Samantekt um þingmál

Kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða

507. mál á 154. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að tryggja ríkissjóði sjálfbæra tekjuöflun af bifreiðum til framtíðar í því skyni að treysta forsendur fyrir fjármögnun á uppbyggingu og rekstri vegakerfisins. Að koma á auknu jafnræði og sanngirni í gjaldtöku vegna notkunar á vegakerfinu með einfaldleika og gagnsæi að leiðarljósi.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag gjaldtöku í formi kílómetragjalds vegna notkunar hreinorkubíla, þ.m.t. rafmagns- og vetnisbíla, og tengiltvinnbíla á vegakerfinu. Gert er ráð fyrir að nýtt kerfi taki gildi 1. janúar 2024 og að í upphafi verði það einskorðað við fólks- og sendibíla.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að tekjuauki ríkissjóðs af nýju gjaldtökukerfi verði 3 milljarðar kr. á árinu 2024. Innleiðing kerfisins mun hafa í för með sér ótilgreindan kostnað vegna uppsetningar og reksturs álagningarkerfa og hugbúnaðarkerfa hjá Skattinum auk annarra viðbótarverkefna hjá bæði Skattinum og Samgöngustofu. Ef álagning kílómetragjalds leiðir til minni aksturs á vegum í eigu ríkisins minnkar það slit á þeim og því má gera ráð fyrir lægri viðhaldskostnaði til lengri tíma litið.


Síðast breytt 29.11.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.