Ferill 258. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 278  —  258. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um rafræna birtingu álagningar- og skattskrár.


Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Inga Sæland, Rósa Björk Brynjólfsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að hlutast til um rafræna birtingu árlegar álagningar- og skattskrár sem verði aðgengileg allt árið uns ný skrá er birt. Ráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp þessa efnis á vorþingi 2021.

Greinargerð.

    Þessi þingsályktunartillaga var áður flutt á 147.,148. 149. og á 150. löggjafarþingi (110. mál). Tillagan er nú endurflutt að mestu óbreytt.
    Hér er lagt til að hætt verði að birta álagningar- og skattskrár yfirvalda á pappír eins og gert hefur verið um áratuga skeið en í stað þeirra komi rafræn álagningarskrá sem verði aðgengileg allt árið með skilmálum sem um notkun hennar yrðu settir. Að mati flutningsmanna samræmist þessi skipan, ef hún kemst á, betur en núverandi framkvæmd 98. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þar sem segir að skattskrá skuli vera til sýnis „á hentugum stað“ í tvær vikur eftir að álagningu er lokið. Skattskil eru nú öll orðin rafræn þannig að eðlilegt hlýtur að teljast að birta álagningarskrá með þeim hætti, enda langtum hentugra fyrir bæði skattyfirvöld og notendur álagningarskrárinnar að hafa þennan hátt á með tilliti til þeirrar tækni sem nú er almennt beitt.
    Við meðferð frumvarps sem síðar varð að lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 37/2020, kom fram að við framlagningu álagningarskrár skattaðila geri fjöldi manns sér ferð í afgreiðslur Skattsins um land allt. Taldi efnahags- og viðskiptanefnd mikilvægt að tryggja að embættið gæti uppfyllt lögbundnar skyldur sínar en þó tekið tillit til reglna um takmarkanir á samkomum sem og gætt að almennum sóttvarnasjónarmiðum. Í því ljósi lagði nefndin til að við lög um tekjuskatt bættist nýtt ákvæði til bráðabirgða, sem myndi víkja frá þeirri skyldu ríkisskattstjóra að leggja fram skattskrá fyrir hvert sveitarfélag á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019. Með þessu var vikið til hliðar því aðhaldshlutverki sem felst í birtingu skránna, en til slíkra ráðstafana hefði ekki þurft að grípa hefði rafræn birting verið orðin að veruleika líkt og hér er lagt til.
    Stundum er haft á orði að skattar séu gjaldið fyrir að eiga þess kost að búa í siðmenntuðu samfélagi. Þetta má vissulega til sanns vegar færa sé skattféð nýtt í þágu samfélagsins og til heilla fyrir almenning. Mikið vald felst í heimild til skattlagningar og er það í lýðræðisríkjum einungis hjá kjörnum fulltrúum. Meðferð skattfjár er einnig vandasöm og því bera kjörnir fulltrúar ríka skyldu til að gæta hagsmuna skattgreiðenda með eftirliti með framkvæmdarvaldinu sem ber að ráðstafa skattfé í samræmi við ákvörðun löggjafans.
    Skattheimta er nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að starfrækja velferðarkerfi og stofnanir í þágu almennings. Víðtækt velferðarkerfi og öflugar stofnanir í almannaþjónustu eru meðal einkenna norrænna samfélaga og enn fremur bera Norðurlandabúar meira traust til samfélaga sinna og stofnana en almenningur flestra annarra ríkja. Hið ríkulega félagslega traust Norðurlandabúa birtist m.a. í þeirri afstöðu fólks að telja fyrir fram víst að einstaklingar og stofnanir ræki skyldur sínar og hagi starfsemi sinni á þann hátt sem þeim ber samkvæmt yfirlýstum markmiðum þar um.