þar sem réttur til launa í veikinda- og slysatilvikum frá vinnuveitanda er mjög rýr þurfa þeir sem eru frá vinnu í meira en nokkra daga oft að leita fjárhagsaðstoðar í félagslega kerfinu. Farin hefur verið önnur leið hér á landi sem er við haldið með frumvarpinu.
    Þar sem um málið ríkir víðtæk samstaða og ekki hafa komið fram neinar athugasemdir við efni þess telur nefndin rétt að það verði samþykkt óbreytt.
    Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. október 2012.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Árni Þór Sigurðsson.


Einar K. Guðfinnsson.


Unnur Brá Konráðsdóttir.



Eygló Harðardóttir.


Guðmundur Steingrímsson.