Samantekt um þingmál

Húsnæðisbætur

788. mál á 144. löggjafarþingi.
Félags- og húsnæðismálaráðherra.

Markmið

Að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda þannig að stuðningurinn verði jafnari húsnæðisstuðningi við kaupendur íbúðarhúsnæðis innan vaxtabótakerfisins. Frumvarpið er liður í að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform.  

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að félags- og húsnæðismálaráðherra fari með yfirstjórn húsnæðisbóta til leigjenda og Tryggingastofnun ríkisins fari með framkvæmdina. Þannig flyst stjórnsýsla og umsýsla með almennum húsaleigubótum frá ­sveitarfélögum til ríkisins. Greiðsla sérstakra húsaleigubóta því til viðbótar verður eftir sem áður á hendi ­sveitarfélaga. Lagt er til að húsnæðisbætur verði greiddar mánaðarlega líkt og húsaleigubætur og að grunnfjárhæðir taki mið af fjölda heimilismanna óháð aldri.
Lagt er til að húsnæðisbótakerfið gangi í gildi í byrjun ársins 2016 en þó þannig að breytt frítekjumörk taki gildi í byrjun ársins 2017 og þar með verði kerfið komið að fullu til framkvæmda.

Breytingar á lögum og tengd mál

Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi lög um húsaleigubætur nr.  138/1997.
  • Skylt mál: Húsaleigulög, 696. mál (félags- og húsnæðismálaráðherra) á 144. þingi (01.04.2015)

Kostnaður og tekjur

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna húsnæðisbóta til leigjenda aukist varanlega um liðlega 2 milljarða kr. á ári og verði nálægt 6,6 milljörðum kr. frá og með árinu 2017 miðað við núgildandi verðlag.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar

Skýrsla verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála. Velferðarráðuneytið, maí 2014.

Löggjöf á Norðurlöndum
Danmörk
Bekendtgørelse af lov om individuel boligstøtte LBK nr 158 af 18/02/2015.

Noregur
Lov om bustøtte (bustøttelova) LOV-2012-08-24-64.

Svíþjóð
Socialförsäkringsbalk ( 2010:110).
Sjá einkum: bostadsstöd í  93.- 103. kafla (avdelning G).

Finnland
Lag om allmänt bostadsbidrag 14.11.2014/938.
Lag om bostadsbidrag för pensionstagare 11.5.2007/571.


Síðast breytt 03.07.2015. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.