Samantekt um þingmál

Ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014

3. mál á 143. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að breyta nokkrum lögum er varða tekjur og gjöld ríkissjóðs.

Helstu breytingar og nýjungar

Almenn 3% hækkun á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra, útvarpsgjaldi, skrásetningargjöldum í opinbera háskóla, hækkun á sóknargjöldum og framlagi til þjóðkirkjunnar. Lagðar eru til breytingar á fjárhæðum greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en fallið frá lengingu fæðingarorlofs. Þá er um að ræða ákvæði er varða útreikning á kostnaðarþátttöku vistmanna í hjúkrunarrýmum fyrir aldraða og er lagt til að gjaldhlutfall vegna greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara verði lækkað. Loks er um að ræða ákvæði um lækkun skattfrádráttar til handa nýsköpunarfyrirtækjum og breytingar á lögum um Ríkisútvarpið og lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Breytingar á lögum og tengd mál

Breyta á 19 lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs.

Kostnaður og tekjur

Tekjur ríkissjóðs aukast um 2,7 milljarða árið 2014. Ekki liggur fyrir kostnaðarmat á þeim breytingum sem gerðar voru á frumvarpinu.

Umsagnir (helstu atriði)

Ekki eru gerðar margar efnislegar athugasemdir við frumvarpið en hækkunum gjaldskrár og lækkunum á útgjöldum ríkissjóðs mótmælt.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. Helstu atriðin voru að hætt var við svonefndan sjúklingaskatt og lækkun skattfrádráttar til nýsköpunarfyrirtækja var frestað og að auki breytingum sem hefðu haft áhrif á fjárhag RUV.


Síðast breytt 02.01.2014. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.