Samantekt um þingmál

Skattar og gjöld

468. mál á 154. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að auka skilvirkni í skatta- og tollframkvæmd og gera löggjöfina skýrari.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld, s.s. útvíkkun á gistináttaskatti þannig að hann nái jafnframt til gistinátta í skemmtiferðaskipum sem leggjast að höfn hér á landi. Þá eru lögð til ákvæði sem snúa m.a. að lækkun áfengisgjalds á drykki sem lítil brugghús framleiða, afnámi tollfrelsis á skemmtiferðaskip, breytingum á skattskyldu erlendra aðila af tekjum frá föstum starfsstöðvum hér á landi og skattfrelsi styrkja úr Orkusjóði til tekjulægri einstaklinga vegna kaupa á hreinorkubílum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um gistináttaskatt, nr. 87/2011.
Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
Lög um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995.
Tollalög, nr. 88/2005.
Lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.
Lög um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.
Höfundalög, nr. 73/1972.
Lög um útflutning hrossa, nr. 27/2011.
Búvörulög, nr. 99/1993.
Lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
Lög um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að fyrirhugaðar breytingar á gistináttaskatti leiði til 1,8 milljarða kr. tekjuauka fyrir ríkissjóð, þar af 1,6 milljarða kr. í gistináttaskatt og 0,2 milljarða kr. í hliðaráhrif á virðisaukaskatt. Skatturinn mun því samtals skila um 3,1 milljarði kr. árið 2024. Þar af er áætlaður 0,25 milljarðar kr. vegna sölu gistingar um borð í skipum við Ísland sem hingað til hafa verið undanþeginum skattinum. Skattfrelsi styrkja úr Orkusjóði til kaupa á hreinorkubílum hefur í för með sér tekjutap fyrir ríkið sem nemur u.þ.b. 1 milljarði kr. árið 2024. Gert er ráð fyrir að lækkun áfengisgjalds fyrir tiltekið magn af bjór sem lítil, sjálfstæð brugghús framleiða leiði til tæplega 0,2 milljarða kr. tekjutaps fyrir ríkið. Áhrif þessarar lækkunar á innfluttan bjór eru óljós en búist er við að þau verði minni. Fyrirhugað afnám tollfrelsis til handa skemmtiferðaskipum sem eru skráð erlendis en eru notuð í innanlandssiglingum gæti haft jákvæð fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð en fjárhæðir í því samhengi liggja þó ekki fyrir.


Síðast breytt 29.11.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.