Ferill 689. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1640  —  689. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um tónlistarstefnu fyrir árin 2023–2030.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Brynju Einarsdóttur, Baldur Þóri Guðmundsson, Bryndísi Jónatansdóttur og Hildi Jörundsdóttur frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, Braga Valdimar Skúlason og Þórunni Grétu Sigurðardóttur frá STEFi – sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, Maríu Rut Reynisdóttur frá Reykjavíkurborg, Örn Hrafnkelsson frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Svanhildi Konráðsdóttur frá Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi, Sigrúnu Grendal og Jóhann Inga Benediktsson frá Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, Magnús Þór Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Sigtrygg Baldursson og Hrefnu Helgadóttur frá ÚTÓN, Önnu Láru Steindal og Unni Helgu Ottósdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Valgerði Jónsdóttur frá Tónstofu Valgerðar.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Kennarasambandi Íslands, Hörpu – tónlistar- og ráðstefnuhúsi ohf., Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Landssamtökunum Þroskahjálp, Reykjavíkurborg, STEFi – sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, Teiti Magnússyni, Tónstofu Valgerðar ehf. og ÚTÓN. Þá barst nefndinni minnisblað frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu.

Megináherslur tillögunnar.
    Með tillögunni er menningar- og viðskiptaráðherra falið að vinna að framkvæmd tónlistarstefnu sem hefur það markmið að styðja við tónlist sem listgrein, tónlistarfólk og aðra sem starfa við tónlist með jöfnu aðgengi að tónlist og tónlistarmenntun. Tónlist er mikilvægur hluti af menningu landsins þar sem hún er bæði atvinnuskapandi og mikilvæg útflutningsgrein. Stórt skref verður stigið með stofnun tónlistarmiðstöðvar sem hefur það hlutverk að veita greininni aukna kjölfestu og trúverðugleika og liðka fyrir starfsemi íslensks tónlistarfólks innan lands sem utan.
    Stefnan samanstendur af þremur megináhersluatriðum sem hvert um sig hefur tiltekin markmið og aðgerðir til að ná þeim áherslum. Fyrsta áhersluatriðið fjallar um tónlistarmenningu og tónlistarmenntun og snýr að aðstöðu, tónlistararfleifð og varðveislu menningarverðmæta á sviði tónlistar og tónlistarmenntunar. Annað megináhersluatriði stefnunnar fjallar um tónlist sem atvinnugrein og snýr m.a. að því að hér á landi verði sterkur og framsækinn tónlistariðnaður og að tónlist verði fullgild og eftirsóknarverð atvinnugrein. Þriðja og síðasta megináhersluatriðið fjallar um útflutning á tónlist og snýr annars vegar að auknum útflutningstekjum af tónlist og hins vegar að sjálfbærni og umhverfisvitund.

Umfjöllun og breytingartillögur nefndarinnar.
    Nefndin fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar um tónlistarstefnu og leggur áherslu á að hún nái fram að ganga. Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir gagnvart efni stefnunnar og fagna því að unnið sé að heildarstefnu í málefnum tónlistar á Íslandi. Benda þeir sérstaklega á mikilvægi tónlistar í íslenskri menningu sem nefndin tekur heils hugar undir.

Rekstrarumhverfi og lífsafkoma tónlistarfólks.
    Nefndin bendir á að tillagan miðast að meginstefnu til við tónlistariðnaðinn sjálfan sem er mikilvægt markmið hennar. Engu að síður telur nefndin þörf á að fjalla um rekstrarumhverfi og lífsafkomu tónlistarfólks í stefnunni með það að markmiði að stefna að bættri afkomu þess. Slíkt markmið eflir allt tónlistarlíf og fellur því vel að stefnunni sjálfri. Nefndin leggur til að við markmið 2.2. bætist nýr liður sem fjallar um þetta efni.

Aðgengi, jafnrétti og inngilding.
    Nokkrir umsagnaraðilar benda sérstaklega á mikilvægi þess að aðgengi, jafnrétti og inngilding verði höfð að leiðarljósi þegar settar eru stefnur og reglur á sviði tónlistar. Landssamtökin Þroskahjálp benda á mikilvægi þess að við alla þá vinnu verði fullt tillit tekið til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland fullgilti árið 2016 og að fullt samráð verði haft við fatlað fólk. Nefndin tekur undir þessar ábendingar og leggur sérstaka áherslu á að fatlað fólk verði ávallt haft til samráðs við allar ákvarðanir stjórnvalda sem varða hagsmuni þess.
    Þá benda samtökin á mikilvægi þess að við endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla, sbr. markmið 1.3., verði tekið tillit til jafnréttis og inngildingar og að sérstaklega verði hugað að stöðu tónlistarskóla sem kenna fötluðu fólki, fjármögnun þeirra og kröfum um námsframvindu. Í umsögn Tónstofu Valgerðar er lögð áhersla á að jafnrétti og inngilding verði sett fram þannig að virki í framkvæmd og að taka þurfi tillit til einstaklinga með sérþarfir. Tónstofan veitir nemendum, sem vegna fötlunar eða sjúkdóma þurfa sérstakan stuðning, forgang að tónlistarkennslu.
    Nefndin tekur undir mikilvægi þess að einstaklingar með sérþarfir hafi jafnt aðgengi að tónlistarkennslu. Nefndin bendir á að leiðarstef tónlistarstefnunnar séu aðgengi, inngilding og jafnrétti og leggur áherslu á að þau leiðarstef verði höfð að leiðarljósi við innleiðingu stefnunnar. Til að árétta þetta mikilvæga leiðarstef leggur nefndin til að við bætist nýr liður við megináherslu 1 um tónlistarmenningu og -menntun um stuðning við verkefni sem tengjast aðgengi fatlaðs fólks að tónlistariðkun svo það fái að njóta og þróa tónlistarhæfileika sína.

Útflutningur á íslenskri tónlist.
    Í megináherslu 3 í stefnunni er fjallað um útflutning á íslenskri tónlist. Í lið 3.1.3. er lagt til að skoðað verði hvernig virkja megi enn frekar samstarf við sendiskrifstofur Íslands erlendis í útflutningi og kynningu á íslenskri tónlist og tónlistarfólki. Reykjavíkurborg benti í umsögn sinni og fyrir nefndinni á að sendiskrifstofur hafi mismunandi burði til að taka við slíkum verkefnum. Leggur Reykjavíkurborg því til að við liðinn bætist að sendiskrifstofurnar verði sérstaklega skoðaðir með tilliti til þess hvort þær hafi burði til að taka við þessum verkefnum. Nefndin tekur undir þessar ábendingar og leggur til breytingu þess efnis.
    Þá leggur nefndin til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringa. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      2. málsl. 1. mgr. falli brott.
     2.      Við megináherslu 1 bætist nýr liður, 1.3.5., svohljóðandi: Áhersla verði lögð á stuðning við verkefni sem tengjast aðgengi fatlaðs fólks að tónlistariðkun svo það fái að njóta og þróa tónlistarhæfileika sína. Þannig verði stuðlað að þátttöku fatlaðs fólks í menningarlífi og listum.
                 Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneytið.
                 Tímaáætlun: 2023–2026.
                 Kostnaður: Verði metinn eftir einstökum verkefnum.
     3.      Við markmið 2.2. bætist nýr liður, 2.2.4., svohljóðandi: Úttekt verði gerð á starfsumhverfi tónlistarfólks með það að markmiði að finna leiðir til að bæta lífsafkomu þess og efla listgreinina.
                 Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneytið.
                 Tímaáætlun: Vorið 2025.
                 Kostnaður: Verði metinn síðar og falli á ríkissjóð.
     4.      Í stað orðanna „tengdri því“ í lið 2.3.3. komi: í því skyni.
     5.      Orðið „efnileg“ í lið 3.1.2. falli brott.
     6.      1. málsl. liðar 3.1.3. orðist svo: Skoðað verði hvernig virkja megi enn frekar samstarf við sendiskrifstofur Íslands erlendis í útflutningi og kynningu á íslenskri tónlist og tónlistarfólki og í því skyni verði burðir sendiskrifstofanna til að taka við slíkum verkefnum skoðaðir sérstaklega.

    Bergþór Ólason, Jódís Skúladóttir og Sigurjón Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur álitinu.

Alþingi, 25. apríl 2023.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir,
frsm.
Jóhann Friðrik Friðriksson.
Helga Vala Helgadóttir. Halldór Auðar Svansson. Berglind Ósk Guðmundsdóttir.