Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024

2. mál á 154. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að breyta ýmsum lögum sem tengjast tekju- eða gjaldahlið ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að krónutöluskattar (kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, almennt og sérstakt bensíngjald, bifreiðagjald og gjald á áfengi og tóbak) hækki um 3,5%. Sama gildir um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins. Gert er ráð fyrir hækkun á lágmarksfjárhæð bifreiðagjalds sem lagt er á fólksbíla. Þá er lagt til að gerðar verði breytingar á eftirlitsgjaldi til að standa undir áætluðum kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlits og skilavalds innan Seðlabanka Íslands. Gert er ráð fyrir lækkun gjaldhlutfalls vegna greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara í samræmi við áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar. Lagt er til bráðabirgðaákvæði sem koma skal í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Lagt er til að sóknargjöld verði lækkuð og að breytingar verði gerðar á fjárhæð losunargjalds samkvæmt lögum um loftslagsmál. Þá er stefnt að hækkun úrvinnslugjalds á hjólbarða og gerðar verða breytingar á verðmætagjaldi sjókvíaeldis. Gert er ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila hækki tímabundið til eins árs um eitt prósentustig. Flestar aðrar breytingar tengjast framlengingu bráðabirgðaákvæða.

Breytingar á lögum og tengd mál

Alls er verið að breyta 21 lögum.

Kostnaður og tekjur

Gjöld
Tillaga í frumvarpinu um óbreyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins leiðir til þess að útgjöld vegna vaxtabóta nema 2,8 milljörðum króna á árinu 2024. Gert er ráð fyrir að hlutur ofanflóðasjóðs í kostnaði við vinnu við gerð hættumats verði allt að 140 milljónir kr.

Tekjur
Verðlagsuppfærsla krónutölugjalda mun auka tekjur ríkissjóðs um 3,1 milljarða kr. Hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra nemur samtals um 320 milljónum kr. Áætlað er að hækkun lágmarksfjárhæðar bifreiðagjalds skili ríkissjóði 1,3 milljörðum kr. í viðbótartekjur.  Áætlað er að breytingar á verðmætagjaldi vegna sjókvíaeldis skili ríkissjóði um 630 milljónum kr. Tekjuáhrif á ríkissjóð nema samtals um 5.378 milljónum kr.


Síðast breytt 14.09.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.