Samantekt um þingmál

Tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi

314. mál á 154. löggjafarþingi.
Innviðaráðherra.

Markmið

Að bregðast við bráðavanda í húsnæðismálum umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpinu er ætlað að greiða fyrir því að Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, f.h. Vinnumálastofnunar, geti tekið á leigu húsnæði sem er þegar fyrir hendi á húsnæðismarkaði en sem ekki hefur verið ætlað til búsetu, eða nýtt þess háttar húsnæði sem er þegar í eigu ríkisins, undir tímabundin búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd án þess að afla þurfi byggingarleyfis fyrir breyttri notkun húsnæðisins til búsetu eða ráðast í breytingar á aðal- eða deiliskipulagi hlutaðeigandi sveitarfélags, enda uppfylli húsnæðið nánar skilgreind skilyrði um öryggi, brunavarnir og hollustuhætti sem og um gæði nærumhverfis.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um brunavarnir, nr. 75/2000.
Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
Lög um mannvirki, nr. 160/2010.
Skipulagslög, nr. 123/2010.

Kostnaður og tekjur

Tillögur frumvarpsins hafa ekki bein fjárhagsleg áhrif en þær geta hins vegar haft í för með sér afleiddan kostnað vegna þeirra breytinga sem gera þarf á umræddu húsnæði til að það uppfylli þau skilyrði sem sett eru í frumvarpinu. Mat Vinnumálastofnunar og Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna er að fyrir árslok 2023 þurfi að bæta við húsnæði fyrir um 3.000 manns. Ef lagt er til grundvallar að húsnæði í eigu ríkisins verði breytt til notkunar sem tímabundið búsetuúrræði fyrir samtals 3.000 manns gæti kostnaðurinn við það numið á bilinu 2,4–3,8 milljarða kr.


Síðast breytt 29.11.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.