Samantekt um þingmál

Vopn, sprengiefni og skoteldar

183. mál á 141. löggjafarþingi.
Innanríkisráðherra.

Markmið

Heildarendurskoðun á gildandi löggjöf með tilliti til reynslu af eldri löggjöf og aukinnar alþjóðlegrar samvinnu. Einnig eru með frumvarpinu innleiddar tvær Evróputilskipanir.

Helstu breytingar og nýjungar

Ýmsar skilgreiningar miða að því að gera löggjöfina skýra og framkvæmd skilvirka. Skilið er á milli efnisflokka sem varða ákvæði um framleiðslu, innflutning, verslun og meðferð vopna. Gert er ráð fyrir að refsingar fyrir brot gegn vopnalöggjöfinni verði hertar. Upptökuákvæði hafa verið endurskoðuð og ný ákvæði eru þar um réttindasviptingu.

Breytingar á lögum og tengd mál

Ef frumvarpið verður samþykkt falla úr gildi vopnalög nr. 16/1998.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Umsagnir (helstu atriði)

Margar umsagnir bárust. Nokkrar þeirra lutu að ákvæðum um skotvopn til sportveiða, íþróttaiðkunar og atvinnu en bent var á að ekki væri skilið nægilega vel milli ákvæða um framangreinda notkun og glæpastarfsemi. Gerðar voru athugasemdir við að hljóðdeyfar væru óheimilir samkvæmt frumvarpinu. Skotvopnasafnarar og skotveiðifélög gerðu athugasemdir við takmarkanir á skotvopnaeign. Mannvirkjastofnun telur óljóst hvort efna- og sýklavopn falla undir gildissvið frumvarpsins og hvaða efni teljast sprengi- og íblöndunarefni. Tollstjóri og Ríkislögreglustjóri óskuðu m.a. eftir að bætt yrði við skilgreiningu á heimatilbúinni sprengju.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar

Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur, nr. 2007/23/EB, og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 4. apríl 2008 um að koma á kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota, nr. 2008/43/EB, sem samþykktar voru af sameiginlegu EES-nefndinni 10. nóvember 2010 með ákvörðun nr. 119/2010.

Forslag til regulering av bombekjemikalier (2012). Direktoratet for samfunnssikkerhet og beredskap.



Síðast breytt 12.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.