Ferill 805. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1240 —  805. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn, nr. 145/2022 og nr. 329/2022 um breytingar á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn,nr. 333/2022 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn og nr. 337/2022 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirfarandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar:
     1.      Ákvörðun nr. 59/2021 frá 5. febrúar 2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2102 frá 26. október 2016 um aðgengi vefsetra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir fartæki.
     2.      Ákvörðun nr. 145/2022 frá 29. apríl 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/879 frá 20. maí 2019 um breytingu á tilskipun 2014/59/ESB að því er varðar tapþol og endurfjármögnunargetu lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og tilskipun 98/26/EB.
     3.      Ákvörðun nr. 329/2022 frá 9. desember 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
                  a.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/2259 frá 15. desember 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 að því er varðar framlengingu á umbreytingarfyrirkomulagi fyrir rekstrarfélög, fjárfestingarfélög og aðila sem veita ráðgjöf um eða selja hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða og sjóða sem ekki eru verðbréfasjóðir.
                  b.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/2261 frá 15. desember 2021 um breytingu á tilskipun 2009/65/EB að því er varðar notkun rekstrarfélaga verðbréfasjóða á lykilupplýsingaskjölum.
     4.      Ákvörðun nr. 333/2022 frá 9. desember 2022 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1724 frá 2. október 2018 um að koma á sameiginlegri stafrænni gátt til að veita aðgang að upplýsingum, málsmeðferðarreglum og aðstoð og þjónustu til lausnar á vandamálum og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012.
     5.      Ákvörðun nr. 337/2022 frá 9. desember 2022 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1808 frá 14. nóvember 2018 um breytingu á tilskipun 2010/13/ESB um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu (tilskipun um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu) í ljósi breytinga á markaðsaðstæðum.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ofangreindum ákvörðununum sameiginlegu EES-nefndarinnar (sbr. fskj. I–XI).

2. Ákvörðun nr. 59/2021 frá 5. febrúar 2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.
    Með ofangreindri ákvörðun er felld inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2102 frá 26. október 2016 um aðgengi vefsetra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir fartæki. Tilskipunin mælir fyrir um samræmdar lágmarksreglur um aðgengi að opinberum vefjum, einkum með tilliti til fatlaðs fólks. Gildissvið hennar er afmarkað við vefi og smáforrit opinberra aðila. Meginreglan er sú að ríkin tryggi að slíkir vefir og forrit séu aðgengileg með því að gera þau skynjanleg, skýr og skiljanleg, nothæf og trygg. Kröfurnar eru sambærilegar og leitast var við að uppfylla með aðgengisstefnu fyrir opinbera vefi sem ríkisstjórn Íslands samþykkti í maí 2012. Samkvæmt tilskipuninni skulu stjórnvöld fylgjast með því að opinberir vefir uppfylli lágmarksaðgengiskröfur og tryggja borgurum rétt til að leita til úrlausnaraðila um hvort þær séu uppfylltar.
    Kostnaður hefur ekki verið metinn nákvæmlega en eins og áður segir er um lágmarkskröfur að ræða sem aðgengisstefnu stjórnvalda frá 2012 er ætlað að uppfylla. Í tilskipuninni eru einnig ákvæði um að slakað sé á kröfum til aðgengis þegar vinna við að uppfylla þær telst vera úr hófi fram. Samkvæmt framangreindu verður að ætla að innleiðing tilskipunarinnar muni ekki hafa í för með sér verulegan viðbótarkostnað miðað við núverandi skipan mála á sviðinu.
    Innleiðing tilskipunarinnar gæti haft áhrif á einhver vefsetur í rekstri opinberra aðila sem ekki enn uppfylla lágmarkskröfur. Einhver kostnaður gæti fallið til vegna uppfærslu þeirra. Heilt á litið er innleiðingin því til þess fallin að auka aðgengi fatlaðra enn frekar frá því sem nú er að vefsvæðum og smáforritum opinberra aðila.
    Upptaka fyrrgreindrar gerðar í EES-samninginn og innleiðing hennar hér á landi kallar á lagabreytingar. Gert er ráð fyrir að tilskipunin verði innleidd með frumvarpi til laga um högun upplýsingatækni í rekstri ríkisins, sem fyrirhugað er að leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Haft var samráð við utanríkismálanefnd um upptöku tilskipunar (ESB) 2016/2102 til samræmis við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Einnig var haft samráð við nefndina í aðdraganda fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem umrædd ákvörðun var tekin og hún kynnt nefndinni sérstaklega. Tilskipunin fékk jafnframt efnislega umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem óskaði eftir minnisblaði frá forsætisráðuneyti og utanríkisráðuneyti um það hvort upptaka á gerðinni gæti falið í sér framsal valdheimilda og þar með tveggja stoða álitaefni auk nánari umfjöllunar um þá staðla sem vísað er til í tilskipuninni. Í minnisblaðinu kemur fram að leitað hafi verið til EFTA-skrifstofunnar sem hafi metið það svo að upptakan feli ekki í sér framsal þar sem valfrjálst sé hvort farið sé eftir stöðlum. Þeir hafi því ekki lagagildi í hefðbundinni merkingu auk þess sem þeir staðlar sem tilskipunin byggist á séu samdir af sjálfstæðum evrópskum staðlasamtökum sem Ísland á fulla aðild að og staðallinn sem vísað er til í gerðinni þegar orðinn íslenskur staðall. Nefndin gerði ekki athugasemdir við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn.

3.     Ákvörðun nr. 145/2022 frá 29. apríl 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
    Með ákvörðun nr. 145/2022 er tekin inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/879 frá 20. maí 2019 um breytingu á tilskipun 2014/59/ESB að því er varðar tapþol og endurfjármögnunargetu lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og tilskipun 98/26/EB.
    Tilskipun (ESB) 2019/879 felur í sér endurskoðun á tilskipun 2014/59/ESB. Í síðarnefndu tilskipuninni er mælt fyrir um viðbrögð og aðgerðir til að takast á við erfiðleika eða áföll í rekstri lánastofnana og, ef við á, tiltekinna verðbréfafyrirtækja. Þannig hefur tilskipunin bæði að geyma fyrirbyggjandi ráðstafanir og undirbúningsaðgerðir vegna rekstrarerfiðleika og heimildir til inngripa í rekstur fyrirtækis og úrræði til að greiða úr stöðu fyrirtækis á fallanda fæti. Markmið tilskipunarinnar er að vernda fjármálastöðugleika, tryggja áframhaldandi nauðsynlega starfsemi fyrirtækis, draga úr hættu á að ráðstafa þurfi fé úr ríkissjóði og vernda tryggðar innstæður, fé og eignir viðskiptamanna.
    Breytingar í tilskipun (ESB) 2019/879 varða meðal annars nýjar skilgreiningar, ítarlegri reglur um undirbúning skilameðferðar, þá sérstaklega hvað samstæður varðar, einstakar valdheimildir þess stjórnvalds sem fer með skilavald samkvæmt tilskipuninni og heimildir sama stjórnvalds til ráðstafana vegna samninga. Veigamestu breytingar tilskipunarinnar varða reglur um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar. Sú krafa sem gengur í daglegu tali undir heitinu MREL-krafa felur í sér að bankar þurfa á hverjum tíma að uppfylla tilgreint og afmarkað lágmarkshlutfall fjármagns, þ.e. eigin fjár og skulda, þannig að þeir búi við fullnægjandi tapþol og hægt sé að endurreisa eiginfjárgrunn þeirra, teljist þeir á fallanda fæti. Tilskipunin uppfærir meðal annars hvernig MREL-kröfur eru reiknaðar út, þær skuldbindingar sem hægt er að nota til að uppfylla kröfurnar og valdheimildir á borð við bann við tilteknum útgreiðslum, þar á meðal arðgreiðslum eða kaupauka, ef bankar uppfylla ekki kröfurnar. Varðandi skuldbindingar sem hægt er að nota til að uppfylla MREL-kröfur þá áskilur tilskipunin að tiltekinn hluti þeirra sé undirskipaður. Með kröfunni um undirskipan er átt við að skuldbindingunum sé skipað í kröfuröð fyrir ofan eiginfjárgrunnsgerninga og víkjandi lán sem ekki teljast til eiginfjárgrunnsgerninga en fyrir neðan aðrar forgangslausar skuldbindingar, sem skilaúrræðinu eftirgjöf verður ekki beitt gagnvart.
    Ýmsar breytingar tilskipunar (ESB) 2019/879 varða svo reglur þegar samstæða er með starfsemi yfir landamæri og sérstakar kröfur á alþjóðlega kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki og hafa því takmarkaða eða enga þýðingu hér á landi.
    Haft var samráð við utanríkismálanefnd um upptöku tilskipunar (ESB) 2019/879 til samræmis við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Einnig var haft samráð við nefndina í aðdraganda fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem umrædd ákvörðun var tekin og hún kynnt nefndinni sérstaklega. Nefndin gerði ekki athugasemdir við upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn.
    Upptaka fyrrgreindrar gerðar í EES-samninginn og innleiðing hennar hér á landi kallar á lagabreytingar. Tilskipunin verður innleidd með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020 (lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar o.fl.), og verður það lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Fyrirséð áhrif af samþykkt frumvarps til innleiðingar á tilskipun (ESB) 2019/879 eru engin hvað ríkissjóð varðar. Þá verður skilavald Seðlabanka Íslands í stakk búið að takast á við þau auknu verkefni sem leiða af samþykkt frumvarpsins.
    Verði frumvarpið samþykkt sem lög frá Alþingi mun það stuðla að því að reglur um undirbúning og framkvæmd skilameðferðar verða samræmdar við gildandi reglur innan Evrópska efnahagssvæðisins. Reglurnar skapa réttarvissu fyrir fjármálafyrirtæki, einkum um kröfur þeirra til fjármögnunar með skuldabréfaútgáfum.
    Í lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, er fjallað um áhrif af MREL-kröfunum sem ákveða skal fyrir einstök fjármálafyrirtæki. Þar kemur meðal annars fram að þær muni mögulega hafa í för með sér breytta fjármagnsskipan íslensku bankanna og aukið vaxtaálag á skuldabréf sem flokkast sem hæfar skuldbindingar.

4.     Ákvörðun nr. 329/2022 frá 9. desember 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
    Með ákvörðun nr. 329/2022 eru felldar inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/2259 frá 15. desember 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 að því er varðar framlengingu á umbreytingarfyrirkomulagi fyrir rekstrarfélög, fjárfestingarfélög og aðila sem veita ráðgjöf um eða selja hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða og sjóða sem ekki eru verðbréfasjóðir og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/2261 frá 15. desember 2021 um breytingu á tilskipun 2009/65/EB að því er varðar notkun rekstrarfélaga verðbréfasjóða á lykilupplýsingaskjölum.
    Um ívilnandi reglur er að ræða. Með reglugerð (ESB) 2021/2259 var framlengd til 31. desember 2022 undanþága fyrir rekstraraðila sjóða fyrir almenna fjárfesta frá gildissviði reglugerðarinnar um lykilupplýsingar. Í undanþágunni fólst að rekstraraðilar sjóðanna þurftu ekki að útbúa lykilupplýsingaskjöl samkvæmt reglugerðinni, enda væru þeir undir lagaskyldu til að útbúa lykilupplýsingar samkvæmt tilskipun um verðbréfasjóði. Tilgangur undanþágunnar var að tryggja að aðilarnir þyrftu ekki bæði að útbúa lykilupplýsingaskjöl samkvæmt tilskipun um verðbréfasjóði og reglugerð um lykilupplýsingaskjöl og fjárfestarnir að kynna sér bæði skjölin áður en fjárfestingarákvörðun væri tekin.
    Með tilkomu tilskipunar (ESB) 2021/2261 munu rekstraraðilar sjóða fyrir almenna fjárfesta ekki þurfa að útbúa lykilupplýsingar í samræmi við tilskipunina um verðbréfasjóði ef þeir hafa útbúið lykilupplýsingaskjöl í samræmi við reglugerðina um lykilupplýsingar, enda teljist lykilupplýsingaskjöl samkvæmt reglugerðinni uppfylla skilyrði tilskipunarinnar um lykilupplýsingar.
    Haft var samráð við utanríkismálanefnd um upptöku tilskipunar (ESB) 2021/2261 til samræmis við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Einnig var haft samráð við nefndina í aðdraganda fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem umrædd ákvörðun var tekin og hún kynnt nefndinni sérstaklega. Nefndin gerði ekki athugasemdir við upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn.
    Reglugerð (ESB) 2021/2259 hefur þegar verið innleidd í íslenskan rétt með lögum um breytingu á lögum um fjárhagslegar viðmiðanir og lög um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta (vísitölur á fjármálamarkaði og upplýsingagjöf til fjárfesta), nr. 134/2021, enda fól hún í sér framlengingu á undanþágu fyrir rekstraraðila frá gildissviði reglugerðarinnar um lykilupplýsingum frá desember 2021 til desember 2022.
    Tilskipun (ESB) 2021/2261 var innleidd á yfirstandandi löggjafarþingi með breytingum á lögum um verðbréfasjóði og lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, sbr. lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (nýsköpun, fjöldatakmörk vistvænna ökutækja o.fl.), nr. 128/2022.

5.     Ákvörðun nr. 333/2022 frá 9. desember 2022 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn.
    Með ákvörðuninni er felld inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1724 frá 2. október 2018 um að koma á sameiginlegri stafrænni gátt til að veita aðgang að upplýsingum, málsmeðferðarreglum og aðstoð og þjónustu til lausnar á vandamálum og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012.
    Reglugerðin snýr að því að koma á fót miðlægri evrópskri þjónustugátt. Gáttin auðveldar öllum sem hafa áhuga á að búa, starfa eða stunda viðskipti í öðru EES-ríki en eigin heimalandi að finna upplýsingar um reglur og afgreiðsluferla mála og að fá aðstoð við og aðgang að stafrænum þjónustuferlum í hverju landi í gegnum samhæft notendavænt viðmót á tungumáli sem þeir geta skilið.
    Reglugerðinni er ætlað að styðja aðildarríkin í að veita upplýsingar og aðstoða einstaklinga og fyrirtæki sem vilja sinna erindum þvert á landamæri, sérstaklega þegar ætlunin er að læra, flytja og/eða eiga viðskipti í öðru Evrópulandi. Eitt af markmiðum reglugerðarinnar er að nota stafræna þjónustu til að draga eins mikið og mögulegt er úr stjórnsýsluhindrunum. Reglugerðin kveður á um að í gegnum gáttina verði hægt að fá aðgengi að ákveðnum upplýsingum frá aðildarríkjum með notendavænum hætti þannig að borgarar og fyrirtæki fái einfaldlega aðgang að opinberum málum sínum á miðlægum stað á eigin móðurmáli auk a.m.k. einu öðru útbreiddu tungumáli (ensku).
    Reglugerðin miðar að því að allar tegundir stafrænnar þjónustu sem skipta máli fyrir starfsemi yfir landamæri skuli vera aðgengilegar notendum á einsleitan hátt. Jafnframt er takmarkið að borgarar og fyrirtæki þurfi ekki að auðkenna sig sérstaklega á milli aðildarríkja heldur dugi rafræn auðkenning sem lögð er fram í heimalandi viðkomandi.
    Haft var samráð við utanríkismálanefnd um upptöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1724 til samræmis við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Einnig var haft samráð við nefndina í aðdraganda fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem umrædd ákvörðun var tekin og hún kynnt nefndinni sérstaklega. Nefndin gerði ekki athugasemdir við upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn.
    Upptaka reglugerðar (ESB) 2018/1724 í EES-samninginn og innleiðing hennar hér á landi kallar á lagabreytingar. Reglugerðin verður innleidd með frumvarpi til laga um upplýsingatækni í rekstri ríkisins sem væntanlega verður lagt fram á 154. löggjafarþingi.
    Áhrif innleiðingarinnar felast einkum í auknu aðgengi einstaklinga og lögaðila innan EES að upplýsingum um reglur og málsmeðferð stjórnsýslunnar, stafrænum þjónustuferlum og aðstoð sem stendur til boða. Innleiðing reglugerðarinnar leiðir til samræmdari upplýsingagjafar en í ljósi þess að Ísland stendur nú þegar framarlega í veitingu stafrænnar þjónustu og í upplýsingagjöf er þess að vænta að sá kostnaður sem innleiðingin hefur í för með sér verði takmarkaður. Álag og kostnaður vegna gerðarinnar mun dreifast jafnt innan stofnanakerfisins og rúmast innan núverandi fjárveitinga. Enda þótt einhver kostnaður kunni að fylgja innleiðingu reglugerðarinnar má vænta þess að hagræðing sem fylgir bættri upplýsingagjöf og auknu aðgengi að stafrænni þjónustu vegi á móti þeim kostnaði.

6.     Ákvörðun nr. 337/2022 frá 9. desember 2022 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn.
    Með ákvörðun nr. 337/2022 er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1808 frá 14. nóvember 2018 um breytingu á tilskipun 2010/13/ESB um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu (tilskipun um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu) í ljósi breytinga á markaðsaðstæðum felld inn í EES-samninginn.
    Í mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á tilskipun 2010/13/ESB meðal annars fram að hún fæli ekki í sér fullnægjandi vernd barna og neytenda á mynddeiliveitum. Einnig var leitt í ljós ósamræmi á milli krafna sem gerðar væru til línulegrar og ólínulegrar miðlunar og að reglur tilskipunarinnar um viðskiptaboð þyrfti að endurskoða. Að baki breytingartilskipuninni liggur einnig að áhorfsvenjur fólks hafa breyst og þá sérstaklega barna. Línulegt áhorf hefur minnkað og meira er horft á efni í ólínulegri dagskrá og á mynddeiliveitum. Nauðsynlegt var talið að reglur um fyrrnefndar miðlunarleiðir yrðu samræmdar til að stuðla að jafnræði fjölmiðla óháð þeirri miðlunarleið sem þeir kjósa. Þá hefur einnig orðið gífurleg tækniþróun á undanförnum árum, sérstaklega þegar litið er til þess hvernig efni er miðlað og því nauðsynlegt að lagaumhverfið endurspegli þær breytingar. Helstu breytingar sem gerðar eru með tilskipun (ESB) 2018/1808 eru að svokallaðar mynddeiliveitur (e. video sharing platforms) munu falla undir tilskipunina, ítarlegri reglur eru settar um staðfestu fjölmiðla og auknar kröfur eru gerðar um framboð á evrópsku efni þar sem miðlað er efni eftir pöntun. Vernd barna er aukin gegn efni sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðislegan þroska þeirra. Skerpt er á banni við að dreifa efni sem hvetur til ofbeldis, haturs og refsiverðs verknaðar og er hvatning til hryðjuverka og efni sem lýtur að kynþátta- og útlendingahatri sérstaklega tilgreint.
    Haft var samráð við utanríkismálanefnd um upptöku tilskipunar (ESB) 2018/1808 til samræmis við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Nefndin gerði ekki athugasemdir við upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn.
    Upptaka tilskipunar (ESB) 2018/1808 í EES-samninginn og innleiðing hennar hér á landi kallar á lagabreytingar. Gert er ráð fyrir að efni tilskipunarinnar verði innleitt með breytingum á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, og verður frumvarp þar að lútandi lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Fjölmiðlanefnd sinnir eftirliti með fjölmiðlum og fjölmiðlaveitum landsins. Gert er ráð fyrir að verkefni fjölmiðlanefndar muni aukast við innleiðingu tilskipunarinnar og því er talið nauðsynlegt að bætt verði við einu stöðugildi til að tryggja að nefndin geti sinnt öllum þeim skyldum sem tilskipunin gerir kröfur um.
    Bein áhrif á fjölmiðla og fjölmiðlaveitur eru þau að gerðar verða ríkari kröfur til þeirra um að tryggja vernd barna gegn efni sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðislegan þroska þeirra. Einnig þurfa fjölmiðlar og fjölmiðlaveitur að tryggja réttindi sjón- og heyrnarskertra með textun og hljóðlýsingu. Þá eru lagðar auknar skyldur á fjölmiðlaveitur sem miðla myndefni eftir pöntun til að tryggja að evrópskt efni á veitum þeirra sé að lágmarki 30% af framboði þeirra. Í tilskipuninni eru gerðar kröfur þess efnis að þeir sem bjóða upp á mynddeiliþjónustu geri viðeigandi ráðstafanir, meðal annars til að vernda börn gegn óæskilegu efni og almenning gegn hatursáróðri. Þá er þess einnig krafist að mynddeiliveitur geri notendum sínum auðvelt að tilkynna efni sem fer gegn reglum þeirra og ákvæðum laga. Reglurnar snúast ekki um efni mynddeiliveitna sem slíkt heldur aðeins að þær bjóði upp á að notendur geti gripið til tiltekinna ráðstafana eða aðgerða, t.d. merki með viðeigandi hætti óæskilegt efni eða viðskiptaboð. Þá er mælt fyrir um aukna vernd barna gegn viðskiptaboðum.

7. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2021 frá 5. febrúar 2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s1240-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2102 frá 26. október 2016 um aðgengi vefsetra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir fartæki.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s1240-f_II.pdf


Fylgiskjal III.



Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 145/2022 frá 29. apríl 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s1240-f_III.pdf



Fylgiskjal IV.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/879 frá 20. maí 2019 um breytingu á tilskipun 2014/59/ESB að því er varðar tapþol og endurfjármögnunargetu lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og tilskipun 98/26/EB.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s1240-f_IV.pdf



Fylgiskjal V.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 329/2022 frá 9. desember 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s1240-f_V.pdf



Fylgiskjal VI.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/2259 frá 15. desember 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 að því er varðar framlengingu á umbreytingarfyrirkomulagi fyrir rekstrarfélög, fjárfestingarfélög og aðila sem veita ráðgjöf um eða selja hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða og sjóða sem ekki eru verðbréfasjóðir.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s1240-f_VI.pdf


Fylgiskjal VII.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/2261 frá 15. desember 2021 um breytingu á tilskipun 2009/65/EB að því er varðar notkun rekstrarfélaga verðbréfasjóða á lykilupplýsingaskjölum.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s1240-f_VII.pdf



Fylgiskjal VIII.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 333/2022 frá 9. desember 2022 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s1240-f_VIII.pdf


Fylgiskjal IX.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1724 frá 2. október 2018 um að koma á sameiginlegri stafrænni gátt til að veita aðgang að upplýsingum, málsmeðferðarreglum og aðstoð og þjónustu til lausnar á vandamálum og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s1240-f_IX.pdf


Fylgiskjal X.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 337/2022 frá 9. desember 2022 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s1240-f_X.pdf


Fylgiskjal XI.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1808 frá 14. nóvember 2018 um breytingu á tilskipun 2010/13/ESB um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu (tilskipun um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu) í ljósi breytinga á markaðsaðstæðum.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s1240-f_XI.pdf