Samantekt um þingmál

Fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta

233. mál á 143. löggjafarþingi.
Félags- og húsnæðismálaráðherra.

Markmið

Að gera einstaklingum í verulegum greiðsluörðugleikum, og leitað hafa annarra úrræða við greiðsluvanda án árangurs, kleift að krefjast galdþrotaskipta á búi sínu.

Helstu breytingar og nýjungar

Umboðsmaður skuldara getur að uppfylltum tilteknum skilyrðum veitt umsækjendum fjárhagsaðstoð sem felst í greiðslu á tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskiptanna. Algengast er að dómarar ákveði lágmarkstryggingu að fjárhæð 250 þúsund kr. við skipti á búum einstaklinga.

Breytingar á lögum og tengd mál

Sjá einnig lög um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010.

Kostnaður og tekjur

Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs aukist um 140 milljónir kr. á árinu 2014. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að afkoma hans verði óbreytt vegna fyrirhugaðrar hækkunar ríkistekna í formi aukinnar gjaldtöku á gjaldskylda aðila til greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

Umsagnir (helstu atriði)

Umsagnaraðilar voru almennt sammála markmiði frumvarpsins en gerðu athugasemdir við þá leið sem valin er. Þeir töldu meðal annars eðlilegra að aðgerðin væri greidd úr ríkissjóði en kostnaður legðist ekki á fjármálafyrirtæki og lánastofnanir.

Afgreiðsla

Frumvarpið varð að lögum með lagatæknilegum breytingum. Aðrar breytingar eru þær að gerðar eru sambærilegar kröfur um háttsemi skuldara og gert er í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga og kveðið er á um gögn sem skulu fylgja umsókn um fjárhagsaðstoð. Ráðherra verður skylt að setja reglugerð um framkvæmd laganna.

 



Síðast breytt 04.02.2014. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.