Ferill 304. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 630  —  304. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.


Bætur til aldraðra og öryrkja.
    Meiri hluti Alþingis hafnaði breytingartillögu minni hlutans sem lögð var fram við 2. umræðu um að tryggja að aldraðir og öryrkjar fengju sambærilegar launahækkanir frá 1. maí sl. og samið var um við launþega á almenna markaðinum. Eftir að frumvarpinu var vísað að nýju til fjárlaganefndar hefur nefndin fengið til sín gesti frá Öryrkjabandalagi Íslands, Landssambandi eldri borgara, velferðarráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti og farið með þeim yfir þær forsendur frumvarpsins sem tengjast bótaflokkum þessara aðila. Minni hlutinn lýsir yfir vonbrigðum með forgangsröðun meiri hlutans sem telur það greinilega ekki forgangsmál að tryggja stöðu þeirra sem minnst mega sín.
    Komið hefur í ljós að fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur inn í útreikninga sína þá 3% hækkun launa sem féll til í upphafi árs 2015 en tengist ekki þeim kjarasamningum sem gerðir voru á almenna markaðinum í maí sl. Því vantar þessa hækkun inn í bótaflokka aldraðra og öryrkja. Einnig hefur komið í ljós að við útreikningana sleppir fjármála- og efnahagsráðuneytið launaskriði sem hefur orðið og lækkar með þeim hætti kaupmátt eldri borgara og öryrkja.
    Stjórnarliðar felldu við 2. umræðu tillögu minni hluta fjárlaganefndar um að lífeyrir hækki frá 1. maí 2015 eins og áður sagði. Í tillögunni var miðað við samninga sem VR og Flóabandalagið gerði við sína viðsemjendur. Lægstu laun hækka samkvæmt þeim samningum í fjórum skrefum til ársins 2018 í um 300.000 kr. mánaðarlaun. 1. maí 2015 hækkuðu lægstu launin í um 255.000 kr. á mánuði og frá 1. maí 2016 verða þau komin í um 270.000 kr. á mánuði.
    Landssamband eldri borgara miðar við aðra samninga í sínum útreikningi og segir að hækkunin frá 1. maí eigi að vera 14,5% en ekki 10,9% eins og tillaga minni hlutans gengur út frá. Þrátt fyrir það eru þessi lágu laun mun hærri en þau sem öldruðum og öryrkjum er boðið samkvæmt ákvörðunum ríkisstjórnarinnar en samkvæmt henni verður lífeyrir með heimilisuppbót fyrir fólk sem býr eitt um 247.000 kr. á árinu 2016. Bætur einstaklings sem býr með öðrum verða um 213.000 kr. á mánuði.
    Fulltrúar minni hlutans og áheyrnarfulltrúi í nefndinni leggja fram breytingartillögu þar sem lögð eru til 6,7 milljarða kr. framlög til að bæta öldruðum og öryrkjum þær kjaraskerðingar sem þeir verða annars fyrir. Hluti þessarar upphæðar rennur til baka í ríkissjóð í formi skattgreiðslna.
    Ásta Guðrún Helgadóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk álitinu.

Alþingi, 11. desember 2015.


Oddný G. Harðardóttir,
frsm.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Brynhildur Pétursdóttir.