Ferill 792. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1584  —  792. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum (tilvísun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar lýtur að breytingu á á raforkulögum, nr. 65/2003. Þar er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 9. gr. a raforkulaga, svohljóðandi: „Um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fer samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“
    Efnislega felst í þessari breytingu á raforkulögum að sett er tilvísunarregla í lög sem vísar til stefnu stjórnvalda hverju sinni um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Sú stefna er ákveðin í formi þingsályktunar eins og kveðið er á um í 39. gr. a raforkulaga en þar segir: „Ráðherra leggur á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“
    Fyrir atvinnuveganefnd liggur samhliða fyrir tillaga til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, sem lögð er fram í tengslum við tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn) (777. mál). Minni hlutinn bendir á að í lögfræðiáliti Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar, sem fylgdi málinu, er lýst því áliti að verulegur vafi leiki á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA skv. 8. gr. reglugerðar (EB) nr. 713/2009, eins og ráðgert er að taka hana upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, rúmist innan ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Var framangreind afstaða þeirra áréttuð í bréfi til utanríkisráðherra, dags. 10. apríl 2019.
    Minni hlutinn lýsir verulegum áhyggjum af því valdframsali sem í innleiðingu umræddrar reglugerðar geti falist og áhrifum á framtíðarskipan orkumála á Íslandi, þar á meðal á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar eins og nánar er rakið í tilvitnaðri álitsgerð.
    Samkvæmt fyrirliggjandi þingskjölum hyggjast stjórnvöld ná þessu markmiði einkanlega með tveimur aðgerðum, annars vegar með þingsályktunartillögu um breytingu á þingsályktun nr. 26/148 (791. mál) og hins vegar með breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (792. mál), sem vísar í til fyrrnefndrar þingsályktunar.
    Virðist tillögu til breytingar á þingsályktun nr. 26/148 ætlað að fela í sér áskilnað af hálfu Alþingis þess efnis að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annarra landa um sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Í stað þess að tryggja hinn mikilvæga áskilnað um ákvörðunarvald Alþingis í mikilvægu hagsmunamáli almennings með því að mæla beint fyrir um það í lögum að það skuli vera Alþingi sem taki ákvörðun um hvort ráðist sé í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annarra landa er efnisreglan sett í þingsályktun og með lagabreytingunni í máli þessu er vísað til þingsályktunar.
    Minni hlutinn telur þessa lagabreytingu ekki fullnægja því markmiði að tryggja fullt ákvörðunarvald Alþingis um lagningu sæstrengs. Telur minni hlutinn enn fremur að sú aðferð sem hér er viðhöfð við að tryggja mikilvæga almannahagsmuni nái ekki tilgangi sínum ef ætlunin er að tryggja hið yfirlýsta markmið framangreindra tillagna. Ófullnægjandi er að stjórnvöld sem vilja áskilja með skýrum hætti ákvörðunarvald Alþingis um tengingu landsins við raforkukerfi annarra landa um sæstreng skuli gera þann áskilnað í þingsályktun. Þingsályktanir eru viljayfirlýsingar Alþingis sem sæta sérstakri meðferð, þær eru tillögur í ályktunarformi og ræddar við tvær umræður á Alþingi. Þingsályktanir kunna að geyma reglur sem skylda framkvæmdarvaldið til ákveðinna athafna en það mun fátítt að þær geymi bindandi reglur líkt og lög gera. Enda þótt Alþingi samþykki þingsályktanir og þær geymi iðulega bindandi fyrirmæli standa þau ætíð lægra en lög. Meðferð þingsályktana er einfaldari en meðferð lagafrumvarpa. Auk þess á annar aðili löggjafarvaldsins, forseti Íslands, ekki hlut að samþykkt þeirra.
    Minni hlutinn tekur undir tillögu Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefán Más Stefánssonar um að málið verði tekið upp að nýju í sameiginlegu EES-nefndinni á grundvelli 102. gr. EES-samningsins með það fyrir augum að Ísland fái undanþágu meðal annars frá umdeildum reglugerðum (EB) nr. 713/2009 og 714/2009. Sú leið hefði þann kost lögfræðilega umfram þá leið sem valin var að í henni fælist ekki hin lagalega óvissa sem fylgir leiðinni sem farin er af hálfu íslenskra stjórnvalda.
    Telur minni hlutinn það felast í framangreindu lögfræðiáliti umræddra lögfræðinga að EES-samningurinn geri ekki ráð fyrir þeirri aðferð sem stjórnvöld velja heldur þvert á móti mæli samningurinn, sbr. 102. gr. samningsins, fyrir um þá málsmeðferð að slíkir fyrirvarar séu gerðir eða samþykktir í sameiginlegu EES-nefndinni.
    Trauðla verður séð að EES-samningurinn heimili að reglugerðir og eftir atvikum tilskipanir séu innleiddar í landsrétt með lagalegum fyrirvörum. Ekki verður betur séð en að Ísland baki sér þjóðréttarlega skuldbindingu um að innleiða gerðir þriðja orkupakkans í landsrétt, m.a. reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 og 714/2009, í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 7. gr. EES-samningsins, óháð þeim þingmálum sem liggja fyrir háttvirtri atvinnuveganefnd í málinu. Minni hlutinn telur réttast að Alþingi hafni innleiðingu þriðja orkupakkans og skjóti málinu til sáttameðferðar á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Alþingi, 21. maí 2019.

Ólafur Ísleifsson,
frsm.
Jón Þór Þorvaldsson.