Ferill 17. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 17  —  17. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um verkferla um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.


Flm.: Elsa Lára Arnardóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Ingibjörg Isaksen, Iða Marsibil Jónsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra að vinna að aðgerðaáætlun um verkferla um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna. Sú vinna verði unnin í framhaldi af vinnu starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um mótun leiðbeininga fyrir starfsfólk skóla í tengslum við framkvæmd reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Úrræði verði mótuð á grunni nýrra farsældarlaga og byggð upp sem stuðningskerfi í kringum börn og ungmenni, fjölskyldur þeirra og starfsfólk skólakerfisins. Samráð verði haft við heilbrigðisráðherra, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Háskóla Íslands og aðra hagaðila við gerð aðgerðaáætlunarinnar.
    Ráðherra leggi aðgerðaáætlun um verkferla fyrir Alþingi eigi síðar en í maí 2023.

Greinargerð.

    Markmið tillögu þessarar er að fela mennta- og barnamálaráðherra að vinna að aðgerðaáætlun um verkferla um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna. Lagt er til að sú vinna verði unnin í framhaldi af vinnu starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um mótun leiðbeininga fyrir starfsfólk skóla í tengslum við framkvæmd reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Vinna skal úrræði á grunni nýrra farsældarlaga og byggja upp sem stuðningskerfi í kringum börn og ungmenni, fjölskyldur þeirra og starfsfólk skólakerfisins.
    Samkvæmt tillögunni skal hafa samráð við heilbrigðisráðherra, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Háskóla Íslands og aðra hagaðila við gerð aðgerðaáætlunarinnar. Aðgerðaáætlun um verkferla skal lögð fyrir Alþingi eigi síðar en í maí 2023.
    Samkvæmt eigindlegri rannsókn sem Soffía Ámundadóttir gerði til M.Ed.-prófs í stjórnun menntastofnana kemur í ljós að líkamlegt ofbeldi grunnskólabarna færist í aukana og verður sífellt grófara. Rannsóknin var gerð meðal skólastjórnenda í Reykjavík sem segja þetta þróun sem þeir finni fyrir í störfum sínum. Skólastjórnendur segja algeran skort á stuðningi og miðstýrðum verkferlum. En það er mikil áskorun fyrir skólasamfélagið að takast á við þessi mál sem eru erfið og viðkvæm og taka oft verulega mikið á.
    Þau börn og ungmenni sem eru í þessari flóknu stöðu beita ofbeldi meðal annars vegna vanlíðunar, kvíða, þunglyndis og slakrar félagsfærni. Þess vegna er mikilvægt að vinna áfram með þann megintilgang farsældarlaganna að auka þverfaglegt samstarf innan þeirra kerfa sem veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu, ásamt því að efla fyrirbyggjandi aðgerðir í málefnum barna með fjölþættan vanda, efla stuðning við fjölskyldur, auka fræðslu með virkri sí- og endurmenntun fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og fjölga aðgerðum og leiðum til lausna börnum til hagsbóta.
    Allir skólastjórnendur sem tóku þátt í rannsókninni voru sammála um að skortur sé á fræðslu og ofbeldisforvörnum. Skólastjórnendur voru jafnframt sammála um að það vantaði miðstýrða verkferla, að skortur sé á skráningum og viðbragðsáætlunum. Starfsfólk skóla upplifir stundum óöryggi og vantar verkferla og verkfæri þegar takast þarf á við krefjandi aðstæður. Þess vegna er mikilvægt að koma fram með viðurkenndar aðferðir sem taka á ógnandi hegðun og ofbeldishegðun og koma inn með markvissa fræðslu fyrir börn, ungmenni, fjölskyldur þeirra og starfsfólk skólakerfisins. Í þessu samhengi er mikilvægt að líta til 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.
    Skort hefur faglegan stuðning og samþætt úrræði fram til samþykktar farsældarlaganna. Farsældarlögin fyrirskipa samþættingu þjónustu allra þeirra sem vinna að þjónustu og kennslu barna og byggja þarf upp miðstýrða verkferla um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.