Ferill 539. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1598  —  539. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (rafvæðing smábáta).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn telur að rafvæðing smábáta sé jákvæð þróun sem mikilvægt er að stefna að. Horfa þarf á heildarmyndina svo líklegt sé að settum metnaðarfullum markmiðum um að draga úr losun og hraða orkuskiptum verði náð. Skerpa þarf á nokkrum atriðum áður en haldið er af stað.
    Samkvæmt Samgöngustofu lá ekki fyrir kostnaðargreining á skoðunum, eftirliti og skráningu rafbáta né var hún innifalin í rekstraráætlun stofnunarinnar þegar frumvarpið var lagt fram. Nauðsynlegt er að þær stofnanir sem sinna eftirliti og skráningu séu í stakk búnar til þess að uppfylla hlutverk sitt áður en til lagabreytingar kemur.
    Í fyrrasumar lönduðu strandveiðibátar í 44 höfnum. Í umsögn Hafnasambands Íslands vegna áforma um rafvæðingu smábáta var bent á að fjárfesta þyrfti fyrir tugi milljarða króna í innviðum hafna fyrir orkuskipti. Hafnir landsins verða að geta annað slíkri eftirspurn og orkuskipti eru til lítils ef innviðirnir eru ekki til staðar.
    Landssamband smábátaeigenda vakti athygli á því að ekki væru nægir hvatar til orkuskipta. Kostnaðurinn af hönnun og nýsmíði rafvædds smábáts væri svo gríðarlegur að 100 kg af aukaafla væru aðeins dropi í hafið í samanburði. Markmið um orkuskipti þurfa að vera raunhæf ef stjórnvöldum er alvara með að hraða þeim, til að mynda væri hægt að fara sambærilega leið og farin var í rafvæðingu bílaflotans með tímabundnum ívilnunum til að flýta orkuskiptum. Einnig hefur verið bent á að jákvæðir hvatar dugi ekki einir og sér, heldur sé skynsamlegt að beita samhliða svokallaðri mengunarbótareglu, þ.e. að sá sem veldur mengun skuli að jafnaði bera þann kostnað sem hlýst af því. Það fjármagn mætti nýta til aðgerða í þágu orkuskipta í sjávarútvegi, en sú leið hefur gefið góða raun í Noregi.
    Þó að hroðvirknisleg vinnubrögð dugi til þess að haka við atriði á markmiðalista ríkisstjórnarinnar varðandi loftslagsmál þá skila þau ekki raunverulegum orkuskiptum í samfélaginu nema vandað sé til verka.

Alþingi, 14. apríl 2023.

Gísli Rafn Ólafsson.